Bubbi sagði frá því í viðtali að textarnir við sum laganna á Ég trúi á þig hefðu þróast úr því að vera reiðilestur yfir í lofsöng um ástina og lífið. Eins og fleiri Íslendingar hefur hann ákveðið að taka fókusinn af kreppusoranum og færa hann yfir á það sem skiptir mestu máli í lífinu. Góð ákvörðun. Fyrir vikið er þetta jákvæð og upplífgandi plata. Fín í sumarið og sólina.
Niðurstaða: Fjölbreytt og vel heppnað ferðalag inn í heim sálartónlistarinnar.
(Trausti Júlíusson Vísir.is 22.6.2011)
Við fengum forsmekkinn af sálarplötu Bubba með laginu Sól á safnplötunni Sögur af ást, landi og þjóð sem kom út árið 2010. Bubbi hafði um tíma gengið með hugmynd að sálarplötu í kollinum og reyndar stungið á því kýli að litlu leyti á plötunni Fjórir naglar en þar sem finna tvö lög sem flokka má undir sálartónlistina.
Þó við fyrstu sýn megi ætla að heiti plötunnar Ég trúi á þig sé andlegs eðlis og á ferð sé enn ein trúartilvitnunin höfundar er hún hér öllu frekar veraldlegs eðlis því með heiti plötunnar undirstrikar Bubbi trú sína á mannkynið og það góða sem býr í vorri veröld, hann trúi á manneskjuna, það góð sem hver einstaklingur hefur að geyma.
En afhverju sálartónlist? við skulum gefa Bubba sjálfum hér orðið og birtum hér pistil sem hann ritaði og var birtur 13. febrúar 2011, á pressan.is meðan platan var enn í vinnslu.
Soul platan mín
„Ef þú ert ekki á tánum sem listamaður, sífellt að ögra þér og reyna á þanþol þitt þá deyrðu. Verður aðeins skuggi af sjálfum þér. Það er ekkert auðveldara þegar þú hefur dottið einu sinni niður á plötu sem slær í gegn að halda því áfram. En þannig vil ég ekki vera, ég verð að reyna á mig, fara nýjar leiðir, skoða hvað ég get gert en ef það gengur ekki, nú, þá reyndi ég allavega.
Í dag er ég að taka upp plötu með fólki sem er töluvert yngra en ég. Við erum að taka upp tónlist sem kallast Soul tónlist. Soul tónlistin var í tísku á árunum 1950-73 og þróaðist þaðan í fönk og diskó. Soul tónlistin gaf af sér svo hrikalega flotta listamenn að með ólíkindum má telja.
Soul tónlistin varð til þannig að Gospel og Rhythm og Blues tónlistin hittust, urðu ástfangin, eignuðust barn og barnið var skýrt Soul. Sem sagt bræðingur og urðu til Soul flokkar kenndir við fylkin í Bandaríkjunum. Til dæmis: Detroit Soul, Mowtown, Soul Memphis, Soul New Orleans og svona má lengi telja. Meira segja er talað um írskt soul. Sennilega er ein flottasta röddin í heimi Soul tónlistar og þá líka í heimi dægurtónlistar röddinn hans Sam Cook, fæddur 22. janúar 1931 og látinn 11. desember 1964.
Sam var í raun fyrsta þeldökka súperstjarnan. Hann átti 29 lög á topp 40 í Bandaríkjunum og hafði áhrif langt út fyrir hinn svarta heim tónlistarinnar og áhrif hans bergmála enn. Aðrir stórir tónlistarmenn í Soul tónlistinni voru Otis Reddings sem var fæddur 9. september 1941 og dó 10. desember 1967. Hann var önnur rödd frá himnum og hans frægasta lag kom út eftir lát hans alveg eins og hjá Sam Cook.
Þessi tvö lög lifa enn í dag og eru sungin um allan heim. Lögin kannast allir við og eru Sitting on the dock of the bay en Otis tók það upp viku áður en hann lést í flugslysi. Hitt lagið er eitt frægasta mótmælalag í sögu Bandaríkjanna og heitir Change is gonna come. Söngurinn í því lagi er næstum ómennskur, svo fagur er hann.
Aretha Franklin er ein svakalegasta röddin sem heyrst hefur í veröld tónlistarheimsins. Hún syngur enn í dag og hefur verið kölluð Soul drottningin og ber þá kórónu með rentu. James Brown er annar soul tónlistarmaður sem hefur haft gríðarleg áhrif og Wilson Picket svo nokkrir séu nefndir. Ég hlustaði á þessa tónlist sem krakki og unglingur og gerði mér grein fyrir mikilvægi hennar en líka það að ég fann samkennd inn í mér með þessari tilfinningu sem hljóðheimurinn bauð upp á. Ég hef samið nokkur Soul lög á 30 ára ferli mínum, kannski það þekktasta sé ennþá Sumar konur.
