Main Header

PLÖTUR

polar bear flare Undir valmyndinni Plötur finnur þú allar plötur Bubba frá upphafi ásamt myndum af plötalbúmum, lista yfir lög og texta. 

LÖG OG TEXTAR

bubbi_og_megas Í gagnagrunninum okkar eru öll lög og textar Bubba. Notaðu leitina til að finna það lag sem þú ert að leita að.

SPJALLTORG

login-min Taktu þátt í umræðunum á spjalltorginu. Athugaðu að þú verður að vera innskráður til að hafa aðgang.

TÍMALÍNA OG MOLAR

3-worlds Undir valmyndinni tímalína er rakin saga Bubba. Undir Molar eru margir skemmtilegir pistlar.
Bylgjan Image

Stál & Hnífur

á Bylgjunni kl. 20:00

öll mánudagskvöld

Pistlar Bubba Image

Sjá Pistla Bubba

HÉR

LAGALEIT

Plötur

Grein um Nóttin langa

„Bubbi eflist sem tónlistarmaður með hverri plötu. ,,Nóttin langa“ sannar það. Lögin eru þrælgóð, útsetningarnar framandi og seiðandi. Textana vil ég heldur kalla ljóð en texta þeir geta staðið sjálfstæðir án laganna. Ljóðin sýna að Bubba fer einnig fram sem skáldi. Ég hvorki vil né get gefið svona plötu ákveðna einkunn, en ef við notum grófan stjörnueinkunnarskala þá gef ég plötunni fullt hús stiga...“
(Bjartmar Guðlaugsson tónlistarmaður í Æskunni 19. tbl. 1989)

Árið 1989 hafði Bubbi staðið í sviðsljósinu í heil tíu ár. Hann fagnaði þessum áfanga með enn einni kúvendingunni á ferlinum; Nóttinni löngu. Þó upptökutími plötunnar væri ekki langur, eða frá fyrri hluta febrúar fram til 5. mars, leið langur tími frá því hugmynd að plötunni fæddist og þar til platan var kláruð. Á þeim tíma hvarf útgáfufyrirtækið Gramm af íslenskum plötumarkaði og úr rústum þess reis Geisli. Einnig leið langur tími frá því Nóttin langa var kláruð og þar til hún komst í hillur verslana. Á þeim tíma hafði Bubbi sent frá sér tólftommu plötuna Hver er næstur? sem kom út í júní. Platan var í raun mjög frábrugðin því sem Bubbi hafði verið að vinna að á Nóttinni löngu því hér var Bubbi kominn í rokkgírinn. Öll lög plötunnar báru annað heiti meðan á upptökum þeirra stóð. Titillagið kallaði Bubbi Yfir rúðuna rann, Þú þekkir þessi augu var Annars manns sæði og lokalagið Sumarið í Reykjavík hafði Bubbi nefnt Rónarnir í Reykjavík. Sér til aðstoðar við gerð tólftommunnar var hópur manna sem  kallaði sig Blómið. Auk þessara þriggja laga hljóðritaði sveitin lag Sigfúsar Halldórssonar Vegir liggja til allra átta, sem af sérstökum ástæðum fór ekki á plötu fyrr en tíu árum síðar.

Árið 1989 var annasamt. Bubbi fór tónleikaferð um landið í apríl og maí. Þá vann hann sjónvarpsþátt undir stjórn Egils Eðvarðssonar og sendi frá sér áðurnefnda plötu, Hver er næstur? Þó Bubbi hafi haft í nógu að snúast á árinu ber útgáfa plötunnar Nóttin langa þó líklega hæst og kannski best að Bubbi segi sjálfur frá því hvernig þessi framandi plata þróaðist frá hugmynd til hljómplötu. Grípum því niður í símaviðtal Helga Más Skúlasonar við Bubba sem birtist í DV 28. október 1989:

,,Hugmyndin að plötunni varð til í Svíþjóð, hjá mér og Cristian Falk. Ég sagði honum frá því að ég hefði áhuga á að fullvinna vissar hugmyndir sem ég hefði gengið með í maganum en aldrei í rauninni fundið réttu samstarfsmennina, menn sem ég treysti til að vinna þessar hugmyndir.

Pælingin var að blanda saman tónlist frá Asíu, arabískum og spænskum áhrifum. Þessu átti síðan að blanda við popp og rokk. Cristian Falk leist vel á svo við ákváðum að slá til og gera plötu eins fljótt og hægt væri. Hann fann síðan helv... magnaðan náunga sem heitir Johann og er ásláttarsnillingur. Hann hefur mikið verið að spila með framúrstefnulistamönnum í Svíþjóð og Austurlöndum, auk þess sem hann hefur verið með lunganum úr sænsku sinfóníuhljómsveitinni. Hann er útspekúleraður í öllu sem við kemur ásláttarleik í austurlenskri og arabískri tónlist.

