Main Header

Með Bubba á ferð

Með degi hverjum styttist í að Bubbi sendi frá sér nýja plötu en áætlað er að hún komi út 6. júní n.k., Enn og aftur er róið á ný mið, nú er það soultónlistin eða sálartónlistin svo við höfum þetta á íslensku.  Þessi plata verður að teljast nokkuð merkileg því hér skiptir Bubbi um áhöfn meðreiðarsveina. Menn eins og Guðmundur Pétursson gítarleikari og Jakob Smári Magnússon bassaleikari sem verið hafa fastur kjarni í meðspilurum Bubba síðustu misserin  eru nú fjarrki góðu ganni. Með Bubba er nýr mannskapur sem sumir hverjir hafa aldrei unnið með honum áður en einstaka nöfn hafa þó kíkt í heimsókn á plötum hans eins og Kristjana Stefáns. Það er ekki úr vegi að kynna hluta þessara aðila fyrir ádáendum. Til að gera það fáum við að láni pistla Bubba af Pressunni og setjum saman kynningu hans á þeim einstaklingum sem áberandi eru í sveitinni Sólskuggarnir og gestum þeirra á plötunni.
Bubbi tekur hér við:



Ragnar Árni Ágústsson baritónsax

ImageRagnar Árni Ágústsson hefur stundað nám í FÍH. Á jazz- og rokkbraut með saxafóninn límdan við varirnar frá því 2004. Kláraði í maí á síðasta ári en var þar áður alinn upp í tónlistarskóla Seltjarnarness á saxa og gítar.
Hann hefur líka komið nálægt Berklee College of Music í Boston. Meirihluta ævinnar hefur hann verið að spila og læra á hljóðfæri sitt. Raggi er afburðarmaður á sinn barítónsaxa og þrátt fyrir ungan aldur er hann komin í fremstu röð. Ef við ættum landslið í saxadeild þá væri hann þar. Með Ragga, Ara Braga og Jóel Páls saman á sviði og þegar maður stendur fyrir framan míkrófóninn og sólókaflinn er komin þá lítur maður til hliðar og hlustar eins og lítill strákur og brosir allan hringinn.
Raggi spilar á sinn saxa sem hefur dýpsta tóninn þannig að maður trúir varla þetta sé hægt. Hann ræður fullkomlega við hljóðfærið, engir hnökrar, ekkert rið heldur rennur tóninn frjáls sem lækur á vori.
 Ég, gamli kallinn í bandinu, er að upplifa eitthvað alveg nýtt í þessari tónlist sem ég og Sólskuggarnir erum að semja. Síðan verð ég að enda þennan pistil á komentum kvenþjóðarinnar um saxana þrjá. Ein spurði mig eftir afmælisveislu sem við spiluðum í á Borginni, hvenær við spiluðum næst því þessir blásarar mínir væru eins og grískir guðir á sviðinu. Önnur sagði við mig að hún hefði aldrei séð alvöru tónlistamenn líta út eins og módel en þessir þrír líta þannig út. Síðan sagði konan mín að þetta væru trúlega myndalegustu tónlistarmenn Íslands. Djöfull maður, hvað með okkur hina...ekki orð, bara bros.
Lesandi góður, eins og þú lest þá eru Sólskuggarnir ekki bara fyrir eyrað, þetta band á ekki sinn líkan hér á landi og þótt víðar væri leitað!

 

Ari Bragi Kárasson
ImageÉg hef þekkt hann frá því hann var lítill strákur og var með syni mínum á leikskóla. Einn daginn stendur hann svo við hlið mér og blæs í trompet. Það er til fólk sem getur spilað þannig á hljóðfæri sitt að litir streyma frá því og þú verður umvafinn litum og fallegu brosi. Ari Bragi er ungur maður, rétt rúmlega tvítugur en tónninn sem hann hefur er algerlega sér á báti.
Ég held að Ari Bragi sé ekki lengur efnilegur heldur fullskapaður. Nú er það bara reynslan og þroskinn sem mun skera úr um á hvaða stall hann verður settur. Ég tel hann algerlega sér á báti hér á landi, hæfileikar hans eru gríðarlegir en hann hefur spilað frá því hann var níu ára gamall á hljóðfærið sitt. Fyrst hjá pabba sínum í Tónlistarskóla Seltjarnarnes og síðan FÍH.

