Lag og ljóð: Bubbi Morthens
Þarna sigla þeir dökk vötnin
hlandblautir og sælir
fylltir heilögum anda
meðan ómur kirkjuklukkunnar
fyllir loftið grafarfnyk.
Hjarta mitt sem leðurhart
slær af blóði svart.
Esjan situr í bólstruðum stól
meðan skuggi minn legst í rúmið þitt
mynd við rúmstokkinn - nýgift.
Gullið sem þú gafst henni daginn eftir
hvíslandi dýsætum orðum í eyru hennar
tilheyra núna mér.
Kristskirkjan upp á hæðinni
vekur engar kenndir
Þar sem ég kafa húmið
fylltur svörtu ljósi.
Mitt snjáða hjarta
fullt af ókomnum náttum
útkrotað landabréf
sem vísar á vafasamar leiðir.
Látum ekki krossinn trufla okkur
né hann sem hefur skráð lögheimili sitt á hann.
Þú sem óttinn hefur yfirgefið
vinur minn bak við hvítar grindur brjóst míns
Hver er það sem er svo heimskur að bjóða okkur inn.
Ég hef sogið menn eins og hann áður.
Horft í augu þeirra full af skömm og ótta
þar sem lýgin eins og tittlingur
felur sig bak við hvítann bómullinn
Sá sem bíður okkur inn í nótt
er lamb á leið til slátrunar.
6. ágúst 1945 klukkan 8:16 á staðartíma
spiluðu þeir sálumessu mannsanda.
Ég ófæddur en samt í djúpinu
tundurskeyti, tilbúinn að rústa lífi foreldra minna.
Lagið má finna á eftirtöldum útgáfum
Athugasemd
Kaupendum plötunnar Sól að morgni (2002) var boðið að afrita 5 demólupptökur sem tilheyrðu plötunni af heimasíðu Skífunnar. Meðal þeirra var þessi ljóðalestur við gítarundirleik en það var eina lagið sem ekki var að finna á sjálfri plötunni.