Main Header

PLÖTUR

polar bear flare Undir valmyndinni Plötur finnur þú allar plötur Bubba frá upphafi ásamt myndum af plötalbúmum, lista yfir lög og texta. 

LÖG OG TEXTAR

bubbi_og_megas Í gagnagrunninum okkar eru öll lög og textar Bubba. Notaðu leitina til að finna það lag sem þú ert að leita að.

SPJALLTORG

login-min Taktu þátt í umræðunum á spjalltorginu. Athugaðu að þú verður að vera innskráður til að hafa aðgang.

TÍMALÍNA OG MOLAR

3-worlds Undir valmyndinni tímalína er rakin saga Bubba. Undir Molar eru margir skemmtilegir pistlar.
Bylgjan Image

Stál & Hnífur

á Bylgjunni kl. 20:00

öll mánudagskvöld

Pistlar Bubba Image

Sjá Pistla Bubba

HÉR

LAGALEIT

Plötur

Grein um 56

„Leitun og nýsköpun hafa einkennt allan músikferil Bubba. Það er hluti af skýringu á sífelldum ofurvinsældum rokkkóngsins. Að þessu sinni gefur sköpunargleðin þó af sér óþægilega sundurleita plötu. Fimm mislöng lög í fjórum ólíkum stíltegundum...
Á móti kemur að Bubbi hefur gott vald á öllum músikstílunum og í sjálfu sér eru flest lögin ekta ,,smellir“. Titillag ,,Foxtrot“ - myndarinnar er m.a. eitt besta íslenska lagið á síðari árum.”

(Æskan 8. tbl. 1988)

Í ársbyrjun 1988 má segja að Bubbi hafi verið í góðri stöðu hvað ferilinn varðaði. Tvær síðustu sólóplötur hans, Frelsi til sölu og Dögun, höfðu selst í stórum upplögum og var Dögun í efsta sæti lista yfir mest seldu plöturnar í upphafi árs. Þessi velgengni gerði Bubba kleift að gera nánast hvað sem var, allt sem hann gerði virtist verða að gulli. Snemma árs sendi Bubbi frá sér myndband við lagið Rétt númer, lag sem var innlegg í umræður um einelti og átti það sæti yfir mest leiknu lög Rásar tvö snemma árs. Þegar Bubbi ljáði íslensku útgáfu kvikmyndarinnar Foxtrot samnefnt lag, þaut það upp sama lista og þótti ekki annað fært en að koma því sem fyrst á plötumarkað. Til að sinna því hlutverki var platan 56 sett saman. Fyrstu fréttir af útgáfunni mátti líta í inngangi að viðtali við Bubba sem birtist í Morgunblaðinu 18. ágúst 1988, en þar segir:

,,Bubbi Morthens er í þann mund að senda frá sér nýja plötu sem á eru fimm lög og ber heitið 56. Þetta verður þó ekki eina platan sem Bubbi sendir frá sér á árinu. Því á næstu mánuðum er æntanleg frá honum plata með enskum textum sem sænska fyrirtækið Mislur gefur út í Svíþjóð, auk þess sem fregnir herma að hann muni taka upp plötu með Megasi innan skamms sem kemur út fyrir jól“. Þegar þetta birtist var Bubbi staddur á tónleikaferðalagi í Svíþjóð með sænsku rokksveitinni Imperiet. Hlutverk Bubba var að koma fram einn með gítarinn áður en sænska rokksveitin hóf leik. Bubbi var þó snúinn aftur heim þegar platan kom út í lok ágústmánaðar.

Heiti plötunnar 56 er bein tilvísun í fæðingarár Bubba og var eins og áður segir fyrst og fremst ætlað það hlutverk að koma á framfæri laginu Foxtrot. Önnur lög plötunnar voru í raun tengd vinnu hans í Svíþjóð, lög sem hann hafði hljóðritað með þarlendum tónlistarmönnum eða tekið upp hér heima, einskonar íslenskar útgáfur laga sem sum hver áttu eftir að lenda á plötunni Serbian Flower í breyttri mynd. Þar með talið aðallagið Foxtrot sem fékk heitið I am just I, lagið Sársauki sem varð Battlefield of Sex, svo dæmi séu tekin.

Flest lög plötunnar hafði Bubbi flutt áður við hin ýmsu tækifæri, bæði á tónleikum sem og í sjónvarpi eða útvarpi. Má sem dæmi nefna stórtónleika, sem sýndir voru í beinni útsendingu Sjónvarpsins, sem efnt var til á Miklatúni 17. júlí til heiðurs Mandela og yfir 3000 manns mættu á. Þar flutti Bubbi m.a. lagið Freedom For Sale með breyttum texta undir heitinu Top Gun, en það heiti var tilvísun í þá frægu kvikmynd. Klóakkrossfarana hafði Bubbi flutt í sjónvarpssal snemma árs 1988 og svo mætti áfram telja.

Þegar hlustað er á flutning Bubba á þessum lögum frá hinum ýmsu tækifærum má glögglega heyra að Bubbi er að þróa þessi lög, bæði laglínu og texta og tóku þau breytingum frá einum flutningi til annars. Platan 56 sem kom út seinni hluta ágústmánaðar 1988, fékk ekki mikla umfjöllun gagnrýnenda nema þá helst norðan heiða þar sem nokkrar umræður spunnust á síðum Dags um gæði skífunnar. Meira bar á jákvæðri gagnrýni í umfjöllun um tónleika sem Bubbi efndi til 22. september á Hótel Íslandi vegna tilkomu plötunnar og til kynningar á Serbian Flower sem þá var væntanleg. Sér til aðstoðar á þeim tónleikum hóaði Bubbi í sama mannskap og verið hafði með honum á útgáfutónleikum Dögunar árið áður. Hópurinn samanstóð af fjórum meðlimum Þursaflokksins sem voru Ásgeir Óskarsson, Karl Sighvatsson, Þórður Árnason og Tómas M. Tómasson.

Platan 56 stendur sem vitnisburður um það efni sem Bubbi var að vinna að á þessum tíma. Og um leið sýnir hún okkur ákveðinn feril í þroska og þróun Bubba sem laga- og textahöfundar. Með laginu Freedom For Sale sem Bubbi hafði flutt undir heitinu Top Gun er þessi plata einnig endapunkturinn á Cohen-skotnum pælingum Bubba í útsetningum laga sinna. Og kannski svarar upphafslína lagsins Foxtrot einna best þeirri spurningu sem hefur svo oft verið varpað fram: Hver er Bubbi Morthens? - ,,Ég er bara ég“.

Bárður Örn Bárðarson

Greinin hér að ofan birtist fyrst í innleggi viðhafnarútgáfu plötunnar 56 (2006)

BMK er aðdáendaklúbbur Bubba Morthens.

Stofnaður 06.06.06
Hvernig gerast menn félagar í BMK? 

Please publish modules in offcanvas position.