Bubbi hefur unnið tvær heilar plötur sem innihalda lög sem aðrir hafa flutt áður. Þetta eru plöturnar Í skugga Morthens þar sem Bubbi söng lög sem Haukur Morthens hafði gert fræg á sínum tíma og síðar söng Bubbi inn plötu með lögum Bellmanns við gítarundirleik Gumma P. En Bubbi hefur sungið fleirri lög sem eiga það sammerkt að vera eftir aðra og komið út á plötum áður en Bubbi flutti þau.
Til eru þeir aðdáendur sem hafa gaman af að pikka upp þessi lög og safna þeim saman. Hér höfum við listað upp þeim helstu í þessum flokki. ásamt upplýsingum af hvaða plötum þau eru upprunin. En aðeins þeim lögum sem Bubbi syngur aðalrödd. Því höfum við sleppt lögum á boð við Ég bið að heilsa með Bubba og Megasi og Ég er kominn heim sem Björn Jörundur syngur með Bubba. sem og öðrum lögum þar sem Bubbi leggur jafnvel enn minna til söngs en í þessum tveim lögum. Þetta er ekki slæmur playlisti fyrir Bubbaaðdáendur á góðu kvöldi
Braggablús
(Lag & texti: Magnús Eiríksson)
Plata: Reykjavíkurflugur Gunnars Þórðarsonar (1987) - Gunnar Þórðarson
Flytjandi: Bubbi ásamt hljómsveit Gunnars Þórðarsonar
Upprunaleg útgáfa: Í gegnum tíðina (1977) – Mannakorn
Uppl.: Þetta lag kemur af annarri hljóðversplötu Mannakorns og hefur síðan fest sig í sessi sem klassískt popplag í íslenskri poppsögu.
Við heimtum aukavinnu
(Lag: Jón Múli Árnason – texti: Jónas Árnason)
Plata: Lög Jóns Múla Árnasonar við texta Jónasar Árnasonar (1987) - Ýmsir
Endurútgáfa: Söngdansar og ópustar (2011) - Ýmsir
Upprunaleg útgáfa: Járnhausinn (EP plata, 1965) – Ýmsir
Uppl.: Lagið er úr sjónleiknum Járnhausinn og sungið af Ómari Ragnarssyni.
Ísland er land þitt
(Lag: Magnús Þór Sigmundsson – texti: Margrét Jónsdóttir)
Plata: Ísland er land þitt (1988) – Ýmsir (Magnús Þór Sigmundsson)
Flytjandi: Bubbi Morthens
Upprunaleg útgáfa: Draumur Aldamótabarnsins (1982) – Magnús Þór Sigmundsson
Uppl.: Egill Ólafs syngur þetta lag fantavel, Pálmi Gunnarsson einnig. Þegar Magnús Þór gaf út plötuna Ísland er land þitt árið 1988 fékk hann Bubba Morthens til að syngja lagið inn með strengjasveit og er þetta sagt fyrsta lagið sem Bubbi syngur inn á plötu með slíkri sveit. Áform um að gefa þessa plötu út á CD á sama tíma og LP plötuna runnu því miður út í sandinn og enn er þetta líklega eitt af flottari lögum sem Bubbi hefur sungið sem ekki hefur enn verið endurútgefið á CD.
Stína Ó, Stína
(Lag: Árni Ísleifsson, Ljóð: Aðalsteinn Aðalsteinsson)
Plata: Íslandslög 2 (1994) – Ýmsir (Björgvin Halldórsson)
Flytjandi: Bubbi og BH kvartettinn
Upprunaleg útgáfa: Stína ó, Stína (1954) – Haukur Morthens
Uppl.: Reyndar kom þetta lag út sama árið á tveim plötum það er með Hauki og þá söng Ragnar Bjarnason það einnig. En óhætt er að segja að útgáfa Hauks hafi orðið ofan á.
