Main Header

PLÖTUR

polar bear flare Undir valmyndinni Plötur finnur þú allar plötur Bubba frá upphafi ásamt myndum af plötalbúmum, lista yfir lög og texta. 

LÖG OG TEXTAR

bubbi_og_megas Í gagnagrunninum okkar eru öll lög og textar Bubba. Notaðu leitina til að finna það lag sem þú ert að leita að.

SPJALLTORG

login-min Taktu þátt í umræðunum á spjalltorginu. Athugaðu að þú verður að vera innskráður til að hafa aðgang.

TÍMALÍNA OG MOLAR

3-worlds Undir valmyndinni tímalína er rakin saga Bubba. Undir Molar eru margir skemmtilegir pistlar.
Bylgjan Image

Stál & Hnífur

á Bylgjunni kl. 20:00

öll mánudagskvöld

Pistlar Bubba Image

Sjá Pistla Bubba

HÉR

LAGALEIT

Plötur

Grein um Sögur af landi

„Textarnir á Sögum af landi eru einir þeir vönduðustu sem sést hafa í íslensku poppi fyrr og síðar – miklu betri en margt af því sem gefið er út á bók undir merkjum skáldskapar. Í raun má segja að textaheftið, sem fylgir geisladisknum sé lítil og falleg sextán síðna ljóðabók. Bubbi styðst við formið, yrkir með höfuðstöfum og rími og ferst það vel úr hendi.“
(Árni Gunnarsson í Tímanum 28. nóvember 1990)

„Við Christian Falk og Lamarnir ógurlegu vonumst til að geta farið til Júgóslavíu í apríl og taka þar upp plötu á fjórum vikum“ sagði Bubbi í viðtali við DV 13. janúar 1990, en hluta þess mánaðar eyddi Bubbi í fríi á Kanaríeyjum. Í þeirri ferð fæddust hugmyndir laga og texta sem áttu eftir að lenda á næstu plötu hans – Sögur af landi.

Útgáfufyrirtækið Geisli sem gefið hafði út plötur Bubba 1989 var liðið undir lok snemma árs 1990 og í maí undirritaði Bubbi útgáfusamning við Steina hf. Þar hafði Bubbi verið á mála frá 1980 til 1984 en þá yfirgefið Steina hf með látum og enn urðu skipti á útgefanda tilefni frétta og viðtala.

Brá óneitanlega mörgum aðdáendum meira í brún þegar nafn Bubba sást á framboðslista H-flokksins fyrir borgarstjórnarkosingar vorið 1990. H-flokkurinn hét Nýtt afl og bauð aðeins fram í þetta eina sinn. Ekki var ætlun Bubba að taka beinan þátt í stjórnun borgarinnar, heldur hafði hann gefið samþykki fyrir að vera á listanum gegn því skilyrði að vera svo neðarlega á listanum að ekki væri möguleiki á að hann næði kjöri og var hann settur í tólfa sæti listans. Listinn fékk ekki brautargengi og þar með lauk pólitískum frama Bubba Morthens.

Í lok júní hitaði Bubbi upp fyrir gamalt átrúnaðargoð sitt, Bob Dylan, í Laugardalshöllinni. Hann gaf sér einnig tíma til að æfa ólympískar lyftingar og tók þátt í alþjóðamóti smáþjóða í greininni, þar sem Íslendingar unnu þrenn gullverðlaun. Mestur hluti þessa árs fór þó í ritun sjálfsævisögunnar Bubbi sem hann vann ásamt vinkonu sinni til margra ára, Silju Aðalsteinsdóttur, en þau höfðu unnið að bókinni um nokkurt skeið. Þrátt fyrir að ákveðið væri að Mál og menning gæfi verkið út var ekki útséð um að af því yrði fyrr en á síðustu stundu. Kom þar tvennt til; annars vegar hafði vinna við gerð hennar dregist nokkuð og hins vegar var útgáfendinn efins um hvort hún kæmi til með að seljast nægilega vel að standa undir kostnaði.

