Ísland hefur undanfarin ár gengið í gegnum meiri efnahagsþrengingar en nokkru sinni áður. Mönnum er tírætt um að nú þurfi að fara að láta hendur standa fram úr ermmum og gert eitt og annað eigi landið ekki hreinlega að fara á hausinn. Mitt í umræðunnu virðist ákveðinn hópur fólks hafa gleymst. Atvinnulausir! Við höfum áður gengið í gegnum þrengingar. Atvinnuleysi er ekki nýtt af nálinni, þó ekki sé neinu saman að jafna er full ástæða til að rifja upp atburði og ástand sem hér var fyrir 17 árum síða. Bubbi Morthens lagði sitt á vogaskálarnar rétt eins og nú.
Sum lög Bubba virðast eilíf, þau ganga endalaust í endurnýjun lífdaga, Því miður mætti kannski segja í sumum tilfellum. Allavega í þessu tilfelli því hér minnumst við á lag sem átti þátt í viðhorfsbreytinu hjá fjölmörgum og heitið varð fleygt um leið.
Hverfum aftur til útmánaða ársins 1994. Þá var fátt eins rætt og atvinnuástand þjóðarinnar. Vaxandi atvinnuleysi var hluti þeirrar kreppu sem þá gekk yfir land og þjóð. Pólitískir framagosar birtust hver af öðrum og bentu á að ástandið væri jafnvel mun verra í nágrannalöndum okkar, þetta ástand væri langt frá því bundið við Ísland og íslenskt efnahagsástand, og í raun væri ástandið hér betra en víðast hvar annarstaðar.
Blöð og fjölmiðlar hömuðust við að birta okkur tölur um hve slæm þessi mál væru víða erlendis og í kjölfarið voru hinir pólitísku valdhafa farnir að telja alþýðunni trú um að þetta væri ástand sem landsmenn yrðu að búa við í nánustu framtíð.
Landið væri ekki lengur einangruð eyja norður í hafi heldur hluti heimsbyggðarinnar og því yrðum við að samþykkja að ástandið í þessum málum væri áþekkt því sem gerðist í nágrannaríkjunum og okkar helstu viðskiptalöndum. Við yrðum því að nánast samþykka að búa við 7-10% atvinnuleysi því ef ráðist yrði gegn því af of mikilli hörku af hinu opinbera ættum við það jafnvel á hættu að verðbólgan færi á fullt skrið – og svo hnykktu menn út með setningum eins og „Viljum við það!“
– Nei það vildi enginn og svo var jafnvel komið á bestu bæjum að búið var að samþykkja að hér yrði viðvarandi atvinnuleysi. Einstaka ofurhugar létu málið til sín taka og opnuð var miðstöð fólks í atvinnuleit.
En hvað kemur atvinnuleysi á Íslandi árið 1994 Bubba Morthens við? Jú Bubbi var einn þeirra sem tók skýra afstöðu gegn slíkum fullyrðingum og til að undirstrika það efndi hann ásamt KK og Tolla ásamt fleirum til tónleika í Borgarleikhúsinu 11. apríl 1994 undir yfirskriftinni „Atvinnuleysið er komið til að fara“. Þar sem allur ágóði tónleikanna rann til miðstöðvar fólks í atvinnuleit.
Í kjölfar tónleikanna hélt Bubbi í hringferð um landið undir sömu yfirskrift. Frasinn „Atvinnuseysið er komið til að fara“ varð fleygur og víða mátti í kjölfarið sjá hann í ritum og greinum er vörðuðu ástand þjóðfélagsins og menn vitnuðu í tónleika og þetta viðhorf Bubba og félaga.
Þessi frasi er einnig heiti lags sem kom svo út á plötunni 3 heimar síðar sama ár. Það má vel segja að þessi frasi Bubba hafi átt sinn þátt í viðhorfsbreytnu hjá fjölmörgum, í stað þess að samþykkja 7-10% varanlegt atvinnuleysi kom frasinn „Atvinnuleysið er komið til að fara“.
Baráttumaðurinn Bubbi Morthens hafði enn einu sinni lagt lóð á vogarskálarnar og í þetta sinn skipti það lóð líka máli. Ástæða þess að bubbi.is vill rifja þetta upp nú er að kannski er tímabært að minnast aðeins á þann fjölda atvinnulausra nú.
Hann virðist hafa fallið í gleymsku og við búum við meira atvinnuleysi nú en 1994. Við gætum líka farið að dusta rykið af þessari setningunni, spila lagið og skipta í kjölfarið um gír.
Kannski við ættum að uppfæra þetta KREPPAN ER KOMIN TIL AÐ FARA.