Hann hefur unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga eftir að hafa útskrifast af klassískri braut FÍH. Hann hóf nám við New School of Jazz and Contemp Music í september 2008 og er þar enn í dag.

Hvað er hægt að segja þegar svona talent sem maður hefur þekkt frá þriggja ára aldri er allt í einu kominn á svið með manni? Maður brosir allan hringinn.

Tóninn hans Ara Braga getur verið undur mjúkur eða harður sem og léttur. Hann spilar af svo mikilli list á hljóðfæri sitt, nú þegar, að undrun sætir. Hann er einn af þremur blásurum á plötunni minni.

Ég held að í komandi framtíð muni fólk fatta hverskonar fallbyssa þessi strákur er. Ég er óendanlega þakklátur að hafa Ara Braga við hlið mér á Soul plötunni minni sem kemur út í sumar. Markið orð mín, þessi strákur er einn sá allra flottasti í tónlistarsögu okkar.


Jóel Pálsson saxófónleikari

ImageJóel Pálsson er tónlistar maður, já hann er listamaður og galdramaður.
Stíllinn hans er dálítið svalur, hann er það góður að hann þarf ekki að sýnast. Hann blæs og lúkkar svalur. Hann er einn af þremur blásurum á Soul plötunni minn sem kemur bráðum út.
Jóel Pálsson er einn af þeim sem spila hjá mér. Vá! Pældu í því. Sem listamaður hefur hann sinn tón, sinn eigin hljóðheim, sem er persónulegur og að mér finnst dálítið mjúk-svalur. Ekki neitt rosa alvarlegur en samt, þú tekur hann alvarlega þegar þú heyrir hann spila. Þessi hljóðheimur verður aðeins til í gengum reynslu og næmni. Hann hefur flæði þess sem hefur náð þeim áfanga að sjálfstraustið er náttúrulegt en ekki kreist fram í rembingi.
Hann lærði á klarínett frá 8 ára aldri en fór yfir á tenórsaxa 15 ára gamall. Hann kláraði skóla hér heima og þaðan lá leiðin til Berkley College of Music in Boston þar sem hann kláraði sína gráðu 1994. 
Hann hefur spilað á konsertum og festivölum í Evrópu, USA, Canada og Kína. Hefur spilað inn á 100 plötur í það minnsta. Hann á að baki fimm sólóplötur. Hann er fær  um að spila alls konar stíla og virðist algerlega fordómalaus hvað músik við kemur.
Að hafa hann með á þessari plötu hækkar standardinn verulega. Það er mikil heiður að listamaður eins og hann skuli vilja vinna með mér en ég hef fylgst með honum gegnum árin eins og Sigga Flosa og auðvitað fleirum. En hann er einn af þeim stóru  þá meina ég STÓRU sem við getum verið stolt af sem og öllum þessum tónlistarmönnum og sem við eigum.
Þú átt eftir að upplifa þessa blásara mína sem lúxus í eyrun þín, bíddu bara.



Kristjana Stefánsdóttir: Röddin
ImageKristjana Stefánsdóttir er litli risinn minn á komandi plötu minni. Út af hverju litli risinn? Því segir þú það Bubbi! Jú, sjáðu til, hún er risi í íslenskum djass söng. Hún hefur rödd sem hæfir risa, hjarta sem hæfir risa, auðmýkt sem hæfir risa og elsku sem hæfir risa.
Kristjana er svo stór söngkona að hún þarf ekki að syngja bakraddir hjá Bubba Morthens. En veistu hvað? Hún gerir það á þessari plötu sem er í raun gullhúðuð á öllum rásum því hver snillingurinn af öðrum spilar á henni. Ég var búinn að finna stelpur sem voru æðislegar, þær voru að gera frábæra hluti en stundum er maður í þeirri stöðu að velja og hafna. Ekki vegna þess að þær gátu ekki, heldur vegna þess að litur raddanna hentaði ekki, alveg eins og sum lögin henta ekki þessari plötu.
Kristjana setur lit á lögin mín, lit sem ég var að leita að. Þegar rödd hennar er komin á bak við röddina mína, þá allt í einu hvísla lögin..."pabbi eru við ekki fín?" og þau ljóma af gleði og þau sjá stoltið í augum mínum.