Hrafninn
(Lag: Gunnar Þórðarson, texti: Kristján frá Djúpalæk)
Plata: Söknuður – minningarplata um Vilhjálm Vilhjálmsson (1998) - Ýmsir
Flytjandi: Bubbi Morthens
Upprunaleg útgáfa: Með sínu nefi (1976) - Vilhjálmur Vilhjálmsson
Uppl.: Frábært lag sem Bubbi söng einnig á tónleikum og kom þar út í kassagítarútgáfu. Menn geta því valið þá útgáfu sem þeim finnst betri.
Kata rokkar
(Lag og texti: Theódór Einarsson)
Plata: Íslandslög 4 (1999) – Ýmsir (Björgvin Halldórsson)
Flytjandi: Bubbi Morthens
Upprunaleg útgáfa: Hreðavatnsvalsinn (EP plata, 1959) – Erla Þorsteinsdóttir
Uppl.: Erla Þorsteinsdóttir hljóðritaði þetta lag í Kaupmannahöfn í byrjun júní 1959. Lagið hefur ávalt þótt einn af gullmolum Erlu og ekki varð lagið minna vinsælt þegar Björk Guðmunds og Ingólfur Guðmundsson tóku það upp og gáfu út á plötunni Gling gló.
Í bljúgri bæn
(Lag: Bandarískt þjóðlag, texti: Pétur Þórarinsson)
Plata: Íslandslögin 5 – Í kirkjum landsins (2000) – Ýmsir (Björgvin Halldórsson)
Flytjandi: Bubbi Morthens
Upprunaleg útgáfa: Rut + (1980) – Rut Reginalds
Uppl.: Lagið er Bandarískt þjóðlag en séra Pétur Þorarinsson samdi þennan iðrunarsálm árið 1974 þegar hann stundaði nám við Guðfræðideild Háskóla Íslands. Fljótlega varð þessi sálmur auðfúsugestur í öllu æskustarfi kirkjunnar og það var Rut Reginalds sem fyrst setti hann á plötu árið 1980 en síðan hafa fjölmargir fetað í þau fótspor. Og svona til gamans má geta þess að annað lag er til sem bæði Bubbi og Rut Reginalds hafa sungið en það er önnur saga
Vorvísa
(Lag: Hallbjörg Bjarnadóttir, texti: Jón Thoroddsen)
Plata: Íslandslögin 6 (2003) – Ýmsir (Björgvin Halldórsson)
Flytjandi: Bubbi Morthens
Upprunaleg útgáfa: Björt mey og hrein / Vorvísa (1955) – Hallbjörg Bjarnadóttir
Uppl.: Hallbjörg hljóðritaði þetta lag í Kaupmannahöfn 19. apríl 1955 með hljómsveit Ole Höyer og gaf Fálkinn það úr ásamt laginu Björt mey og hrein síðar sama ár.
Það skrifað stendur
(Lag: Jón Múli Árnason – texti: Jónas Árnason)
Plata: Þjóðsaga – Papar
Flytjandi: Papar og Bubbi
Upprunaleg útgáfa: óvitað
Uppl.: engar upplýsingar hafa enn fundist um lagið
Hæ hoppsa-sí
(Írst þjóðlag: texti: Jónas Árnason)
Plata: Jameson – Papar og gestir (2011)
Flytjandi lags: Papar og Bubbi
Upprunaleg útgáfa: ...eitt sumar á landinu bláa (1970) - Þrjú á palli
Uppl.:: Lagið var samið fyrir verkið „Þið munið hann Jörund“
Eftirmáli:
Nú er það stóra spurningin hvaða lag væri nú mest spennandi úr tónlistarsögunni að heyra Bubba syngja. Sjálfur á ég mér ágætis óskalista í þeim efnum, þó er hann líklega of fjarstæðukendur til að birta hann hér. En gaman væri að heyra frá aðdáendum hvað þetta varðar. Til gamans bendi ég á að ég setti þessi lög upp í einskonar play-lista hjá mér og hann er bara nokkuð áheyrilegur og spilaður nokkuð oft.