Main Header

PLÖTUR

polar bear flare Undir valmyndinni Plötur finnur þú allar plötur Bubba frá upphafi ásamt myndum af plötalbúmum, lista yfir lög og texta. 

LÖG OG TEXTAR

bubbi_og_megas Í gagnagrunninum okkar eru öll lög og textar Bubba. Notaðu leitina til að finna það lag sem þú ert að leita að.

SPJALLTORG

login-min Taktu þátt í umræðunum á spjalltorginu. Athugaðu að þú verður að vera innskráður til að hafa aðgang.

TÍMALÍNA OG MOLAR

3-worlds Undir valmyndinni tímalína er rakin saga Bubba. Undir Molar eru margir skemmtilegir pistlar.
Bylgjan Image

Stál & Hnífur

á Bylgjunni kl. 20:00

öll mánudagskvöld

Pistlar Bubba Image

Sjá Pistla Bubba

HÉR

LAGALEIT

Plötur

Grein um Fuglinn er floginn

Þar sem ég hef haft gífurlegan áhuga á tónlist frá unga aldri hef ég oft setið löngum stundum og spjallað við fólk um þetta helsta áhugamál mitt. Ég hef drukkið í mig allt það sem mér eldra fólk hefur haft að segja um t.d. tónleika Led Zeppelin og Deep Purple í Laugardalshöllini á sínum tíma, heimsóknir Kinks og fleiri hljómsveita, hvaða áhrif Bítlarnir hafi haft á líf þeirra, eða Rolling Stones…hvað Dylan hafi breytt miklu og …bla…bla…bla; Málið er að ég á mjög auðvelt með að skilja þetta allt saman.   

Ég hef  séð ófáar hemildarmyndir um sögu rokksins sem fæddist þegar blúsinn eignaðist barn og menn eins og Little Richard, Chuck Berry og Elvis breyttu heiminum, og ég hef líka lesið um það bækur.

Þeir Íslendingar, sem hafa sagt mér sögurnar af því hvernig þeim rann kalt vatn á milli skinns og hörunds þegar þeir heyrðu fyrst Little red rooster með Rolling Stones, Twist and shout með Bítlunum, eða Like a rolling stone með Dylan, þeir sáu hetjurnar aldrei spila í gamladaga þó svo að sumir hafi fengið að upplifa þær í návígi eftir að vera komnir á fullorðinsár; á sama hátt sá ég Utangarðsmenn aldrei spila. 

Ég var 11 ára þegar hljómsveitin varð til í upphafi árs 1980 og var ekkert mikið að spá í þennan Bubba og Utangarðsmenn fyrr en um áramótin ´80-´81. Eldri bróðir Halla vinar míns á Vogabrautinni á Skaganum átti plötuna ,,Geislavirkir” og við stálumst til að hlusta á hana eftir skóla þegar enginn var heima nema við tveir. Og þvílík tónlist!…ég hafði aldrei heyrt neitt þessu líkt.

Það var mikil tónlist á mínu heimili og í kringum mig alla tíð, en þegar ég heyrði í þessum köllum…þessum Bubba, Pollock-bræðrunum, Magga trommara og Rúnari…ja, það bara gerðist eitthvað sem hefur haft áhrif á allt mitt líf síðan. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það var…en líklega var það þessi sannleikur sem Utangarðsmenn boðuðu. Þeir voru að syngja um eitthvað sem ég skildi svo vel. Þeir sungu um kjarnorkusprengjur sem ég var og er auðvitað enn skíthræddur við; Þeir sungu um tónlistarást, migu yfir tilgerðarlegt diskó¬liðið og hobbý-pönkarana og bara hitt og þetta. A.m.k. fannst mér ég skilja þá svo vel, ekki síst vegna þess að megnið var sungið á íslensku…og ekki á neinni ,,ég-sakna-þín-svo-mikið-ástin-mín”-íslensku, sem höfðaði ekki mikið til mín þá. Lög eins og Fuglinn er floginn og fleiri fá ennþá hárin til að rísa á höfðinu á mér. Þetta voru reiðir, ungir menn í leðurjökkum, hrikalegir töffarar og mig dreymdi um að verða eins og þeir þegar ég yrði stór…og þó svo að þeir væru að syngja um hluti sem voru kannski ekkert alltof jákvæðir þá fyllti þessi tónlist líf mitt mikilli gleði.

Þegar ég hef í seinni tíð tjáð mig um Utangarðsmenn og áhrif þeirra á mig og mitt líf hef ég ósjaldan fengið að heyra: djöfull ertu hallærislegur maður…Bubbi Morthens eitthvað!!! Og svo sástu þá ekki einusinni spila! Ég sá þá nú einu sinni fyrir norðan einhversstaðar og þeir voru ekkert sérstakir!

Langflestir þeir Íslendingar, sem féllu 12-13-14 ára fyrir Bítlunum eða Rolling Stones á 7. áratugnum, sáu þessar hljómsveitir aldrei á sviði þá, á sínum tíma, frekar en ég ¬Utangarðsmenn á mínum tíma…Hvað er þá málið? Er málið ekki bara það að Bítlarnir voru útlenskir strákar en Utangarsðsmenn íslensk hljómsveit…er þetta bara eitthvað helvítis snobb?…Ég skildi þó allavega textana þá strax en ekki einhverjum 20-30 árum síðar eins og sumir af bítlakynslóðinni…Og þegar maður er 12 ára og býr á Akranesi er alveg jafn langt til Reykjavíkur og til London, Liverpool eða New York.
Þegar ég var 12 ára voru Bítlarnir hættir, Dylan skilinn og Rolling Stones gömul staðreynd. UTANGARÐSMENN voru mínir Bítlar og Stóns og minn Dylan…og ég er alls ekki sá eini.

Ólafur Páll Gunnarsson.

Greinin hér að ofan birtist fyrst í innleggi plötunnar Fuglinn er floginn

BMK er aðdáendaklúbbur Bubba Morthens.

Stofnaður 06.06.06
Hvernig gerast menn félagar í BMK? 

Please publish modules in offcanvas position.