Main Header

Bubbi og kvennaathvarfið

Tónlistarmaðurinn með gullhjartað

- Bubbi og Kvennaathvarfið 1986 -

kvenno1Samtök um Kvennathvarf voru stofnuð í júní 1982 og tók fyrsta athvarfið til starfa sama ár. Strax fyrstu dagana kom bersýnilega í ljós að þörfin á þessu skjóli fyrir konur sem misrétti voru beittar og börn þeirra var fyrir hendi og neyðin meiri en menn höfðu almennt gert sér grein fyrir. Ríki og sveitarfélög voru þó treg til styrkveitinga til starfseminnar fyrstu ár Athvarfsins og var starfseminni að stórum hluta haldið uppi af því hugsjónarfólki sem skynjað hafði vandann og hafið starfsemina. Árið 1986 var athvarfið í húsi við Hverfisgötu og sökum fjárskorts höfðu samtökin ekki efni á að annast eðlilegt viðhald húsnæðisins, þá var allur rekstur nánast orðinn fjárvana og samtökin rekin af litlum efnum dag frá degi. Við blasti lokun, þessa eina Kvennaathvarfs á landinu sumarið 1986, svo einfalt var það. Þegar Sigrúnu Stefánsdóttir, fréttakonu hjá Ríkissjónvarpinu, bárust þessi tíðindi ákvað hún að taka viðtal við Eddu V. Scheving eina af þáverandi starfskonum athvarfsins. Í lok þess viðtals kom fram að Edda tryði því ekki fyrr en á reyndi að ríki og bær létu loka eina athvarfi kvenna og barna á landinu. Hún tryði því ekki að almenningur léti slíkt sinnuleysi yfir sig ganga.

kvenno2Einn þeirra sem sat við sjónvarpið þetta kvöld var Bubbi Morthens. Ekki var viðtalinu fyrr lokið en hann var sprottinn upp úr stólnum og hringdi í umboðsmann sinn Viðar Arnarsson og tilkynnti honum að hann ætlaði sér að efna til styrktartónleika fyrir athvarfið. Þegar þessu símtali var lokið sló Bubbi á þráðinn til Megasar en mikill samgangur var á milli þeirra félaga á þessum tíma og var Megas til í slaginn. Viðar tók strax til sinna starfa við útvegun húsnæðis fyrir tónleikana, safna saman fleiri listamönnum ásamt því að hafa samband við fjölmiðla vegna málsins. Fjölmiðlum fannst þetta tíðindi og gerðu sér áberandi fréttir úr efninu. Útvarpsstöðvar fjölluðu um málið í kjölfarið og starfskonur athvarfsins höfðu skyndilega í nógu að snúast við að mæta í viðtöl hjá útvarpi, sjónvarpi og blöðum. Yfirskriftin var oftar en ekki BUBBI TIL BJARGAR ATHVARFINU. Við þennan fréttaflutning fjölmiðla var eins og allar gáttir samfélagsins opnuðust. Fyrirtæki og einstaklingar ruku af stað og gjafir og loforðum um aðstoð streymdu inn á borð Samtaka um kvennaathvarf. Fyrr en varði var efni í nýtt þak á húsið komið, iðnaðarmenn buðu fram aðstoð sína við vinnu án endurgjalds, SÍS (Samband íslenskra samvinnufélaga) færði Athvarfinu veglega peninggjöf, Davíð Scheving Thorsteinsson mætti í eigin persónu sem forstjóri Smjörlíkisgerðarinnar með rausnarlegar gjafir og svo mætti lengi halda áfram.

kvenno3Fyrstu tónleikarnir Bubba fóru fram á veitingastaðnum Roxý við Skúlagötuna (áður Safarí) 25. júlí 1986 og meðal þeirra sem þar komu fram auk Bubba og Megasar má nefna Bjarn Tryggva, hljómsveitina Vunderfoolz og Blúsbræður, Mike Dean Pollock, Þorleif Guðjónsson og fjölda annarra listamanna. Næstu daga eftir að umræðan fór í gang mátti sjá lesendabréf á síðum blaðanna þar sem fólk þakkaði Bubba fyrir að vekja athygli á þörf Athvarfsins og það sem meira væri að gera eitthvað í málinu.

