Það er ekki úr vegi að fjalla hér svolítið um Egóið í kjölfar þess að sveitin er um þessar mundir að senda frá sér nýja breiðskífu. Líkt og á fyrri plötum sveitarinnar standa þeir hálfgildings bræður Bubbi og Beggi þar hvað fremstir í flokki, meðal jafningja þó. Allt frá því Egónafnið var endurreyst hefur hún í hugum aðdáenda verið borin saman við þá sveit manna sem komu fram undir Egónafninu á árunum 1981-1984. Jafn fáránlegt og það virðist eru fordómum mannsins engin takmörk sett og fullyrðingar oft settar fram í algeru hugsanaleysi. Verður undirritaður einnig að taka á sig sök í því líkt og aðrir. Ósjaldan hafa heyrst fullyrðingar á borð við þá að líkja Egóinu nú saman við ,,Gamla", Egóið og að ,,nýja” Egóið eigi ekkert skylt við ,,gamla” Egóið. En hvað var ,,gamla” Egóið? Einu raunverulegu og aðgengilegu heimildirnar um þá hljóðlega séð eru þær þrjár plötur sem út komu á árumum 1982 og 1984. Á þessum plötum er sveitin aldrei sama sveitin það er liðsskipan er aldrei sú sama á neinni þeirra þriggja platna sem gefnar voru út. Því fyrir utan þá bræður Bubba og Begga komu menn og fóru ef frá er skilinn Tómas M. Tómasson sem upphaflega kom að sveitinni sem upptökustjóri og aðstoðaði þá við endanlegar útsetningar þeirra laga sem á plöturnar fóru, auk þess að leggja til spilamennsku. Á þessum tíma bjó Tómas yfir getu og reynslu sem nýttist hinum ungu piltum í Egóinu vel. Í dag er aftur á móti vel yfir 100 ára reynsla í spilamennski upptökum og útsetningum innan þessarar sveitar og menn ekki eins tímabundnir af því að taka meðulin sín og áður, það er að alsgáðir menn með þessa reynslu og langan tíma eru vel færir um að annast verkið sjálfir að stórum hluta. En horfum aftur til ársins 1982.
Þegar fyrsta plata sveitarinnar kom út varð hún alger ,,hittari” og lög eins og Stórir strákar og Móðir njóta enn vinsælda, Þetta eru helstu lögin sem haldið hafa lífi til dagsins í dag. Önnur plata Egósins Í mynd sem kom út síðar sama ár. Hún var að mati poppskrípenta mun vandaðri og betur gerð í alla staði en sú fyrri. Var þar mönnum tírætt um að hún væri þéttari og sándið á henni mun betra en á fyrri plötunni, lagasmíðar væru einnig mun heilsteyptar. Lagið Fjöllin hafa vakað hefur borið höfuð og herðar þessarar plötu síðan og fast á eftir því lagi hafa lög eins og Mescalín og Í spegli Helgu. Á þessari plötu var fenginn erlendur aðili til að stjórna upptöktökkunum í samvinnu við Tómas M. Tómasson. En hver var þessi erlendi upptökustjóri? Louis Austin.
Bubbi hafði þá áður unnið með erlendum upptökustjóra; þegar Utangarðsmenn tóku upp plötuna Geislavirkir. Sú samvinna það er sveitarinnar og hins erlenda upptökustjóra Geoff Calver er túlkuð að hlutaðeigandi sem stórslys. Því þótt liðin séu 30 árum frá útkomu plötunnar er sá aumingja maður enn talinn eiga sök á því að hafa tekið allt bit úr Utangarðmönnum hvað þessa plötu varðar. Þegar svo kemur að Egóinu er þessu þveröfugt farið og Louis Austin þakkaður sá þéttleiki sem plata Egósins - Í mynd, hefur að geyma.
Til að svara spurningunni hver Louis Austin var tökum hér inn viðtal við hann sem birtist í Morgunblaðinu 15. október 1982, undir yfirskriftinn ,,Vil að munurinn heyrist greinilega" En Egóið var þá að vinna að sinni annari plötu, sem hlaut heitið Í mynd.
,,Eins og allir vita, sem á annað borð fylgjast eitthvað með poppinu hér á landi, hafa upptökur á annarri plötu Egósins staðið yfir að undanförnu. Reyndar lauk þeim í byrjun vikunnar og núna eftir helgina verður hafist handa við að hljóðblanda hana. Fer það verk fram í Englandi, nánar tiltekið í stúdíói einu í Ascot þar sem enginn annar en Ringo Starr, fyrrum Bítill, ræður ríkjum. Varð það stúdíó fyrir valinu m.a. vegna þess að upptökustjóri Egósin. á þessari plötu, Louis Austin, þekkir þar vel til. Hann hélt fyrir helgina til England. ásamt Tómasi M. Tómassyni og munu þeir hafa yfirumsjón með hljóðblönduninni Egó fékk Louis þennan Austin til þess að stýra tökkunum hjá sér til þess að tryggja enn betri útkomu en ella.
Þessi breski „takkatommi" (fyrir þá sem ekki skilja orðið „takkatommi" skal þess getið, að það hefur að undanförnu skotið rótum yfir þá menn, sem stjórna upptökum, stýra tökkunum. Fyrirmyndin er auðvitað hinn eini, sanni og óviðjafnanlegi Tómas Tómasson, bassaleikari Þursanna) hefur m.a. unnið sér það til frægðar að stjórna upptökum á þremur síðustu plötum Judas Priest, auk þess sem hann hefur komið við sögu hjá fleiri þekktum rokkurum.
