Main Header

Bubbi un nokkur lög sín

Image
Bubbi segir sjálfur frá

Fyrir okkur aðdáendur Bubba hafa textar Bubba Morthens ávalt skipt máli. Enda hefur hann þar tekið á mörgum málunum sem legið hafa í einskonar þagnargildum, en með umfjöllun sinni hefur Bubbi jafnvel opnað umræður og vakið athygli á einstökum málum eða málaflokkum.Það er einn þeirra þátta sem hafa haldið Bubba á toppi vinsælda í gegnum tíðina.

Það er líka svolítið hlálegt að allt frá Plágunni 1981 hafa blaðamenn imprað á því við hann í viðtölum að hann sé ekki eins beyttur í textum sínum og áður og hverju það sæti. Þessi staðlausa fyrirspurn hefur svo skotið upp kollinum með reglulegu millibili í gegnum tíðina. En þeim hefur nú réttilega oftast, alfarið verið vísað á bug jafn harðan. Enda brosleg svo ekki sé meira sagt.

Bubbi hefur haldið sig við þá forskrift sem hann lagði með upp í tónlistarferðalagið sitt; það er að syngja fyrst og fremst um það sem honum sýnist þegar honum sýnist svo þá stundina. Þessi ákvörðun hans hefur átt sinn þátt í sérstöðu hans í íslenskri tónlistarflóru. -

Oft hefa menn póstað okkur hingað á bubbi.is og spurt um merkingar þessa lags eða annars. Til að svara einhverjum slíkur fyrirspurnum þá kíkjum við í gömul viðtöl og greinar þar sem Bubbi hefur sjálfur tjáð sig um lögin sín og hér segir hann sjálfur frá einu og öðru er snýr að nokkrum laga hans.

ImageAfgan
Upptaka: Grettisgat 15. Febrúar 1983 – Útgáfa: Fingraför (1983)
Bubbi: …Afgan er saminn í Miðstræti 5 hjá vini mínum Jóni Arnari og Elmu, vinafólki mínu. Mér hafði áskotnast heill hellingur af Afgan, svörtum Afgan og ég var að bíða eftir að bróðir minn kæmi að ná í mig og ég reykti svo mikið að ég var alveg í stökustu vandræðum. Og ég var að fá svokallaða hvítu eins og það er kallað á fagmáli. Og svona til skýringar þá get ég ekki aðskilið dópið, músikina og Bubba á þessum tíma. Þetta er allt samtvinnað á þessum tíma. Afgan segir sig alveg sjálft, það er bara einhver óður til þessa efnis. Og ég skrifaði það til að komast hjá hvítu, ég var að fá hvítuna, verða veikur og skrifaði það bara alveg desperat til að halda mér niðri á jörðinni. Hreinskrifaði aldrei textann, gerði aldrei neitt meira við hann heldur söng hann bara inn.
(Bubbi: í þættunum: Augun í textum Bubba Morthens á Rás tvö. 25.12.1993)

Afkvæmi hugsana minna
Upptaka: Stúdíó Sýrland 12. Maí 2003 – Útgáfa: Lífið er ljúft (2003)
Bubbi: Í rauninni oft þegar maður fer að sofa á kvöldin, þá getur hent mann að hugsa og jafnvel vera mikið þreyttur en hugurinn fer allt í einu úr hlutlausum upp í fimmta gír og æðir út á þjóðbraut hugans. Þar sem engin leið er að stoppa og þar af leiðandi engin leið að sofna og um það fjallar þessi texti. Hann fjallar um svefnleysi, það er nú ekki flóknara en það
(Bubbi um lög á safnplötunni 1990-2000 á Rás 2. 1.12.2000)

Alltaf einn
Upptaka: Stúdíó Sýrland – Útgáfa: Nýbúinn (2001)
Bubbi: Er um hann Valla vin minn sem dó í desember í fyrra og sumir segja að Þorgrímur Þráinsson eigi þátt í dauða hans því hann hafi komið því í gegn að það er bannað að reykja inn á geðdeild. Ég segi inn á geðdeild eiga menn að fá að reykja eins mikið og þeir vilja. Og af því Valli mátti ekki reykja inni á geðdeild þá þurfti hann að fara út með einhverjum gæslumönnum til að fá sér smók og að sjálfsögðu greip hann tækifærið og ætlaði að hlaupa í burtu þar sem hann gæti verið í friði og reykt sitt karton. Þetta reyndist honum ofviða, hann datt niður á Snorrabrautinni dauður. Valli var einn af þessum strákum sem bjó á götum Reykjavíkur…..
(Bubbi á Þorláksmessutónleikum 2001)


