Main Header

PLÖTUR

polar bear flare Undir valmyndinni Plötur finnur þú allar plötur Bubba frá upphafi ásamt myndum af plötalbúmum, lista yfir lög og texta. 

LÖG OG TEXTAR

bubbi_og_megas Í gagnagrunninum okkar eru öll lög og textar Bubba. Notaðu leitina til að finna það lag sem þú ert að leita að.

SPJALLTORG

login-min Taktu þátt í umræðunum á spjalltorginu. Athugaðu að þú verður að vera innskráður til að hafa aðgang.

TÍMALÍNA OG MOLAR

3-worlds Undir valmyndinni tímalína er rakin saga Bubba. Undir Molar eru margir skemmtilegir pistlar.
Bylgjan Image

Stál & Hnífur

á Bylgjunni kl. 20:00

öll mánudagskvöld

Pistlar Bubba Image

Sjá Pistla Bubba

HÉR

LAGALEIT

Plötur

Grein um Breyttir tímar

Pönkið er ekkert nema tíska og ég er ekki sáttur við að ég megi ekki gagnrýna þessa krakka þegar þau eru að láta hafa sig að fíflum. Það var í lagi að segja: Ég er löggiltur hálfviti, hlusta á HLH og Brimkló, en þegar ég segi: Ég er amerískur diskópönkari og styð markaðinn, þá fara krakkarnir að grenja…
(Bubbi í viðtali 8. apríl 1982)

Þeirri bláköldu staðreynd verður ekki haggað að hljómsveitin Egó var hljómsveit Bubba Morthens. Þessi fullyrðing kemur sterklega fram í viðtölum við sveitina á fyrstu vikum og mánuðum eftir að hún hóf æfingar. Til viðbótar má benda á að Bubbi er sá eini sem verið hefur meðlimur í öllum útgáfum Egósins.

Drög að Egoinu urðu til í kjallaraíbúð í vesturbænum haustið 1981, þegar Bubbi heimsótti Begga bróður sinn og sameiginlegan vin og æskufélaga þeirra bræðra, bassaleikarann Þorleif Guðjónsson. En þeir Beggi og Þolli höfðu þá verið að æfa saman um tíma. Strax var hafist handa við að fylla upp í liðskipan sveitarinnar, sem hlaut þegar í stað nafnið Egó. Ragnar Sigurðsson, sem áður hafði leikið með hljómsveitinni Tívolí, var strax nefndur til sögunnar og þá var gítargúrúinn Björgvin Gíslason orðaður við bandið, en hann bar það af sér þegar fjölmiðlar báru fréttina undir hann. Eftir að hafa reynt tvo eða þrjá trommuleikara var Jóhann Richard betur þekktur sem Jói ,,Motorhead“ fenginn til leiks og þar með var bandið fullmannað og æfingar hófust á tvöföldum hraða.

Egoið var fyrst opinberað á útvöldum kynningartónleikum á Hótel Borg 10. október 1981. Við það tækifæri var kynntur fyrsti landsbyggðartúr sveitarinnar, sem áætlaði 16. tónleika og hófst 2. nóvember í Valaskjálf og lauk með tónleikum á Hótel Borg 26 dögum síðar. Sveitin hafði vart slegið lokatón þess ferðalags þegar fyrstu mannabreytingarnar lágu fyrir, en Ragnar Sigurðsson yfirgaf þá sveitina og hélt til náms í Danmörku. Í janúarmánuði var fyrsta plata Egósins komin á dagskrá og í DV 22. janúar 1982 segir Bubbi m.a.: ,,Við förum í stúdíó í febrúarbyrjun. Við tökum upp 14 lög og gefum út á tveim plötum. Að stofni til verður ein 10 laga plata en síðan ætlum við að gefa eina fjögurra laga með í kaupbæti. Reyndar finnst mér alveg synd að geta ekki tekið upp fleiri lög. Við erum með 20-25 lög, sem ég hefði viljað koma í plast, en það verður að velja og hafna. Sannast sagna erum við í stökustu vandræðum þessa dagana.“

Aðeins fáum dögum eftir þessa yfirlýsingu Bubba hófst dramatískur fréttaflutningur í dagblöðum þess efnis að Magnús Stefánsson fyrrum trommuleikari Utangarðsmanna væri hættur með Bodies og gengi hugsanlega til liðs við Brimkló. Bubbi brást við þessum fréttum með því að funda með félaga sínum og eftir næturlangt spjall lá fyrir að Maggi tæki við trommusettinu af Jóa Motorhead. Sveitin kom fyrst fram með þessa breyttu liðsskipan á útitónleikum 6. febrúar 1982, þar sem tekin voru upp atriði fyrir mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Rokk í Reykjavík. Þrátt fyrir að Maggi þætti þétta bandið var skammur tími til stefnu vegna plötuútgáfunnar. Áætlanir voru nú endurskoðaðar og á næstu tíu dögum æfði Maggi upp þau níu lög sem sveitin valdi fyrir plötuupptökur.

