Main Header

PLÖTUR

polar bear flare Undir valmyndinni Plötur finnur þú allar plötur Bubba frá upphafi ásamt myndum af plötalbúmum, lista yfir lög og texta. 

LÖG OG TEXTAR

bubbi_og_megas Í gagnagrunninum okkar eru öll lög og textar Bubba. Notaðu leitina til að finna það lag sem þú ert að leita að.

SPJALLTORG

login-min Taktu þátt í umræðunum á spjalltorginu. Athugaðu að þú verður að vera innskráður til að hafa aðgang.

TÍMALÍNA OG MOLAR

3-worlds Undir valmyndinni tímalína er rakin saga Bubba. Undir Molar eru margir skemmtilegir pistlar.
Bylgjan Image

Stál & Hnífur

á Bylgjunni kl. 20:00

öll mánudagskvöld

Pistlar Bubba Image

Sjá Pistla Bubba

HÉR

LAGALEIT

Plötur

Grein um Frelsi til sölu

„...aldrei hefur Bubbi sent frá sér plötu sem er eins jafngóð og þessi er. Reyndar tel ég að fáar ef nokkur íslensk plata standist samanburð við Frelsi til sölu og er þá sama við hvað er miðað...
Hér fer þetta allt saman, lögin hvert öðru betra og útsetningarnar og frágangur eins og hann gerist bestur...
Frelsi til sölu er tvímælalaust besta íslenska platan sem komið hefur út á þessu ári og að mínu mati ein sú besta sem út hefur komið hér á landi í gegnum árin.“
(SÞS í DV 28.11. 1986)

Það var í ársbyrjun 1985 sem Bubbi undirritaði fimm ára samning við sænska útgáfufyrirtækið Mislur. Forsöguna má rekja til norrænnar rokkhátíðar sem haldin var í Reykjavík árið áður. Meðal þeirra sveita sem þar komu fram var sænska rokksveitin Imperiet sem þá var á samningi við Mislur. Góður vinskapur tókst milli Bubba og bassaleikarans Christian Falk en auk þess hafði forráðamönnum sænsku útgáfunnar litist vel á þann kraft sem fylgdi framkomu Bubba þegar hann kom fram ásamt hljómsveit sinni á hátíðinni. Eftir að Bubbi var kominn á mála hjá Gramminu seinni hluta árs 1984 var hugmyndin endurvakin og samningurinn varð að veruleika. Samkvæmt honum átti Bubbi að skila af sér þremur plötum fram til ársins 1990, ætlaðar á markað í Skandinavíu og öðrum Evrópulöndum að undanskildu Íslandi, en Grammið sæi um þann markað.

En áður en Bubbi hóf að vinna fyrstu plötuna fyrir Mislur var platan Kona kláruð og henni fylgt eftir með stífu tónleikahaldi sumarið 1985. Fljótlega var ákveðið að Christian Falk myndi stjórna upptökum nýju plötunnar. Bubbi hélt utan í októberlok og upptökur hófust. Í byrjun desember kom hann heim og þetta ár efndi hann til sinna fyrstu Þorláksmessutónleika sem síðan hafa verið árviss viðburður.

Bubbi gaf sér góðan tíma í gerð Frelsis til sölu. Sænska útgáfan leit á hann sem mikilvægan listamann og hann fékk nánast frjálsar hendur hvað hljóðverstíma varðaði. Þó þurfti að finna tíma sem hentaði öllum því Imperiet var enn á fullri ferð og naut mikilla vinsælda ytra. Á nýju ári urðu ferðir Bubba til Svíþjóðar tíðari og lögin tíndust inn eitt af öðru.

Bubbi sat ekki auðum höndum meðan hann var hér heima, efndi til tónleikaferðalags með Megasi, kom fram með Vísnavinum í fyrsta sinn í langan tíma og í júníbyrjun kom út tvöföld plata með trúbadornum Bubba. Efni hennar var frá ýmsum tíma, þó mest bæri á lögum sem hljóðrituð höfðu verið á tónleikaferð hans sumarið áður. Til að kynna þá plötu var efnt til blaðamannafundar á Hótel Borg þar sem Bubba var einnig afhent gullplata fyrir seld eintök Konu og loks kynnti Bubbi nýja hljómsveit sem ætlað var að kynna plötuna sem verið var að vinna að í Svíþjóð. Ekki var þá komið nafn á sveitina en skömmu síðar var tilkynnt að hún hefði hlotið heitið MX-21 sem var tilvísun í nöfn á stríðstólum stórveldanna.