Lamarnir ógurlegu sem unnið höfðu með Bubba að Nóttinni löngu voru horfnir af sjónarsviðinu sem slíkir þegar hafist var handa við að hljóðrita plötuna í Grjótnámunni, í júlímánuði. Sami mannskapur var Bubba þó innan handar en auk þess var hóað í hina ýmsu tónlistarmenn til að leika inn á einstök lög. Á aðeins sautján dögum var megnið af lögunum hljóðritað og fullunnið. Með þessum hraða vildi Bubbi halda ákveðnum ferskleika að eigin sögn. Steinar hf, höfðu um langt skeið hugsað sér að ná fótfestu á erlendum mörkuðum og að áeggjan þeirra söng Bubbi nokkur laga plötunnar einnig inn á band á ensku. Tvö þessara laga voru síðar gefin út á safnplötunni Icebreakers sem ætluð var til kynningar á íslenskum listamönnum sem voru á samningi hjá Steinum hf.

Eftir að upptökum og vinnu við plötuna lauk fengu menn góðan tíma til að meta verkið og þegar að hausti kom vildi Bubbi bæta við nýju lagi um stúlkuna sem starir á hafið. Lag sem margir telja eitt af þeim betri á plötunni. Lagið var tekið upp í Hljóðrita í september. Skömmu eftir að tökum plötunnar endanlega lauk var ljóst að bókin næðist einnig til útgáfu í tæka tíð.

Því má segja að það hafi verið söguleg stund 15. október 1990 því þann dag komu út platan Sögur af landi og bókin Bubbi. Bubbi og Silja í samstarfi við Steina hf og Mál og menningu efndu til veislu af þessu tilefni og buðu velunnurum að gera sér glaðan dag í Sundhöll Reykjavíkur. Afrakstur dagsins var bókin Bubbi sem pöntuð hafði verið í 1.500 eintökum til að byrja með en þegar jólavertíðinni lauk stóð hún uppi sem metsölubók sem selst hafði í yfir 7.000 einstökum. Platan Sögur af landi er ekki síðri sagnabók og sat í efstu sætum sölulista vel fram yfir áramótin. Gagnrýnendur voru sammála í dómum sínum og tóku undir með plötukaupendum: „Sú besta af bestu plötum Bubba á ferlinum.“

Tónlistarlega séð er þessi plata mun léttari og meira grípandi en sú plata sem sami mannskapur vann að árið áður. Munar þar mestu að melódíurnar eru sterkari og allar útsetningar einfaldari. Eins og áður segir samdi Bubbi að hluta texta og lög plötunnar á Kanaríeyjum og má greinilega heyra áhrif frá suðrænum slóðum í nokkrum laga plötunnar. Bubbi hefur alltaf verið mikill sagnamaður og í textum þessarar plötu fær sá þáttur að njóta sín til fulls. Hann hafði frá og með Konu verið að bæta textagerðina og fikra sig nær ljóðaforminu og með opnunarlaginu Sonnettu, sýnir Bubbi að hann er fullnuma í fræðunum. Að semja sonnettu er ekki á hvers manns færi hvað þá að setja hana í form popplags. Með henni varð Bubbi fyrstur til að færa þetta ljóðaform inn í popptónlistina.

Annað vekur athygli við þessa texta og lög en það er lengd þeirra og form. Hér er ríkjandi lögum og reglum poppsins hvað það varðar hent út um gluggann. Engar hálfkveðnar vísur heldur er allt sagt sem segja þarf og málfarið skreytt til að gera það skemmtilegra. Sögur af landi er ekki aðeins ein af perlunum úr smiðju Bubba, því auk tónlistarinnar fylgir líka eitt besta ljóðatextasafn hans á ferlinum hingað til.

Bárður Örn Bárðarson

Greinin hér að ofan birtist fyrst í innleggi viðhafnarútgáfu plötunnar Sögur af landi 2006.

BMK er aðdáendaklúbbur Bubba Morthens.

Stofnaður 06.06.06
Hvernig gerast menn félagar í BMK? 

Please publish modules in offcanvas position.