„Ef Bubbi hefði ekki orðið frægur í millitíðinni með Utangarðsmönnum þá hefði þessi plata vafalaust skotið honum í fremstu röð okkar söngvara og lagasmiða. Þessi plata er miklu betri tónlistarlega heldur en Ísbjarnarblús. Sem önnur plata sólóistans Bubba yfirskyggir hún allt annað sem hann hefur gert...“
(Tíminn 16. ágúst 1981)
Plágan, önnur sólóplata Bubba, er nátengd sögu Utangarðsmanna. Rétt eins og Ísbjarnarblús er talin marka fæðingu þeirrar sveitar undirstrikar Plágan endalok hennar. Alveg frá því Utangarðsmenn luku upptökum plötunnar Geislavirkir haustið 1980, höfðu þeir sótt stíft til útgefanda síns,Steinars Berg, að fá að fara í hljóðver og taka upp efni fyrir aðra breiðskífu. Af því varð þó ekki. Steinar hafði samið við Bubba sem sólóista um líkt leyti og hann munstraði Utangarðsmenn á samning. Á útmánuðum ársins 1981 var Steinar farinn að skynja þá misbresti sem komnir voru í samstarf sveitarinnar.
Bubbi var augljóslega orðinn ein skærasta stjarna íslenskrar rokktónlistar. Þá hafði Ísbjarnarblúsinn selst vonum framar. Í stað þess að hleypa sveitinni í hljóðver á ný samdi hann við Bubba um að taka upp aðra sólóplötu sína og jafnframt þá fyrstu sem út kæmi á merki Steina. Á þeim tímapunkti lá fyrir ferðalag Utangarðsmanna um Skandinavíu og varð því að hafa hraðar hendur. Bubbi vildi fá félaga sína í Utangarðsmönnum sér til aðstoðar en Daniel Pollock taldi það hins vegar af og frá að taka þátt í gerð sólóplötu meðan sveitinni væri haldið úti í kuldanum og svo fór að hann var sá eini þeirra félaga sem ekki kom að verkinu.
Þann 14. apríl 1981 var talið í fyrstu tökur plötunnar í Hljóðrita í Hafnarfirði þar sem platan var tekin upp. Auk þeirra Mikka, Magga og Rúnars var Stuðmaðurinn Tómas M. Tómasson Bubba til aðstoðar í hlutverki upptökustjóra auk þess sem hann spilar á synthesizer, og markar Plágan upphaf farsæls samstarfs þeirra Bubba og Tómasar. Þá kallaði Tómas í þá Þórð Árnason og Þorstein Magnússon til að koma og leika í nokkrum laganna.
Efniviðurinn sem Bubbi lagði fram var sambland af gömlum lögum í nýjum búningi ásamt lögum sem Bubbi samdi sérstaklega fyrir þessa plötu ef svo má segja. Af eldra efni má t.d. nefna lagið við texta Rudyard, Bólivar, í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar og Elliheimilisrokk sem Bubbi hafði flutt undir heitinu Elliheimilið Hrund, en bæði lögin höfðu verið á efnisskrá á fyrstu sólótónleikum Bubba í Norræna húsinu á sínum tíma. Þá hafði Bubbi gert nokkrar tilraunir til að hljóðrita síðarnefnda lagið í kassagítarútsetningu fyrir Ísbjarnarblús 1979, en ekki fundið því réttan hljóm fyrir plötuna og því lagt það í geymslu. Plágan er að mörgu leyti mun heilsteyptara verk en Ísbjarnarblús og ræður kannski þar mestu að meira skipulag er á vinnslunni og útsetningar í traustum höndum Tómasar.
Tónlist plötunnar má flokka sem tilraunakennda rokktónlist þar sem nálgunin er allt önnur en þegar keyrsla Utangarðsmanna stóð sem hæst. Meira var spáð í hvern tón og heildaryfirbragð hvers lags, eitthvað sem lítt var gert meðal Utangarðsmanna. Þrátt fyrir að meðlimir þeirrar sveitar kæmu að verkinu ber platan því lítil sem engin merki Utangarðsmanna.