ImageAugun mín
Upptaka: Hljóðriti, september 1986 – Útgáfa: Frelsi til sölu (1986)
Bubbi: Já, já þetta er nú texti undir áhrifum frá Snorra Hjartarsyni. Samt eru nú ákveðin skilaboð í þessum texta. Það er ákveðin stúlka sem er verið að syngja um. Ég er að segja í þessum texta ,,Þú skalt ekki treysta mér, því að ég er ekki einnar konu maður”, og það sem ég er að segja við þessa stúlku er það sko; Það er alveg sama hvað ég segi við hana þá væri ég alveg vís til að sofa hjá einhverri annar konu næstu nótt, það er það sem ég er að segja í þessum texta. Ég var mjög hrifin af þessari stelpu. En þó ég hafi ekki getað sagt það við hana í orðum einum þá geri ég það í þessu lagi. Það hef ég oft gert í gegnum tíðina í minni músík…. 
(Bubbi: í þættunum: Augun í textum Bubba Morthens á Rás 2. 1.1.1994)

Barnablús
Upptaka: Stúdíó Sýrland í apríl og maí 1997 - Útgáfa: Trúir þú á engla (1997)
Bubbi: Þar er ég að segja frá  ákveðnum strák sem ég þekkti í æsku sem aldrei bauð heim til sín. Ég fattaði það ekki fyrr en löngu síðar að það var vegna þess að foreldrar hans voru drykkjumanneskjur. Þetta lag fannst mér kynngimagnað fyrir það hvernig Guðmundur Pétursson leikur á gítarinn. Það er klisja að kalla þennan eða hinn snilling en um fáa á það eins vel við og Guðmund; ég held því fram að önnur eins spilamennska hafi ekki heyrst á íslenskri plötu. Ég fæ gæsahúð í hvert sinn sem ég heyri lagið.
(Bubbi: MBL 26.10.1997)

Bleikir þríhyrningar
Upptaka: Stúdíó Sýrlandi 10. júní 1994. Útgáfa: 3. heimar (1994)
Bubbi: Textann við Bleika þríhyningar sótti ég til í fréttatengdan þátt hjá BBC þar sem verið var að fjalla um homma og lesbíur í fangabúðum þriðja ríkisins. Þetta fólk var merkt með þremur bleikum þríhyrningum og það sætti hörmulegri meðferð hjá kvölurum sínum áður en endi var bundinn á líf þess.
(Bubbi í viðtali við DV 20 okt 1994)

ImageBóndinn í blokkinni

Upptaka: Stúdíó Sýrland í apríl og maí 1997 – Útgáfa: Trúir þú á engla (1997)
Bubbi: Bóndinn í blokkinni er þula., fyrsta þulan til margra ára á plötu, kannski sú fyrsta frumsamda í íslensku poppi. Þula þarf ekki endilega að vera saga frá upphafi til enda, hún getur byggst á stuttum myndum eða sögum sem tengjast hver annarri. Oft er í þulunni tregi eða von, en ég hugsaði með mér að ég gæti sýnt fram á  að þuluformið er ferskt, en mér finnst það eitt magnaðasta form sem við eigum og býður meðal annars upp á góða möguleika til að rappa. Í þulunni segi ég frá manneskju sem flosnar upp og flytur í blokk. Þar eru engir álfar heldur er þetta ógæfumaður með börn á framfæri, drykkjusjúkur maður. Það var ekki hægt að hafa neitt nema þjóðlegann gítar í laginu og því varð það þannig.
(Bubbi: MBL 26.10.1997)