Bubbi gerði fleira þetta ár því um líkt leyti komu fréttir um fjárhagsvanda Kvennaathvarfsins og Bubbi brást við með tónleikahaldi til styrktar athvarfinu sem á næstu vikum varð stöðugur fréttamatur fjölmiðla. Þá kom Bubbi fram á friðartónleikum í Íslensku óperunni þar sem Joan Baez, sem hingað kom til að mótmæla leiðtogafundi forseta stórveldanna í Höfða, lék einnig.

Óhætt er að segja að fyrsta stóra kynning plötunnar Frelsi til sölu hafi verið á 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar í ágúst 1986 þegar MX-21 kom, sá og sigraði. Það ríkti mikil eftirvænting þegar svo platan Frelsi til sölu barst loks til landsins 13. nóvember 1986. Og þvílíkur gripur, almenningur sem og gagnrýnendur áttu vart til orð sem gátu lýst ágæti plötunnar og hljómgæðin voru eitthvað sem menn höfðu ekki áður heyrt á íslenskum plötum.

Þó meginhluti laganna væru ný af nálinni var ekki svo með þau öll. Serbinn hafði t.d. orðið til á þeim tíma sem Ego starfaði og hafði sú sveit hljóðritað instrumentalútgáfu af laginu og Land til sölu hafði komið út í kassagítarútgáfu undir heitinu Rauðir fánar á Blús fyrir Rikka. Mönnum var ljóst að með þessari plötu hafði Bubbi brotið blað í rokksögunni hvað gæði platna varðaði og átti það mikinn þátt í að efnt var til blaðamannafundar á Bylgjunni í beinni þar sem fréttamenn fengu að spyrja Bubba og Ásmund Jónsson útgáfustjóra Grammsins spjörunum úr um allt er varðaði plötuna, en slíkar uppákomur höfðu ekki þekkst áður. Serbinn rauk upp alla vinsældarlista útvarpsstöðvanna og í kjölfarið fylgdu lög eins og Augun mín og Er nauðsynlegt að skjóta þá?

Efnistök textanna voru hápólitísk og þóttu þeir með því besta sem úr smiðju Bubba hafði komið. Þótt Bubbi hefði áður sungið pólitískar línur var það nú gert undir öðrum formerkjum því í stað þess að stökkva fram með hnefana á lofti, spurði Bubbi áleitinna spurninga; hvort það sé svona sem við vildum hafa það. Frelsi til sölu stendur sem ein pólitískasta plata Bubba á ferlinum til þessa. Enda var Bubba tíðrætt um dvöl bandaríska hersins hér á landi í viðtölum frá þessum tíma og sagði það einn stærsta draum sinn að sjá brotthvarf hans. Fyrr geti Ísland ekki talist frjálst land og útskýrir þessi hugsun heiti plötunnar. Samhliða því að taka upp plötuna Frelsi til sölu var Bubbi farinn að huga að ensku útgáfu plötunnar og var talsvert af textum ýmist þýddir yfir á enska tungu eða nýir samdir við eldri lög. Til dæmis er lokalag þessarar útgáfu plötunnar sem Bubbi kaus að kalla Paranoia ensk útgáfa lagsins Gaukur í klukku.

Í júnílok 1987 varð Frelsi til sölu fyrsta platan sem kom út á geislaplötu hér á landi, ætluð íslenskum markaði. Þá voru geislaplötur kallaðar laserplötur eða laserdiskar. Á þessum tíma var þessi nýja tækni svo dýr að Japís, sem var umboðsaðili Sony hér á landi, kom að málinu með beinum stuðningi og var útgáfan kynnt sem samstarfsverkefni Grammsins og Japís.

Bubbi toppaði þetta sögulega ár 1986 á síðasta degi þess með sögulegum sáttum eins og það var nefnt í blöðum, á áramótafagnaði Sjónvarpsins þegar hann kallaði Björgvin Halldórsson á sviðið til sín og tók með honum lagið þar sem Björgvin lék á munnhörpu undir söng og gítarleik Bubba. Með Frelsi til sölu breyttist kjaftfori rokktöffarinn Bubbi í einskonar stórveldi í íslenskri rokksögu, Það stórveldi stennu enn.

Bárður Örn Bárðarson
Greinin hér að ofan birtist fyrst í innleggi viðhafnarútgáfunnar Frelsi til sölu 2006

 

BMK er aðdáendaklúbbur Bubba Morthens.

Stofnaður 06.06.06
Hvernig gerast menn félagar í BMK? 

Please publish modules in offcanvas position.