Það er ekki úr vegi að fjalla hér svolítið um Egóið í kjölfar þess að sveitin er um þessar mundir að senda frá sér nýja breiðskífu. Líkt og á fyrri plötum sveitarinnar standa þeir hálfgildings bræður Bubbi og Beggi þar hvað fremstir í flokki, meðal jafningja þó. Allt frá því Egónafnið var endurreyst hefur hún í hugum aðdáenda verið borin saman við þá sveit manna sem komu fram undir Egónafninu á árunum 1981-1984. Jafn fáránlegt og það virðist eru fordómum mannsins engin takmörk sett og fullyrðingar oft settar fram í algeru hugsanaleysi. Verður undirritaður einnig að taka á sig sök í því líkt og aðrir. Ósjaldan hafa heyrst fullyrðingar á borð við þá að líkja Egóinu nú saman við ,,Gamla", Egóið og að ,,nýja” Egóið eigi ekkert skylt við ,,gamla” Egóið. En hvað var ,,gamla” Egóið? Einu raunverulegu og aðgengilegu heimildirnar um þá hljóðlega séð eru þær þrjár plötur sem út komu á árumum 1982 og 1984. Á þessum plötum er sveitin aldrei sama sveitin það er liðsskipan er aldrei sú sama á neinni þeirra þriggja platna sem gefnar voru út. Því fyrir utan þá bræður Bubba og Begga komu menn og fóru ef frá er skilinn Tómas M. Tómasson sem upphaflega kom að sveitinni sem upptökustjóri og aðstoðaði þá við endanlegar útsetningar þeirra laga sem á plöturnar fóru, auk þess að leggja til spilamennsku. Á þessum tíma bjó Tómas yfir getu og reynslu sem nýttist hinum ungu piltum í Egóinu vel. Í dag er aftur á móti vel yfir 100 ára reynsla í spilamennski upptökum og útsetningum innan þessarar sveitar og menn ekki eins tímabundnir af því að taka meðulin sín og áður, það er að alsgáðir menn með þessa reynslu og langan tíma eru vel færir um að annast verkið sjálfir að stórum hluta. En horfum aftur til ársins 1982.