Lag og texti: Carl Michael Bellman, þýðing: Jón Helgason
(21. söngur Fredmans)
Svo endar hver sitt ævisvall
og yfirgefur skál og kút
er gellur dauðans grimma kall
þitt glas er runnið út!
Þú hrumur fauskur, hækju fleyg!
og haf þú ráð mitt ungi sveinn:
er flírar stúlkan fagureyg
þá fylgdu henni einn!
Ef þér virðist gröfin gína köld
þá er gott að fá sér staup í kvöld
fá sér teyg, síðan einn, síðan tvo, síðan þrjá
því sáttari deyrðu þá.
Og þú sem hattinn hallan ber
við hörund rjótt í drykkjusal
hinn svarti hópur safnast fer
er senn þér fylgja skal.
Og þú sem allur utan skín
með orðuskraut og hefðarbrag
í smíð er komin kistan þín
þeir klára hana’ í dag.
Ef þér virðist gröfin gína köld
þá er gott að fá sér staup í kvöld
fá sér teyg, síðan einn, síðan tvo, síðan þrjá
því sáttari deyrðu þá.
Og þú sem annast aurasjóð
af ágirnd bak við slá og lás
þér gleymast brátt hans gjöllu hljóð
á grafar þinnar bás.
Og þú sem umsnýst ær af sút
er afbrýðin þig heiftug slær
bjóða góða nótt, statt upp, drekk út
hleyp elja þínum nær!
Ef þér virðist gröfin gína köld
þá er gott að fá sér staup í kvöld
fá sér teyg, síðan einn, síðan tvo, síðan þrjá
því sáttari deyrðu þá.
Að lokum bráðum líða fer
og löndu komið háttumál
við eigum samleið, sé ég er
því súpum kveðjuskál!
Og hefjum glös og þökkum þeim
er þessa veislu hafa gjört
og löbbum undir leiðið heim
er logar stjarna björt!
Ef þér virðist gröfin gína köld
þá er gott að fá sér staup í kvöld
fá sér teyg, síðan einn, síðan tvo, síðan þrjá
því sáttari deyrðu þá.
Lagið má finna á eftirtöldum útgáfum