Nú, síðan fengum við Ken Thomas sem er breskur en hann hefur unnið talsvert með Psychic TV og síðan hefur hann einnig verið með júgóslavneskri hljómsveit sem er tiltölulega þekkt neðanjarðarfyrirbæri í Evrópu og Bandaríkjunum. Þegar við vorum búnir að vera hálfan mánuð að undirbúa þessa plötu bættist Hilmar Örn við.

Þegar hér var komið sögu bjuggum við til lítið samfélag og kölluðum okkur ,,Lamana ógurlegu“, hver maður kom frá sínu landi með sína tónlist. Þessu reyndum við að hræra saman í pott. Áður var ég búinn að semja slatta af textum, ólíkum textum í rauninni, sem þó eru í tengslum við það sem ég hef gert áður, textar sem voru opnir og buðu upp á alls konar stemningar. Vinnumórallinn var frábær, við vorum eins og skólastrákar. Við erum allir miklir sögumenn, glaðir kjaftaskar og það var oft mikið gaman. Þetta er líklega skemmtilegasti tími sem ég hef átt við plötuupptökur, í þessu samfélagi ,,Lamanna ógurlegu“.

Nú, plötuna tókum við upp á fjórum vikum og hún var, má segja, tilbúin í febrúar síðastliðnum. Eftir að hafa hlustað á upptökurnar öðru hvoru allan seinni part vetrar ákváðum við Hilmar að bæta við tveimur lögum, Háflóði og Friðargarðinum, en þá texta hafði ég ætlað að setja í ljóðabók. Ken Thomas var hér í fjóra daga, ég mætti með gítarinn og Hilmar með tölvurnar og við negldum lögin inn. Þau voru ætluð til að balansera plötuna aðeins og gera hana aðgengilegri.“

Til glöggvunar má hér bæta við að á upprunalegri geislaplötuútgáfu plötunnar má finna tvö lög sem ekki eru á LP plötunni. Þetta voru aukalög, hugsuð sem bónus fyrir þá sem fjárfest höfðu í þeirri tækni sem var óðum að ryðja sér til rúms. Það eru lögin Mér stendur ekki og Ég vil fá þína sál. Það fyrrnefnda var unnið sem aukalag og hugsað sem slíkt en hið síðarnefnda vék af LP plötunni fyrir Háflóði og Friðargarðinum.

Í tilefni af útkomu plötunnar 11. nóvember 1989 efndi Bubbi til tónleika á Hótel Íslandi ásamt breyttri liðskipan Lamanna ógurlegu og á næstu vikum kom sveitin fram á ýmsum tónleikum. Gagnrýnendur tóku plötunni vel og báru óspart lof á gripinn sem strax skaust upp alla lista yfir mest seldu plöturnar og opnunarlagið Háflóð, sem var síðasta lagið sem hljóðritað var fyrir plötuna, flögraði á toppi mest spiluðu laga útvarpsstöðvanna. Í árslok varð ljóst að Nóttin langa var mest selda platan hér á landi árið 1989 og nærri 13.000 eintök höfðu lent í höndum plötukaupenda.

Bubbi sem verið hafði í framlínunni í heil 10 ár gat varla annað en verið ánægður því fram kom í auglýsingum að með þessari plötu hafi Bubbi farið yfir 100.000 seldar plötu hér heima og í safni hans væru 19 gullplötur, 7 platínuplötur og 2 tvöfaldar platínuplötur. Þrátt fyrir þessa velgengni plötunnar voru geislar útgáfufyrirtækisins sem gaf plötuna út um það bil að slokkna. Eftir lifðu þó ómar sítarsins og seiðandi bjölluhljómar frá Tíbet á Nóttinni löngu sem stendur eftir sem vitni um að fái Bubbi hugmynd að tónlistarlegri nálgun þá er hann eins vís að fylgja henni eftir, og að dagur fylgir nótt, jafnvel þótt löng sé.

Bárður Örn Bárðarson

Greinin hér að ofan birtist fyrst í innleggi viðhafnarútgáfunnar Nóttin langa, árið 2006

 

BMK er aðdáendaklúbbur Bubba Morthens.

Stofnaður 06.06.06
Hvernig gerast menn félagar í BMK? 

Please publish modules in offcanvas position.