Main Header

PLÖTUR

polar bear flare Undir valmyndinni Plötur finnur þú allar plötur Bubba frá upphafi ásamt myndum af plötalbúmum, lista yfir lög og texta. 

LÖG OG TEXTAR

bubbi_og_megas Í gagnagrunninum okkar eru öll lög og textar Bubba. Notaðu leitina til að finna það lag sem þú ert að leita að.

SPJALLTORG

login-min Taktu þátt í umræðunum á spjalltorginu. Athugaðu að þú verður að vera innskráður til að hafa aðgang.

TÍMALÍNA OG MOLAR

3-worlds Undir valmyndinni tímalína er rakin saga Bubba. Undir Molar eru margir skemmtilegir pistlar.
Bylgjan Image

Stál & Hnífur

á Bylgjunni kl. 20:00

öll mánudagskvöld

Pistlar Bubba Image

Sjá Pistla Bubba

HÉR

LAGALEIT

Plötur

Grein um Ný spor

Raunar finnst mér sumt af þessari síðustu sólóplötu kappans bráðsmellið og eitt er víst að enginn hefur hælana í textagerð í rokktónlist hérlendis þar sem skugginn af hælum Bubba er, ef Ikarus-gengið er frátalið.“
(FRI í DV 22. maí 1984)

Platan Ný spor var unnin undir erfiðum kringumstæðum á vormánuðum 1984. Orsakir þessara erfiðleika má að mestu skrifa á aukna eiturlyfjaneyslu Bubba sem farið hafði stigmagnandi frá því hann steig fyrst fram á sjónarsviðið með Utangarðsmönnum.

Í ársbyrjun 1984 var staðan ekki glæsileg. Hjónaband Bubba og Ingu Sólrúnar Friðjónsdóttur var komið að endastöð og lauk um líkt leyti og hún hélt til náms í ljósmyndun til San Francisco í Bandaríkjunum. Þá höfðu tíðar mannabreytingar innan Egó síst orðið þeirri sveit til framdráttar og loks má nefna trúnaðarbrest sem orðið hafði á milli Bubba og útgáfufyrirtækisins Steina hf í árslok 1983. Bubbi vildi losna undan samningi við fyrirtækið sem taldi Bubba enn skuldbundinn því með samningum frá árinu 1982. Á þessum tímapunkti átti Ego eftir að skila Steinum hf einni plötu samkvæmt þriggja plötu samningi sveitarinnar við útgáfuna. Þessi ágreiningur Bubba og útgáfunnar varð efni á síðum dagblaðanna á útmánuðum árins 1984 þar sem ásakanir gengu á víxl. Svo fór að Bubbi samdi við útgáfufyrirtækið Safarí Records um að annast útgáfu sólóplötunnar Ný spor.

Á sama tíma gaf Steinar hf út þriðju plötu Egó. Safarí Records var nátengt skemmtistaðnum Safarí við Skúlagötu sem var nánast orðinn annað heimili Bubba á þessum tíma og sá staður sem bæði Bubbi og Ego spiluðu mest á. Var hann við það að leysa Hótel Borg af hólmi í flutningi lifandi tónlistar í Reykjavík. Áður hafði plata Frakkanna komið út á vegum Safarí en bassaleikari þeirrar sveitar var Þorleifur Guðjónsson, fyrrum Egómeðlimur og æskufélagi Bubba.

Á vormánuðum 1984 hélt Egó í Hljóðrita til upptöku á sinni þriðju, og síðustu plötu, þrátt fyrir að í viðtölum hafi sveitin viðrað þær langanir sínar að hljóðrita plötuna á erlendri grund. Hafði Bretland þá helst verið nefnt í því sambandi. Útgáfufyrirtækið var hinsvegar ekki reiðubúið að taka þátt í þeim kostnaði og voru því upptökurnar keyrðar áfram í Hljóðrita og platan tekin upp á mettíma. Skömmu eftir að sveitin hélt í hljóðver hóf Bubbi upptökur á fjórðu sólóplötu sinni, Ný Spor, á sama stað.

