Main Header

Agnesi og Friðrik

agnes1

- Sagan á bak við lagið - 

Á fyrstu sólóplötu Bubba – Ísbjarnarblús er að finna lagið Agnes og Friðrik. Þetta lag er eitt af magnaðri lögum plötunnar og eitt af stóru verkum hans á fyrstu árunum sem tónlistarmanns. Bubbi hefur sjálfur sagt að þetta sé fyrsti textinn sem hann hafði samið sem fjallaði um ,,almenn málefni” en fram að því höfðu textasmíðarnar að mestu verið bundnar við líf farandverkamannsins og þá heima sem hann hafði upplifað og skynjað sem farandverkamaður víðsvegar um landið. Að baki þessu lagi hvílir saga um síðust aftökuna á Íslandi. Um hana hefur margt verið ritað og ýmsar heimildir og gögn varðveist. Sigrún Huld Þorgrímsdóttir ritaði auðlesna og vel skrifaða grein um þennan atburð sem birtist í Morgunblaðinu 25. maí 2005. Sú grein varð ástæða þessara skrifa og stuðst við hana að öllu leiti.

 

agnes2Það var aðfaranótt 14. mars 1828 sem Agnes Magnúsdóttir, 33 ára vinnukona á Illugastöðum vakti upp fólkið á bænum Stapakoti, sem var næsti bær við Illugastaði og tjáði heimilisfólkinu að kviknað hafi í Illugastöðum. Stæði bærinn í ljósum logum og húsbóndinn þar Natan Ketilsson ásamt næturgesti Pétri Jónssyni væru brunnir með bænum.


Við rannsókn brunans kom í ljós að ekki var allt með felldu því fjöldi stungusára fannst á líkum þeirra og þá fannst einnig blóð á fötum þeirra sem ekki fórust með bænum. Agnes og Sigríður Guðmundsdóttir, 16 ára vinnukona voru leiddar fyrir sýslumann Björn Blöndal og réttað yfir þeim 22. mars. Fljótlega viðurkenndu þær að hafa átt þátt í dauða mannanna en verknaðinn hefði Friðrik Sigurðsson, 17 ára bóndasonur frá Katadal á Vatnsleysuströnd, framið. Friðrik var því tekinn höndum. Hann neitaði í fyrstu öllum sakargiftum, en eftir fortölur prestsins á Tjörn viðurkenndi hann sök sína í málinu.


Réttarhöld yfir sakborningum voru umfangsmikil og fóru öll fram í héraði og stóðu frá júlí sama ár og fram til 25. júní 1829. Er lokadómur var kveðinn upp í Hæstarétti. Friðrik og Agnes skyldu hálfshöggvin og höfuð þeirra sett á stengur en Sigríður sem áður hafði einnig verið dæmd til dauða var náðuð af konungi og dæmd til ævilangrar þrælkunarvinnu.

agnes3En aftakan fór fram 12. janúar 1830 og var Guðmundur Ketilssson bróðir Natans fengin til að höggva sakborningana. Til verksins var flutt inn sérstök exi frá Danmörku ásamt höggstokk. Aftökupallur var hlaðinn úr grjóti og torfi og rauð klæði breidd yfir hann og höggstokkinn meðan á aftökunni stóð. Þá var klambrað saman grindverki í kringum aftökupallinn en efni hans var fengið að láni og því skilað aftur, annað þótti bruðl eins og fram kemur í áðurnefndri grein Sigrúnar Huldar. Þar er forsaga þessa máls rakin í skemmtilegu máli en allt er það nokkuð reyfarakennt. Bubbi.is mælir eindregið með að áhugasamir kynni sér þessa grein sem birtist í Morgunblaðinu 25. maí 2005 eins og áður segir.

Eftir að Bubbi hafði samið lagið Agnes og Friðrik í árslok 1979 sem hann frumflutti á gamlársdag fyrir heimlisfólk sitt, fór hann á söguslóðir og kynnti sér sögu þessa atburðar og komst að því hve nálægt hann hafði verið allri atburðarásinni í texta lagsins.

Mynd 1: Minnisvarði um aftökuna
Mynd 2: Exin sem notuð var við aftöku Agnesar og Friðriks,
Mynd 3: Grafreitur Friðriks

Samantekt: Bárður Örn Bárðarson

 

BMK er aðdáendaklúbbur Bubba Morthens.

Stofnaður 06.06.06
Hvernig gerast menn félagar í BMK? 

Please publish modules in offcanvas position.