En Bubbi var ekki hættur. Honum fannst rekstrarvandi athvarfsins ekkert einkamál Reykvíkinga enda opið hús fyrir konur og börn af öllu landinu. Hann áætlaði því einnig tónleika á Akureyri, Selfossi og Keflavík.
Akureyri var fyrst á dagskránni og þann 9. október voru haldnir tvennir tónleikar á sama tíma á tveim stöðum norðan heiða og hlupu listamenn á milli húsa. Meðal þeirra sem fram komu norðan heiða voru Bjarni Tryggva, Skriðjöklarnir, Stuðkompaníið og Danskompaníið Alís.
kvenno4 Föstudaginn 10. október var Bubbi mættur á Selfoss ásamt Megasi. Þar mættu líka til leiks Dúett Guðjóns Guðmundssonar og Trinity sem var frá Selfossi. En þegar tónleikarnir áttu að hefjast kom í ljós að hljóðkerfi hússins var bilað og ekki tókst að koma því í nothæft ástand og varð því að aflýsa tónleikunum. Lokatónleikar í þessari landsbyggðarferð Bubba voru haldnir í Félagsbíóinu í Keflavík og þar mætti Dúett Guðjóns ásamt keflvískum tónlistarmönnum.

kvenno5Endahnúturinn og lokaslagurinn voru stórtónleikar í Háskólabíói þann 26. október og þar var stórskotalið íslenskrar tónlistar mætt. Egill Ólafsson, Diddú, Bjartmar Guðlaugsson, Pétur Kristjánsson, Valgeir Guðjónsson, Ragnar Bjarnason og Kristín Ólafsdóttir. Það má því segja að þarna hafi mæst allar stefnur, straumar og tímar í tónlistarsögunni. Eftir tónleikana fékk upphafsmanneskjan Edda V. Scheving það stóra hlutverk að þakka Bubba fyrir hönd athvarfsins og færa honum hjartalagagullmen að gjöf fyrir þetta einstaka framlag. Þetta fannst öllum sem til þekktu vel við hæfi enda hafði Edda nefnt Bubba “Tónlistarmanninn með gullhjartað” í viðtölum eftir að blöðin hófu að skrifa um herferð Bubba.

kvenno6Það verður því ekki annað sagt en sú ákvörðun Bubba að styðja Athvarfið árið 1986 hafi hreyft við öllu samfélaginu. Því fljótlega vaknaði krafa almennings um að ríki og sveitarfélög kæmu að málum Kvennaathvarfsins og gekk það eftir. Þegar Bubbi.is sló á þráðinn til Eddu V. Scheving og innti hana eftir þessum atburðum frá árinu 1986 sagði hún: "Ég er enn þeirrar skoðunar að það var Bubba Morthens að þakka að við urðum ekki að loka Athvarfinu árið 1986. Allt rekstrarumhverfi gjörbreyttist eftir að Bubbi tilkynnti um tónleikahaldið. Þær konur sem dvalið hafa í Athvarfinu síðan þá geta auðveldlega þakkað Bubba þá ákvörðun að hreyfa við málinu, þó hann hafi kannski ekki lagt upp með það, þá fór boltinn fyrst að rúlla eftir að Bubbi fór af stað, það skipti sköpum fyrir Athvarfið á þessum tíma og fyrir mér er hann ennþá tónlistarmaðurinn með gullhjartað".

Samantekt: Bárður Örn Bárðarson

Myndskýringar:
Mynd 1: Merki kvennaathvarfsins, fengið af heimasíðu samtakanna
Mynd 2: Tíminn 23. júlí 1986
Mynd 3: Morgunblaðið 24. júlí 1986
Mynd 4: DV 10. okt. 1986
Mynd 5: Frá afhendingu söfnunarfjár eftir Roxytónleikana. Konur úr kvennaathvarfinu ásamt aðstandendum tónleikanna (KEA)
Mynd 6: DV sumaið 1986

 

BMK er aðdáendaklúbbur Bubba Morthens.

Stofnaður 06.06.06
Hvernig gerast menn félagar í BMK? 

Please publish modules in offcanvas position.