Þegar leið á upptökurnar varð Bubba ljóst að af því efni sem þegar hafði verið hljóðritað fyrir þessar tvær plötur, var mesta púðrið líklega í lagi Egó, Strákarnir á Borginni. Hann ákvað því að falast eftir því við aðra meðlimi sveitarinnar að kaupa lagið út af plötu hennar og flytja það yfir á sólóplötuna. Þetta var auðsótt mál af hálfu annarra meðlima Egó enda voru þeir allir orðnir má segja afhuga útgáfufyrirtækinu þegar hér var komið við sögu. Svo fór að opnunarlag sólóplötu Bubba var í raun Ególagið um strákana á Borginni. Bubba til aðstoðar við gerð sólóplötunnar í hljóðverinu var Þorleifur Guðjónsson bassaleikari Frakkanna, sá hinn sami og Bubbi hafði að kröfu félaga sinna í Egó rekið úr sveitinni tæpum tveimur árum áður. Þá sá Þorsteinn Magnússon um gítarleik ásamt Bubba, en nýr í hópnum var Fúsi ,,Fallbyssa“ úr Baraflokknum. Sigurður Bjóla Garðarsson stjórnaði upptökum en auk þess sá Sigurður Helgason um hluta af hljóðblöndun.

Það efni sem Bubbi mætti með í hljóðverið var að mestu nýtt af nálinni og jafnvel svo að í sumum tilfellum lágu ekki fyrir fullmótaðar hugmyndir að útsetningum, þó laglínurnar væru í mörgum tilfellum klárar. Þetta má vel heyra þegar hlustað er á aukatökur laga eins og Pönksvíta no. 7 og Utangarðsmenn. Tónlistarnálgunin er þó heiðarleg. Þetta er hefðbundin rokktónlist, þar sem rafgítar, trommur, bassi og rödd halda lögunum uppi að öllu leyti og lítið er kryddað með öðrum hljóðum eða hljóðfærum. Söngur Bubba er látinn liggja framarlega í hljóðblönduninni og undirstrikar það sterklega að hér er um sólóplötu hans að ræða sem ætlað er það hlutverk að koma skoðunum og skilaboðum hans á framfæri á sem skýrastan hátt. Auðheyrt er að ekki hefur verið legið yfir textunum og þeir líklega lítið endurskrifaðir. Þó þessi fljótfærnisvinnubrögð eigi sér skýringar í því ástandi sem ríkti í ríki Bubba á þessum tíma, koma þau óneitanlega niður á plötunni sé litið á hana sem heild. Þar ægir öllu saman; innhverfum textum í nánast prósakenndum stíl í bland við ádeilutexta í líkingu við Þeir ákveða hvað er klám og samkenndarljóðið um Vilmund.

Um það leyti sem plöturnar Ný Spor og Egó komu út gaf Bubbi út þá yfirlýsingu að hann hygðist hverfa af landi brott og væri á leið til Bandaríkjanna þar sem hann ætlaði að reyna fyrir sér á tónlistarsviðinu. Eftir að sú frétt fór á kreik voru ýmsir nefndir til sögunnar sem samferðamenn hans á því ferðalagi en að lokum var það fyrrum Utangarðsmeðlimur, Daniel Pollock, sem flaug utan með Bubba. En áður en Bubbi hvarf af landi brott var efnt til mikilla tónleika á Safarí auk þess sem Vísnavinir ákváðu að slá upp einskonar kveðjuveislu á sama stað þann 3. maí 1984 og aðalnúmer kvöldsins var Bubbi Morthens. Það er lán að þessir tónleikar voru festir á band og er efni af þeim meðal aukalaga á þessari útgáfu plötunnar.

Þrátt fyrir að Ný spor fengi frekar slæma útreið plötugagnrýnenda voru gæði hennar vel yfir meðallagi sé horft á íslenskan plötumarkað almennt þetta ár. Allavega tóku plötukaupendur henni ágætlega og fleyttu henni strax á topp söluhæstu platna þó ekki dveldi hún þar lengi. Hefði þessi plata verið unnin á öðrum tímapunkti og undir öðrum kringumstæðum þar sem Bubbi hefði getað fullunnið efnið af þeim metnaði sem hann hafði ávallt leitast við á fyrri plötum sem og síðar, hefði útkoman án efa orðið önnur og betri.

Bárður Örn Bárðarson
Greinin hér fyrir ofan birtist fyrst í innleggi viðhafnarútgáfu plötunnar Ný Spor 2006

 

BMK er aðdáendaklúbbur Bubba Morthens.

Stofnaður 06.06.06
Hvernig gerast menn félagar í BMK? 

Please publish modules in offcanvas position.