Kristjana er hámenntuð söngkona frá Konunglega Listaháskólanum í Haag í Hollandi. Þar lauk hún námi vorið 2000 en áður hafði hún lokið söngnámi við Söngskólann í Reykjavík. Hún hefur sótt einkatíma hjá frægum kennurum hér heima og erlendis og gert sínar eigin sólóplötur. Hún hefur unnið í leikhúsi og sungið inn á helling af plötum.
Hún hefur afrekað alveg ótrúlega mikið á stuttum tíma, í raun er það svo mikið að efni væri í nokkra pistla. Hún er einfaldlega einstök. Sumt fólk getur sungið en það er sagt um suma, að þeir hafa sönginn í blóðinu og Kristjana Stefáns er ein af þeim sem er með náðargáfu.
Þeir eru nokkrir í íslensku tónlistarlífi og hún er í þeim flokki. Fyrir mörgum árum söng hún með mér inn á plötu, lagið Þrek og Tár. Ég var ekki í mínu besta formi á þeim tíma og reykti gras frá morgni til kvölds. Veit ekki hvort ég var almennilegur eða ekki við hana, en ég veit það í dag að við erum vinir.
Líf mitt í tónlistinni hefur verið óslitið ævintýri vegna þeirra gæfu sem mér hefur hlotnast. Hún er sú að fá að vinna alltaf með þeim bestu. Kristjana Stefáns er einfaldlega ein af þeim bestu og í sínum flokki finnst mér hún best.



Kristinn Snær Agnarsson trommari

ImageTrommuleikarinn minn í Sólskuggunum heitir Kristinn Snær Agnarsson.
 
Ég hef unnið með þeim bestu: Gulla Briem, Adda Ómars, Geira Óskars og ég verð að segja að Kristinn er með þeim bestu. Ég varð alveg kjaftstopp þegar við vorum búnir að taka upp fyrsta lagið. Þarna var trommari sem var svo melódískur í spili sínu að það var eiginlega þannig að það átti ekki að vera hægt.
Hann var við tónlistarnám í Svíþjóð 1995-2000 og flutti þá heim. Hann er einn af stofnendum Hjálma, trommaði á fyrstu plötu þeirra. Hann hefur einnig unnið með helstu tónlistarmönnum og konum landsins, spilað inn á mökk mikið af plötum og unnið í leikhúsi.
Þegar við erum að taka upp þá á hann það til að koma með komment laginu til góðs og maður fattar að hann hefur yfirsýn sem nær langt út yfir trommuleikinn. Hann sér lagið eins og hann sé líka að spila á hin hljóðfærin sem er afar sjaldgæft, trúðu mér.
Hann er svo góður trommuleikari að lögin mín með hann sem trommara eru í sparifötunum og það eru töff spariföt. Að spila með honum á sviði er þannig að ef hann skynjar að mannskapurinn er ekki alveg að gefa allt í þetta þá heyrir maður allt einu að það er slegið fastar á snerið, bassatrommann kallar strákar "kommon," gefa í.
 
Það eru óendanleg forréttindi að spila með manni eins og þessum strákum sem ég er að spila með. Grúv er eitthvað sem allir leita að en afar fáir finna. Ingi Björn og Kristinn Snær eru með það í blóðinu.
 
Jesús Pétur og hin heilaga jómfrú, bíddu bara þar til þú heyrir hvað þessir piltar eru færir um að gera.



Ingi Björn bassaleikari

ImageHann heitir Ingi Björn Ingason og er bassaleikarinn í hljómsveitinni minni Sólskuggarnir. Hann er örvhentur og útskrifaðist árið 2005 með BA gráðu í tónlist úr Lipa, tónlistarskóla Paul McCartney í Liverpool.