Þann 10. febrúar mætti sveitin í Hljóðrita ásamt upptökustjóra sínum Tómasi M. Tómassyni sem var þeim innan handar með hljómborðsleik. Þá var talið í fyrsta lagið sem hljóðritað var, Stórir strákar fá raflost. Í kjölfarið komu lögin Vægan fékk hann dóm, Minnismerki og Tungan. Tveim dögum síðar var lagið Tungan hljóðritað á ný og var sú hljóðritun notuð á plötuna en þá voru einnig tekin upp lögin Sieg heil og Ráð til vinkonu. Í lok upptökudags var tekin smá inprófersering. Þar fer Bubbi með ljóð við undirleik hluta sveitarinnar. Bubbi átti síðar eftir að fínpússa þetta ljóð og laga það til uns eftir stóð Reykjavík brennur sem lenti á þriðju plötu Egósins. Aftur mætti sveitin 14. febrúar í hljóðverið og þá var tekið upp á þriðja og síðasta upptökubandið fyrir þessa plötu. Það band hefur að geyma lögin Breyttir tímar, Móðir og Jim Morrison sem reyndar var nefnt Spegill drauma þeirra meðan upptökur fóru fram.

Hljóðver og upptökur sem þessar kostuðu mikið og þóttu dýrar árið 1982 og því var ekki verið að bruðla með einhvern leikaraskap eða eyða tíma í að taka upp efni sem ekki átti að nýta á viðkomandi plötu. Þó var ákveðið nokkru síðar að bæta við enskum útgáfum af söng á tveimur laganna og söng Bubbi inn enskar þýðingar á lögunum Stórir strákar fá raflost og Móðir. Aðra af þessum upptökum er að finna hér. Um leið og lögin níu höfðu verið fest á band brá sveitin sér til Kaupmannahafnar og lék þar á sögulegri árshátíð Íslendingafélagsins. Maggi trommari sem meiðst hafði á hendi skömmu áður sat heima af þeim sökum en í hans stað var Ásgeir Bragason fyrrum trommari Purrks Pilnikk fengin með til trommuleiks.

Plötu Egósins var beðið með mikilli eftirvæntingu og kom hún loks út 1. apríl 1982. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Á tæpum mánuði seldust 5000 eintök plötunnar sem sat lengur í efstu sætum sölulistanna en nokkur plata sem Bubbi hafði komið nálægt til þessa. Lög eins og Móðir, Stórir strákar fá raflost og Vægan fékk hann dóm fengu inni á útvarpsstöð landsmanna og nutu gífulegra vinsælda sumarið 1982.

Gagnrýnendur lofuðu gripinn og fannst sveitin hafa tekið miklum framförum frá því bárujárnsrokki sem hún hafði flutt í byrjun til þess melódíska popprokks sem platan hefur að geyma. Í umfjöllunum var gagnrýnendum tíðrætt um þau áhrif sem menn þóttust greina frá erlendum sveitum s.s. Stranglers og Doors, enda eitt laganna tileinkað söngvara þeirrar síðarnefndu.

Margir þeirra texta sem Bubbi reiddi fram fyrir plötuna endurspegla samfélagsumræðuna á þeim tíma, nægir þar að nefna lög eins og Vægan fékk hann dóm, Móðir og Sieg Heil. Enda voru pólitískar meiningar og samfélsgsádeila hluti þeirrar hugmyndafræði sem sveitin hafði lagt upp með, eins og Bubbi segir frá í bók sinni frá 1990: ,,Egó var yfirvegaðri og penni félagsskapur en Utangarðsmenn. Í staðinn fyrir leðrið komu jakkaföt. Við ákváðum að hafa þetta popphljómsveit af léttustu gerð, hvíld frá harða rokkinu, en kvika ekki frá pólitík í textagerð. Við ætluðum að búa harða texta í poppbúning og lauma þeim inn á unglingana.“ Og það tókst Egóinu heldur betur.

Bárður Örn Bárðarson
Greinin hér að ofan birtist fyrst í innleggi sérútgáfu plötunnar Breyttir tímar (2007)

BMK er aðdáendaklúbbur Bubba Morthens.

Stofnaður 06.06.06
Hvernig gerast menn félagar í BMK? 

Please publish modules in offcanvas position.