Járnsíðan náði tali af Austin áður en hann hélt utan til að fylgjast með hljóðblönduninni og innti hann fyrst eftir því hvað hefði valdið því að hann kom hingað til að vinna með Egó.
„Það var nú eiginlega þannig, að David Cadman, sem vinnur fyrir Steina hf. í London, hafði samband við mig og spurði hvort ég hefði áhuga á þessu verkefni. Ég var reyndar ekki búinn að vera nema tvo daga heima þegar þetta tilboð kom. Ég hafði ekkert að gera í augnablikinu, hafði aldrei komið til neins af Norðurlöndunum, leist vel á þetta og ákvað því að skella mér hingað. Og ég sé svo sannarlega ekki eftir því.
Hérna hefur flest komið mér geysilega á óvart, ekki hvað síst hvað þið eigið fallegt land. Ég fór sjálfur austur að Gullfossi í bílaleigubíl, einn míns liðs, og mér fannst það dásamlegt. Það er svo mikil kyrrð um leið og maður er kominn út úr Reykjavík. Auk þess hefur gróskan í tónlistinni, menningarlífið – Vá, þið eruð með 10 kvikmyndahús í Reykjavík - og þá siðast en ekki síst Hljóðriti komið mér á óvart. Stúdíóið er mun betur tækjum búið en mig hafði nokkru sinni orað fyrir.
Auðvitað eru ekki öll þau tæki þar sem ég hefði viljað hafa, en það er samt mun betra en eg bjóst við. Sjálfur er ég þannig, að ætti ég stúdíó vildi ég hafa öll möguleg tæki í því, þótt ekki væri nema bara til þess að geta gripið einhvern tíma til þeirra. Eg er alger dellukarl hvað snertir tæknina, en hún skelfir mig stundum engu að síður, ekki hvað síst margt af þessum nýju tölvum, sem geta framkallað að manni finnst öll möguleg og ómöguleg hljóð."
Hvernig er að vinna með hljómsveit eins og t.d. Judas Priest sem er mjög þekkt hljómsveit innan bárujárnsrokksins?
„Það er í alla staði mjög þægilegt og maður finnur ekkert fyrir því að þessir menn séu frægari en einhverjir aðrir. Auk þess var þetta í þriðja sinn sem ég tók upp með þeim plötu í sumar, þannig að ég er farinn að þekkja þá vel. Strákarnir eru þægilegir að vinna með vegna þess að þegar þeir eru komnir í stúdíó er það oft eini tíminn sem þeir geta slappað eitthvað af ef hægt er að tala um stúdíóvinnu sem einhverja afslöppun.
Þeir eru geysilega mikið á tónleikaferðalögum og iðulega semja þeir sín lög í stúdíóinu eða frístundum út frá þeirri vinnu."
Hvað fer langur tími í upptökur hjá svo frægri sveit?
„Það fer drjúg stund, maður vertu. Ætli þeir hafi ekki farið með 4—500 tíma í hverja þá plötu, sem ég hef unnið við með þeim. A Screaming for Vengeance, nýjustu og að mínu mati langbestu plötu þeirra, vorum við einar 7—8 vikur að taka upp allt í allt."
Austin er afskaplega geðþekkur náungi, ákaflega breskur í sér og hógvær umfram allt. Hann hefur unnið með mörgum þekktum rokkurum, en er ekkert að halda slíku á lofti óaðspurður. Hann vann mikið með Sweet á árunum 1974—78 og tók m.a. upp lag þeirra „Fox on the run", sem margir kannast e.t.v. við. Þá vann hann með Martin Birch, sem af mörgum er talinn „þyngsti pródúserinn" í bárujárnsbransanum með nöfn á borð við Deep Purple, Whitesnake, Iron Maiden og Black Sabbath í vasanum, við það að setja upp stúdíó fyrir lan Gillan rétt eftir að hann hætti í Purple. Austin tók m.a. tvær fyrstu plötur Gillan upp, auk þess sem hann hefur tekið upp eina plötu með Def Leppard, svo eitthvað sé nefnt.
Í framhaldi af þessu spurði ég hann, hvað honum fyndist um tónlistina hjá Egó eftir að hafa unnið með mörgum af þekktari rokkurum heims.
„Það fer ekki á milli mála að þetta eru afbragðsgóðir hljóðfæraleikarar og Bubbi er að mínu viti mjög góður söngvari. Hins vegar er e.t.v. ekki svo gott fyrir mig að dæma einstök lög þar sem söngurinn á eftir að koma inn í þau (spjallið var tekið áður en söngurinn var tekinn upp). En ef marka má grunnana tel ég að a.m.k. tvö laganna gætu átt erindi á Bretlandsmarkað og hugsanlega á Norðurlandamarkað, en ég þekki hann ekki eins vel."
Það hefur viljað loða við sumar íslenskar plötur að hljómurinn, „sándið", hefur verið grunnt og alla fyllingu og dýpt vantað. Telurðu að rekja megi slíkt beint til manna eins og þín, þeirra sem stýra upptökunni?
„Já, tvímælalaust. Ég á við, að við, upptökumennirnir og „pródúserarnir", séum mennirnir, sem eru ábyrgir fyrir „sándinu" fyrst og fremst. Svo getur skurður auðvitað skipt verulegu máli og jafnvel pressun, en fyrst og fremst er við okkur að sakast ef ekki tekst vel til. Eg ætla bara að vona að hægt verði að heyra það, að ég hafi verið upptökumaður hjá Egó. Eg vil að munurinn heyrist greinilega."
Morgunblaðið/KEE