Ég hef verið að semja í gegnum tíðina Soul lög en aldrei fundið réttu mennina til að vinna með fyrr en ég hitti Daða og Börk Birgissyni sem eru stofnendur Jagúars og reka Stúdíó Sýrland. Börkur er menntaður gítarleikari frá FÍH og stílinn hans er mög persónulegur, mjúkur djass, blúskenndur léttur og teknískur. Hann er mjög frjór gítarleikari. Bróðir hans, Daði, spilar á Hammond píanó og allskonar hljóðgervla. Stíll hans byggir á mikilli tækni og þekkingu á sögunni en umfram allt er hann spontant og ferskur.
Ég hugsaði eftir að hafa spilað með þeim einu sinni hversu heppinn getur einn maður orðið aftur og aftur með hljóðfæraleikara. Það sem gerði það að verkum að ég fór að vinna með þeim er að þeir þekktu Soul tónlistina eins og þeir hefðu verið að spila með öllu þessu áðurnefnda liði. Þeir þekkja þetta tónlistarform út og inn, þetta er þeirra heimur.
Við erum búnir að taka upp 14 lög og sennilega fara 12 á plötuna. Fyrsta lagið sem fór í spilun heitir Sól og núna á næstu dögum fer næsta lag í spilun en það heitir Ísabella og er um fyrsta kossinn hjá 14 ára stelpu sem heitir Ísabella. Dóttir mín ber þetta nafn en sagan á bak við það er að einn daginn kvartaði hún við mig því systir hennar sem heitir Dögun París var búin að fá sitt lag sem heitir París og er líka á plötunni. Ég sagði við hana að ég myndi semja handa henni lag. Þegar hún kom svo einn dag heim úr leikskólanum og sagði: Pabbi...það kyssti mig strákur í dag!
...þá bjó ég til lag um fyrsta kossinn hennar en gerði hana samt að unglingi þar sem mér leist ekkert á að strákarnir væru farnir að kyssa hana svona snemma á leikskólanum.
Ég held ég geti fullyrt að þetta sé fyrsta íslenska Soul platan sem tekin er upp með 12 frumsömdum lögum. Soul tónlistin hefur verið að koma gríðarlega sterk inn aftur og kannski má þakka upptökustjóra hennar Amy Winehouse, honum Mark Ronson, sem gerði með henni plötuna Back in Black.
Einnig má þakka hennar dásamlegu rödd líka sem hefur opnað dyrnar fyrir ungu fólki út um allan heim sem hefur haft þau áhrif að Soul heyrist aftur í nýjum og gömlum búningi. Það eru Soul tónlistarmenn úti um allan heim í dag að fremja þennan dásamlega galdur sem tónlistin er. Kannski má kalla mína: Norrænt Soul?“
Þegar Ég trúi á þig kom svo kom út þann 6. júní 2011 hafði fólk fengið meira en smjörþefinn af herlegheitunum. Því Bubbi hafði tekið þann pól í hæðina að setja einstök valin lög í spilun útvarpsstöðvanna og inn á tónlist.is með reglulegu millibili fyrri hluta árs 2011 og allt fram yfir útgáfu plötunnar.
Reyndar hafði lagið Sól komið út sem aukalag á safnplötunni Sögur af ást landi og þjóð árið 2010 eins og áður var minnst á og fengið ágætis útvarpsspilun Það var af þeirri plötu sem lagið náði inn á lista vinsælustu laga landsins.
Þau lög sem Bubbi valdi í forspilanir fyrir útgáfu plötunnar fengu öll góðar viðtökur. Skoðum þau lög og árangur þeirra á Lagalistanum (Topp 30) en sá listi samanstendur af listum útvarpsstöðva og tónlistar.is og þar sem margar þeirra eru ólíkar í efnisvali er ekkert auðhlaupaverk að koma lagi þar upp listann.
Sól (8. vikur, hæst 6. sæti, kom fyrst út á safnplötunni Sögur af ást landi og þjóð)
Ísabella (12 vikur á topp 30, hæst 1. sæti)
Blik þinna augna (11. vikur, hæst 1. sæti)
Háskaleikur (11. vikur, hæst 1. sæti)
Slappaðu af (6. vikur, hæst 6. sæti)
Verið djörf alla leið (1 vika, hæst 23. sæti)
Tvö síðast töldu lögin fóru í spilun eftir að platan kom út. En það að sex lög af sömu plötunni fari inn á Lagalistann er meira en sjaldgæft og segir okkur að almenningur var að taka vel við þessum lögum. Samtals sátu lög plötunnar 41 viku á lista árið 2011. Platan sjálf gerði það einnig fott á lista yfir best seldu plötur landsins þar sem hún sat í heilar 22 vikur og þar af 16. vikur á topp 10. Enda fór sala hennar yfir 7000 eintök. En talsvert langt var þá um liðið frá því sólóplata frá Bubba hafði selst í slíku upplagi.
Síðar hefur verið á það bent að þessi plata Bubba sé líklega fyrsta heila soulplata íslenskrar tónlistarsögu. Aldrei áður hafi komið út heil plata sem tileinkuð er þessari tónlistarstefnu. Eitt er alveg á hreinu að á þessa plötu verður minnst með reglulegu millibili um langan aldur.
Samantekt: Bárður Örn Bárðarson, fyrir bubbi.is í janúar 2012