Meðal aðdáenda Bubba hafa óútgefnar upptökur með honum þótt gulls ígildi. Sumir hafa verið harðir í að safna þess meðan aðrir láta sér nægja eitt og eitt lag. Í þessum mola rifja ég, sem þetta skrifar, upp eina magnaða kvöldstund í júlí 1987. Þetta var mjög sérstök kvöldstund svo ekki sé meira sagt.
Þriðjudagskvöld 28. júlí 1987.
Ég sat sem límdur við útvarpið og hlustaði á hvern tón sem frá því barst að slíkri athygli að hefði geðlæknir litið mig augum á þeirri stundu hefði hann eflaust látið loka mig inni einhversstaðar næstu vikurnar ef ekki mánuðina. Augu mín störðu á TDK kassettuna sem snérist í kassettutækinu og festi á band hvern þann tón sem frá útvarpinu barst. Ég var tilbúinn með vara kassettu ef sú sem í tækinu var skildi klikka. Klukkan var rétt rúmlega 10. Tónarnir og röddin sem mér bárust voru það flottasta þessa stundina í lífi mínu. Meira segja nýja Morgan Kane bókin sem ég hafði keypt á leiðinni heim lá óhreyfð á þessari stundu en að þurfti mikið til að slíkar bókmenntir lægu ósnertar á þessum árum. Ástæðan fyrir þessari heilögu stund fyrir framan útvarpið og kassettutækið var að á þessari stundu var Rás 2 að útvarpa í fyrsta sinn heilum tónleikum með Bubba Morthens og sérstakur gestur hans þetta kvöld var Megas.
Allan þennan dag hafði ég háð innri baráttu hvort ég ætti að mæta á tónleikana eins og ég iðulega gerði ætti ég þess kost eða að vera heima, taka tónleikana upp á nýja segulbandið mitt og eiga þannig möguleika á að spila þá aftur og aftur. Á þessari stundu hefði ég eflaust verið til í að vera klónaður á tveim stöðum á sama tíma, hefði slíkt verið í boði. En ég valdi síðari kostinn og tók upp tónleikana.
Þegar fyrstu tónar kvöldsins fylltu loftið í herberginu mínu í Neðstaleitinu vissi ég að ég var að eignast eitthvað sem yrði mér hjartfólgið alla ævi. Opnunarlagið Dylan: I´ll keep it with mine og svo komu þau hvert af öðru:
Rómeó og Júlía
Stál og hnífur
Silfraður bogi Borgin mín
Rembling
Pick a bale of cotton
Aldrei fór ég suður
Bak við veggi martraðar
Frelsarans slóð
Don´t thing twice it´s allright
Toppgun
Dögun
Ég bið að heilsa
Blowing in the wind
Falling in love with you
Heilræðavísur
Um skáldið Jónas
Ísbjarnarblús
Og í laginu Ég bið að heilsa, kom Megas inn og söng með Bubba sem og í næstu lögum. Lögin voru samviskusamlega skráð niður í stílabók. Að vísu vissi ég ekki hvað öll lögin hétu því nokkur komu af væntanlegri plötu Bubba Dögun sem kom svo út síðar þetta sama ár.
Í þessari bók skráði ég allar óútgefnu upptökurnar sem ég átti með Bubba. Þó man ég enn að á þessum tónleikum kynnti Bubbi lagið Dögun undir heitinu „Og og ef þú“ Opnunarlag þessara tónleika var 49. lagið sem ég eignaðist á kassettu eða VHS með Bubba. Ég man líka að ég náði að snúa kassettunni við í kynningu þannig að öll lögin fóru heil inn á kassettuna.
Eftir að þeir höfðu flutt Ísbjarnarblúsinn yfirgaf Bubbi sviðið á Borginni og Megas tók við og ég slökkti á upptökunni. (og sé reyndar svolítið eftir því í dag)
Þegar útsendingu lauk var kassettunni snúið við og spólað á upphafið og tónleikarnir spilaðir aftur í heild. Bæði til að tryggja að allt hefði gengið eins og ætlast var til og svo að bara heyra þá aftur. Morgan Kane bókin á náttborðinu varð að bíða næsta dags. En árla næsta morgun er ég hélt til vinnu fylgdu mér tveir hlutir kassettan með tónleikunum og Morgan Kane bókin. Þessi vika sumarið 1987 var frábær svo ekki sé meira sagt.
Enn er þessi kassetta til í safninu þó ég sé löngu búinn að flytja hana á CD og spila þetta stundum af tölvunni minni. Enn minningin yljar. eins og ávalt er með góða tónlist, stundum man maður hvenær maður eignaðist hana.
Bárður Örn Bárðarson (mars2011)