Hann er að gera stórkostlega hluti á plötunni sem ég er búin að vera að taka upp. Hann er teknískur, frjór og mjög melódískur. Fær um að spila hvaða stíla sem er, ef hann fær frjálsar hendur þegar verið er að taka upp þá færðu aðeins það besta frá honum.

Að spila á sviði með honum er líka gríðarlega gaman því hann er fullur af spilagleði og sjálfstrausti sem er nauðsynlegt ef allt á að vera pottþétt. Hann fluttist heim til Íslands árið 2006 en hann starfaði með fjölmörgum listamönnum í Liverpool á árunum 2002-2006. Hér heima hefur hann starfað með fjölda listamanna og unnið í leikhúsum.
 
Fyrir mér að fá tækifæri til að vinna með öllum þessum aragrúa af frábærum listamönnum í gegnum áratugina er auðvitað ekkert annað en ævintýri, sérstaklega fyrir skrifblindan strák sem spilar á kassagítar. 
Ingi Björn er að mínu mati einn af þremur bestu bassaleikurum sem ég hef starfað með á 30 árum. Hann er fljótur að grípa tækifærið ef hann sér gat í laginu þar sem bassinn hefur völdin og er snöggur að flúra inn eitthvað sem grípur eyrað þitt þó svo þú fattir það ekki fyrr enn eftir 3 hlustanir.

Lesandi góður, leggðu við hlustir þegar platan kemur út í sumar. Þú verður ekki svikinn af þessum bassaleikara sem fær þig til að stappa niður fæti og brosa.



Soul platan mín
ImageEf þú ert ekki á tánum sem listamaður, sífellt að ögra þér og reyna á þanþol þitt þá deyrðu. Verður aðeins skuggi af sjálfum þér. Það er ekkert auðveldara þegar þú hefur dottið einu sinni niður á  plötu sem slær í gegn að halda því áfram. En þannig vil ég ekki vera, ég verð að reyna á mig, fara nýjar leiðir, skoða hvað ég get gert en ef það gengur ekki, nú, þá reyndi ég allavega.
 
Í dag er ég að taka upp plötu með fólki sem er töluvert yngra en ég. Við erum að taka upp tónlist sem kallast Soul tónlist. Soul tónlistin var í tísku á árunum 1950-73 og þróaðist þaðan í fönk og diskó. Soul tónlistin gaf af sér svo hrikalega flotta listamenn að með ólíkindum má telja.
 
Soul tónlistin varð til þannig að Gospel og Rhythm og Blues tónlistin hittust, urðu ástfangin, eignuðust barn og barnið var skýrt Soul. Sem sagt bræðingur og urðu til Soul flokkar kenndir við fylkin í Bandaríkjunum. Til dæmis: Detroit Soul, Mowtown, Soul Memphis, Soul New Orleans og svona má lengi telja. Meira segja er talað um írskt soul. Sennilega er ein flottasta röddin í heimi Soul tónlistar og þá líka í heimi dægurtónlistar röddinn hans Sam Cook, fæddur 22. janúar 1931 og látinn 11. desember 1964.

Sam var í raun fyrsta þeldökka súperstjarnan. Hann átti 29 lög á topp 40 í Bandaríkjunum og hafði áhrif langt út fyrir hinn svarta heim tónlistarinnar og áhrif hans bergmála enn. Aðrir stórir tónlistarmenn í Soul tónlistinni voru Otis Reddings sem var fæddur 9. september 1941 og dó 10. desember 1967. Hann var önnur rödd frá himnum og hans frægasta lag kom út eftir lát hans alveg eins og hjá Sam Cook.

Þessi tvö lög lifa enn í dag og eru sungin um allan heim. Lögin kannast  allir við og eru Sitting on the dock of the bay en Otis tók það upp viku áður en hann lést í flugslysi. Hitt lagið er eitt frægasta mótmælalag í sögu Bandaríkjanna og heitir Change is gonna come. Söngurinn í því lagi er næstum ómennskur, svo fagur er hann.
 
