Loksins, eftir langa mæðu hefur íslenskri poppstjörnu skotið upp á himininn. Allur áttundi áratugurinn leið án þess að nokkur slík léti á sér kræla… Nú hefur Gúanórokkarinn Bubbi Morthens slegið í gegn á einni nóttu eða svo… Biðin eftir nýrri stjörnu er búin.
(Ný íslensk poppstjarna, - Samúel í júlí 1980)
Á þessum nótum skrifuðu tónlistargagnrýnendur vorið 1980 um Bubba Morthens, plötu hans Ísbjarnarblús og rokksveitina Utangarðsmenn. Ísbjarnarblús markar þáttaskil í sögu rokk- og dægurtónlistar hér á landi og er um leið upphaf glæsilegasta sólóferils íslenskrar rokksögu. Platan markar líka upphaf Utangarðsmanna, því Jón pönkari var fyrsta lagið sem þrykkt var á plast eftir þá sveit og fyrir vikið er platan áþreifanlegur útgangspunktur þeirrar rokkbyltingar sem varð hér á landi árið 1980.
Sögu Ísbjarnarblúss má rekja allt aftur til fyrstu sólótónleika Bubba sem fram fóru í Norræna húsinu haustið 1977. Tónleikarnir voru haldnir að tilstuðlan Páls Baldvins Baldvinssonar og nýstofnaðs fyrirtækis hans, Gagns og gamans, en til stóð að fyrirtækið gæfi út fyrstu plötu Bubba. Á efnisskrá tónleikanna voru lög Bubba við ljóð þekktra skálda í bland við frumsamið efni, þar á meðal mörg lög sem fylgt höfðu Bubba árum saman og áttu eftir að að rata á Ísbjarnarblús og fleiri plötur hans og Utangarðsmanna, en lagið Ísbjarnarblús dregur nafn sitt af frystihúsinu Ísbirninum sem stóð á Seltjarnarnesi. Sigurður „Bjóla“ Garðarsson tók tónleikana upp að beiðni Gagns og gamans, en þar á bæ hugleiddu menn að gefa tónleikana út.
Snemma árs 1979 hóf Bubbi störf í Kassagerð Reykjavíkur, en þar kynntist hann þeim bræðrum Michael Dean og Danny Pollock. Um sumarið og haustið kom hann fram á ýmsum samkomum Vísnavina og Samtaka herstöðvaandstæðinga og lék á baráttusamkomum fyrir bættum aðbúnaði farandverkafólks.
Í nóvember 1979 hélt Bubbi í hljóðver að taka upp blúsaða kassagítarplötu. Hljóðverið, sem var í eigu Svavars Gestssonar, var átta rása, hét Tóntækni og stóð við Ármúla. Sigurður Árnason var upptökustjóri og segir svo frá að eiginleg plötuupptaka hafi ekki hafist strax, Bubbi hafi verið að fikra sig áfram með lög og texta, prófa röddina og ýmsar útfærslur. Fljótlega hafi þetta síðan farið að spyrjast út meðal vina hans og kunningja og stundum hafi verið æði gestkvæmt.
Þó talsverður fjöldi laga og texta væri klár þegar Bubbi hóf upptökur á plötunni, sem hann kallaði Hve þungt er yfir bænum meðan á upptökum stóð, gegndi allt öðru máli um útsetningar og sem dæmi má nefna að Bubbi gerði tíu tilraunir með lagið Þorskacharleston og fimm tilraunir með Barnið sefur, en það lag var þó ekki notað fyrr en Utangarðsmenn unnu það fyrir plötuna Geislavirkir. Ekki hafa allar upptökur frá þessari fyrstu hljóðversdvöl Bubba varðveist, því algengt var á þessum árum að nota sama bandið aftur og taka yfir það sem aflaga fór.
Meðal þeirra sem litu í heimsókn til Bubba í hljóðverið voru þeir Michael og Danny Pollock og rokkáhugi þeirra smitaði út frá sér. Bubbi var líka búinn að uppgötva Iggy Pop og breskt pönk og ákvað að rokka upp þau lög á plötunni sem buðu upp á slíkt. Ef hlustað er á Ísbjarnarblús í þessu samhengi má vel greina þá þróun sem átti sér stað frá því upptökur hófust haustið 1979 til þess er þeim lauk snemma árs 1980.
Um áramótin 1979/1980 stungu þeir Michael og Danny upp á því við Bubba að þeir stofnuðu rokksveit með Magnús Stefánsson á trommur og Rúnar Erlingsson á bassa. Þessi frumgerð Utangarðsmanna spilaði ofan í grunnupptökur Færeyjablúsins og Michael bætti síðan við gítar. Nokkru síðar mætti Bubbi í hljóðverið með nýjan texta Gunnars Ægissonar sem þeir félagar sömdu síðan lag við - Jón pönkari var fæddur og þar með hljómsveitin Utangarðsmenn.
Þegar platan var að mestu leyti tilbúin var ljóst að pláss væri fyrir þrettánda lagið. Bubbi átti tökur af tveimur lögum, Spánskum dúett í Breiðholti og Stál og hnífi. Síðarnefnda lagið varð fyrir valinu en tilurð þess má rekja til dvalar Bubba á Eskifirði 1979, en hann frumflutti það á Vísnavinakvöldi í nóvember sama ár.
Upptökukostnað Ísbjarnarblúss greiddi Bubbi úr eigin vasa en Bókaútgáfan Iðunn tók að sér að sjá um pressun og dreifingu plötunnar.
Talsverð eftirvænting ríkti útgáfudag plötunnar 17. júní 1980. Utangarðsmenn, með Bubba í broddi fylkingar, höfðu þá þegar skapað sér nafn sem ein kraftmesta rokksveit landsins og íslensk rokkbylting var skollin á. Platan fékk frábæra dóma gagnrýnenda sem sögðu plötuna boða vor í íslenskri tónlist. Textarnir vöktu þó hvað mesta athygli - eins og Andrea Jónsdóttir útvarpskona orðaði það: „... það má þakka Bubba og plötunni Ísbjarnarblús fyrir að það varð kúl að syngja aftur rokk á íslensku.“ Textarnir féllu þó ekki öllum í geð, deilt var um þá á síðum dagblaðanna og efnt var til málþings um þá í Háskóla Íslands.
Ísbjarnarblús var aldrei fylgt eftir með sólótónleikum enda Utangarðsmenn komnir á fulla ferð og lög af plötunni á efnisskrá sveitarinnar.
Bárður Örn Bárðarson
Greinin hér að ofan birtist fyrst í innleggi viðhafnarútgáfu plötunnar Ísbjarnarblús 2005.
Athugasemd: Eftir að þessi grein var skrifuð hefur það komið í ljós að líklega varð Stál og hnífur ekki til á Eskifirði eins og þar er sagt, heldur samið í Reykjavík skömmu áður en það var frumflutt á umræddu Vísnavinakvöldi á Hótel Borg.