Það sem einkennir Pláguna er sá þunglyndislegi drungi sem hvílir yfir flestum laganna og nægir í því sambandi að benda á kirkjuættaðan synthesizer í laginu Chile, en það hljóðfæri kemur við sögu í fleiri lögum með sama árangri. Textalega er efni Plágunnar firring í sinni tærustu mynd, eins og heiti plötunnar ber með sér, þar sem kjarnorkuvá og fullvissan um endalok mannsskepnunnar eru opinberaðar. Þá fá ríkjandi valdhafar sem og sinnulausir foreldrar falleinkunn í lögunum Þú hafir valið og Heróin.
En þó dökkir litir ráði ríkjum í textum Plágunnar er Bubbi ekki með öllu úrkula vonar því mitt í öllum plágunum sem ganga yfir heimsbyggðina laumast ástin inn með laginu Blús fyrir Ingu. Á Plágunni er því að finna fyrsta eiginlegan ástaróð Bubba sem er merktur þáverandi konu hans Ingu Friðjónsdóttur. Lagið hafði tvö vinnuheiti meðan á upptökum stóð, annars vegar einfaldlega Inga og hins vegar Þreyttur, en fékk sitt endanlega heiti þegar unnið var að lokafrágangi plötunnar. Svo var með fleiri lög, til að mynda má finna lagaheitin Réttvísi og Bubba Reggae á upptökuböndum plötunnar. Hvaða lög það eru læt ég hlustendum eftir að finna út.
Sú áætlun að platan kæmi út á sjálfan þjóðhátíðardaginn, líkt og Ísbjarnarblús, gekk ekki eftir sökum galla við pressun hennar og tafðist útgáfan til 17. júlí. Það breytti þó engu um að efsta sætið yfir mest seldu plötur landsins var auðfengið og þar sat platan næstu vikurnar.
Gagnrýnendur voru líka flestir sammála um í dómum sínum, að með þessari plötu styrkti Bubbi stöðu sína sem sólóisti. Þó margir þeirra fyndu ýmislegt að henni, töldu hana ekki nógu rokkaða, texta hennar ekki jafn beinskeytta og á fyrri plötum o.s.frv., voru þeir á einu máli um að Plágan væri ein besta platan sem komið hefði út hér á landi í langan tíma.
Bubba fannst hins vegar ekki mikið til gagnrýni blaðanna koma og í viðtölum við fjölmiðla eftir útkomu hennar gagnrýndi hann umfjöllun þeirra harðlega. Honum fannst vanta alla faglega tónlistarumfjöllun í skrifum þeirra og sagði að það væri af og frá að hann sendi fjölmiðlum plötur sínar í framtíðinni meðan þeir væru ekki starfi sínu vaxnir.
Skömmu eftir útgáfu Plágunnar var saga Utangarðsmanna öll, því tilkynnt var um endalok hennar um miðjan ágúst. Það má því segja að þó Plágan hafi ekki orðið Utangarðsmönnum að aldurtila hafi hún aukið sundrung en jafnframt opnað Bubba útgönguleið. Hann hafði með Plágunni sannað að sem sólóisti stæði hann allt eins sterkur í íslenskum tónlistarheimi, enda þá þegar með tvær breiðskífur að baki sem var meira en sveitin sem heild gat státað af. Með þessari plötu hafði Plágan gengið yfir og þessi sama Plága er enn við bestu heilsu og lifir sem ein af tilraunakenndari plötum Bubba á ferlinum, þar sem lög eins og Segulstöðvarblús, Bólívar, Þú hefur valið auk Blús fyrir Ingu, halda merki hennar á lofti.
Bárður Örn Bárðarson
Greinin hér að ofan birtist fyrst í innleggi viðhafnarútgáfu plötunnar Plágan 2006.