Aretha Franklin er ein svakalegasta röddin sem heyrst hefur í veröld tónlistarheimsins. Hún syngur enn í dag og hefur verið kölluð Soul drottningin og ber þá kórónu með rentu. James Brown er annar  soul tónlistarmaður sem hefur haft gríðarleg áhrif og Wilson Picket svo nokkrir séu nefndir. Ég hlustaði á þessa tónlist sem krakki og unglingur og gerði mér grein fyrir mikilvægi hennar en líka það að ég fann samkennd inn í mér með þessari tilfinningu sem hljóðheimurinn bauð upp á. Ég hef samið nokkur Soul lög á 30 ára ferli mínum, kannski það þekktasta sé ennþá Sumar konur.
 
 
Ég hef verið að semja í gegnum tíðina Soul lög en aldrei fundið réttu mennina til að vinna með fyrr en ég hitti Daða og Börk Birgissyni sem eru stofnendur Jagúars og reka Stúdíó Sýrland. Börkur er menntaður gítarleikari frá FÍH og stílinn hans er mög persónulegur, mjúkur djass, blúskenndur léttur og teknískur. Hann er mjög frjór gítarleikari. Bróðir hans, Daði, spilar á Hammond píanó og allskonar hljóðgervla. Stíll hans byggir á  mikilli tækni og þekkingu á sögunni en umfram allt er hann spontant og ferskur.

Ég hugsaði eftir að hafa spilað með þeim einu sinni hversu heppinn getur einn maður orðið aftur og aftur með hljóðfæraleikara. Það sem gerði það að verkum að ég fór að vinna með þeim er að þeir þekktu Soul tónlistina eins og þeir hefðu verið að spila með öllu þessu áðurnefnda liði. Þeir þekkja þetta tónlistarform út og inn, þetta er þeirra heimur.

Við erum búnir að taka upp 14 lög og sennilega fara 12 á plötuna. Fyrsta lagið sem fór í spilun heitir Sól og núna á næstu dögum fer næsta lag í spilun en það heitir Ísabella og er um fyrsta kossinn hjá 14 ára stelpu sem heitir Ísabella. Dóttir mín ber þetta nafn en sagan á bak við það er að einn daginn kvartaði hún við mig því systir hennar sem heitir Dögun París var búin að fá sitt lag sem heitir París og er líka á plötunni. Ég sagði við hana að ég myndi semja handa henni lag. Þegar hún kom svo einn dag heim úr leikskólanum og sagði:

Pabbi...það kyssti mig strákur í dag!

...þá bjó ég til lag um fyrsta kossinn hennar en gerði hana samt að unglingi þar sem mér leist ekkert á að strákarnir væru farnir að kyssa hana svona snemma á leikskólanum.
 
Í næstu pistlum mun ég fjalla að einhverju leyti um alla þá hljóðfæraleika sem spila á þessari plötu en það eru: trommur, bassi, tveir saxar, einn trompet og raddir.
 
Ég held ég geti fullyrt að þetta sé fyrsta íslenska Soul platan sem tekin er upp með 12 frumsömdum lögum. Soul tónlistin hefur verið að koma gríðarlega sterk inn aftur og kannski má þakka upptökustjóra hennar Amy Winehouse, honum Mark Ronson, sem gerði með henni plötuna Back in Black.

Einnig má þakka hennar dásamlegu rödd líka sem hefur opnað dyrnar fyrir ungu fólki út um allan heim sem hefur haft þau áhrif að Soul heyrist aftur í nýjum og gömlum búningi. Það eru Soul tónlistarmenn úti um allan heim í dag að fremja þennan dásamlega galdur sem tónlistin er. Kannski má kalla mína: Norrænt Soul?


Þessa pistla og mikið fleirri má finna á pressan.is



BMK er aðdáendaklúbbur Bubba Morthens.

Stofnaður 06.06.06
Hvernig gerast menn félagar í BMK? 

Please publish modules in offcanvas position.