Börn Guðs
Upptaka: Stúdíó Sýrland í apríl og maí 1997 – Útgáfa: Trúir þú á engla (1997)
Bubbi: Varð til þegar ég las minningargrein um stúlku sem hafði haldið mikið upp á mig og um leið ímyndaði ég mér hvernig mér myndi líða ef ég missti eitt af mínum börnum. Lag og texti var til á fáeinum mínútum og þeir Eyþór (Gunnarsson) og Guðmundur (Pétursson) áttu mikinn þátt í því hvernig það varð. Eyþór hægði á því og Guðmundur bætti Bítlaáhrifunum við, enda höldum við mikið upp á Bítlana. Þetta er kannski sterkasta lagið, en ég hef verið hræddur við að syngja það á tónleikum, því ég hef verið hræddur um að ýfa upp sár einhvers meðal áheyrenda. Ég spilaði lagið fyrir foreldra stúlkunnar í Grafavogskirkju og þau tóku því svo vel að ég ákvað að setja það á plötuna.
(Bubbi: MBL 26.10.1997)

Fallegur dagur
Hljóðritað í Stúdíó Sýrlandi 10.5.2004 – Útgáfa: Ást (2005)
Bubbi: Já þetta var svona vordagur, Þetta var seinasta lagið sem ég samdi sem giftur maður á Eiðistorginu, já það er bara þannig. Þetta er rosalega vel heppnað lag og tóninn í þessu lagi! Og eins og oft áður er ég forspár í lögum mínum og textum. Og þetta lag þykir mér eitt af best heppnuðu lögum á ferlinum.
(Bubbi í Þætti hjá Hemma Gunn 17.júní 2007)

ImageFjólublátt flauel
Upptaka: Grjótnámunni í júlí og ágúst 1990 – Útgáfa: Sögur af landi (1990)
Bubbi: Er lag sem ég orti um hann Agga vin minn. Aggi var stórmerkilegur maður. Einn af fáum mönnum sem ég hélt alltaf sambandi við eftir að ég varð edrú þótt hann væri sjálfur alltaf útúr dópaður. Hann fékk mig einu sinni til að reykja rósir og ég lyktaði eins og rósarunni í hálfan mánuð. Ég svitnaði rósailm. Þetta var rosalega skrítið, ég er ekki að djóka, þetta var yfirgengilegt. Og hann fékk mig til að reykja Passíublóm, sem er selt í búðum um páskana og er svona eins og þyrnikóróna. Hann var búinn að finna það út að það væri einhver virkni í þeim. Hann var mjög fróður um öll blóm. Fræbær strákur. En hann endaði ævina þannig að hann var myrtur á Leifsgötunni. Ég sakna alltaf Agga. Hann litaði líf mitt mjög skemmtilega.
(Bubbi á tónleikum á Nasa 4. maí 2006)

Ha-ha-ha (Rækjureggae)
Upptaka: Hljóðriti í ágúst 1980 - Útgáfa: Utangarðsmenn - Ha-ha-ha (Rækju reggae) (smáskífa)
Bubbi: Það er töluverður mórall í Íslenskri dægurmúsík gagnvar okkur (Utangarðsmönnum) Það má aldrei segja neitt, allir eru hræddir um sitt bak og sitt nafn, ..Rækju-reggae” er grín hjá mér. Ekki alls fyrir lögnu kom til mín ,,Vel metinn” tónlistarmaður og sagði að það sem hann spilaði væri ,,Rækju-Rokk” en það sem við spiluðum væri ,,Gúanó-rokk”. Með þessu var hann að gefa í skyn að sú músík sem Utangarðsmenn fremdu væri bölvaður úrgangur. Mér fannst þetta frábær vitleysa í manninum og ákvað að nefna lagið Rækju-Reggae honum til heiðurs en ekki Ha-ha-ha eins og lagið átti að heita upphaflega.
(Bubbi í viðtali við Þjóðviljinn 4-5 .10.1980)

Horft til baka
Upptaka: Stúdíó Sýrland 6. júlí 1993 – Útgáfa: Lífið er ljúft (1993)
Bubbi: Þarna er ég að kveðja Konu plötuna mína. Þarna er ég einhvern vegin að gera upp þessa plötu og þessar tilfinningar…
(Bubbi á Rás 2 um lög á safnplötunni Sögur 1990-2000 1.12.2000)

 

Samantekt: Bárður Örn Bárðarson fyrir bubbi.is í mars 2010

BMK er aðdáendaklúbbur Bubba Morthens.

Stofnaður 06.06.06
Hvernig gerast menn félagar í BMK? 

Please publish modules in offcanvas position.