Main Header

1980

198001066. janúar 1980 var efnt til fundar í Félagstofnun Stúdenta við Hringbraut um aðbúnað fiskverkafólks og farandvekamann í fiskiðnaði. Meðal ræðumanna var Tolli bróðir Bubba og þar söng Bubbi einnig nokkur lög. Meðal annara Stál og hníf. Silja Aðalsteinsdóttir kom að þessum fundi einnig m.a. aðstoðaði hún pólsk-enska farandverkakonu við framsögu á fundinum. En Silja var þá að fara að vinna efni í þátt er fjallaði um þetta málefni. (sjá 23. janúar) Á þessari mynd má sjá Silju Aðalsteinsdóttur á umræddum fundi ásamt erlendu farandverkakonunni sem minnst var á.

23. janúar 1980 var Bubbi bókaður í stúdíó 1 á 5. hæð útvarpshússins til upptöku á lögum fyrir þætti Silju Aðalsteinsdóttur og Tryggva Þórs Aðalsteinssonar, Stál og hnífur, sem fjölluðu um aðbúnað farandverkafólks. Þættirnir voru fjórir talsins og hófst útsending þeirra 30. janúar 1980. Bubbi hljóðritaði sjö lög og fengu fimm þeirra að hljóma í þáttunum. Meðal þeirra voru lögin Stál og hnífur, Færeyjablús og Hrognin eru að koma. Lögin lágu hjá garði voru Bólivar og Eins og gengur, en bæði ljóðin má finna í ljóðaþýðingum Magnúsar Ásgeirssonar. Þess má geta lagið Eins og gengur var síðar sett á plötuna Blús fyrir Rikka.

2. febrúar 1980 mætti Bubbi í annað sinn til upptöku í útvarpshúsinu, núna fyrir þátt Hjalta Jóns Sveinssonar sem ræddi við Bubba. Hlustendur fengu að heyra Bubba flytja 3 lög, þar á meðal Beitingablús en sá texti hefur aldrei verið gefinn út.
  
Febrúar 1980 var hugmynd Pollock-bræðranna um að auglýsa eftir trommu- og bassaleikara hrint í framkvæmd. Í kjölfarið var Maggi ráðinn, ástæða ráðningar var flottur leðurjakki sem Maggi var í auk þess að kunna að spila eitthvað. Hann mætti síðan með Rúnar með sér sem bassaleikara og var hann ráðinn líka. Mike: Það komu ekki margir í viðtal vegna auglýsingarinnar. En ég man þegar Maggi kom. Ég spurði hvort hann gæti trommað All the long watchtower með Bob Dylan, hann svaraði því játandi. Það var þó ekki það sem réði úrslitum, heldur það að hann var í svo helvíti flottum leðurjakka. Hann var í rauninni ráðinn þarna á staðnum út á það eitt hvað jakkinn var töffaður. 

22. febrúar 1980 birti Helgarpósturinn heilsíðuviðtal við óþekktan listamann - Bubba Morthens. Fyrsta stóra blaðaviðtalið.
 
22. mars 1980 töldu Utangarðsmenn sig reiðubúna og léku opinberlega í fyrsta sinn, þá án endurgjalds, á dansleik í Félagsstofnun stúdenta við Hringbraut. Helgina eftir fékk sveitin að leika á Hótel Borg. Utangarðsmenn voru komnir af stað og það var ekki aftur snúið.
 
30. mars 1980 stigu Utangarðsmenn á svið á baráttusamkomu herstöðvarandstæðinga í Félagsstofnun stúdenta. Voru þeir auglýstir sem Bubbi Morthens ásamt hljómsveit. 
 
19800412-s12. apríl 1980 var efnt til tónleika í Kópavogsbíói undir yfirskriftinni ,,Heilbrigð æska“. Meðal þeirra sem fram komu voru Fræbbblarnir og Utangarðsmenn. Á efnisskrá Utangarðsmanna voru meðal annars lög eftir Pollock-bræður, Dylan og fleiri. Segja má að þetta hafi verið stórauglýsing fyrir sveitina því tónleikarnir fengu talsverða umfjöllun fjölmiðla og var leikur Utangarðsmanna lofaður í hástert.  Tónleikanna hefur síðan verið getið sem fyrsta stóra stund sveitarinnar þar sem pressan uppgötvaði Utangarðsmenn og gerðu söngvarann í kjölfar þess að holdgerfingi rokkbyltingarinnar. (mynd: Þjóðviljinn).
 
1. maí 1980 á degi verkalýðsins tók Bubbi lagið á Lækjartorgi. Tolli bróðir hans var einn framsögumanna kröfufundarins.
 
6. maí 1980 héldu Vísnavinir tónleika á Hótel Borg þar sem seld var í fyrsta sinn kassetta með hljóðritunum frá fyrri vísnakvöldum. Meðal efnis á þessari kassettu er lag Bubba, Ísbjarnarblús, sem hljóðritað hafði verið í desember 1979. Þetta var fyrsta sinn sem efni með Bubba kom út og fyrsta sinn sem það var boðið til sölu. 
 

9. maí 1980 Bubbi ásamt Utangarðsmönnum í MS. Þar las Bubbi m.a. ljóð fyrir viðstadda við góðar undirtektir.
 
11. maí 1980 birti Þjóðviljinn opnuviðtal Jónatans Garðarssonar við Bubba. Kynningin á honum er svohljóðandi: ,,Bubbi Morthens, farandverkamaður, galeiðuþræll, frystihúsverkari og neðanjarðarblúsari stendur á tímamótum“. 
 
1980052828. maí 1980 kom Bubbi ásamt Utangarðsmönnum fram á SATT kvöldi í veitingahúsinu Klúbbnum. Í Morgunblaðinu er talað um sveitina sem eina þá líflegustu sem skotið hafi upp kollinum undanfarin misseri. Og það væri gaman að heyra sveitina leika gömul búslög sem alltof sjaldan heyrðust. (Myndin er tekin á 3. hæð Klúbbsins þetta kvöld)
 
17. júní 1980 kom út frumburðurinn Ísbjarbjarnarblús í samstarfi við bókaútgáfuna Iðunn. Lög eins og Hrognin eru að koma, Stál og hnífur, ásamt titillaginu voru þegar orðin kunn meðal aðdáenda og plötunnar því beðið með eftirvæntingu. Sama dag komu Utangarðsmenn fram á tónleikum í Höllinni ásamt Brimkló og fleirum. Þar varð strax ljóst hverjir áttu staðinn. Sagan segir að þeir Brimklóarmenn hafi verið fljótir að koma sér af svæðinu eftir að þeir höfðu lokið sínu hlutverki á tónleikunum. Textar um þúsund þorska á færibandi og illa lyktandi tær var það sem fólk vildi heyra.
 
20. júní 1980 settist platan Ísbjarnarblús í 2. sæti lista Vísis yfir mest seldu plöturnar En þetta var í fyrsta sinn sem nafn Bubba sást á slíkum lista

27. júní 1980 DV birtir lista yfir best seldu plötur landsins og þar er Ísbjarnarblús í 1. sæti yfir mest seldu plötur landsins.Platan sat þó aðeins eina viku á toppnum en samtals fimm vikur á topp 10.

21. júní 1980 voru Utangarðsmenn í óðaönn að að sigra landann og þetta kvöld voru þeir fengnir til að hita upp fyrir hljómsveitina Clash, sem var ein af áhrifavöldum Utangarðsmanna og í miklum metum hjá Bubba og félögum. Fyrir þeim var allt að gerast.
 
Júlí 1980 undirrituðu Utangarðsmenn samning við hljómplötuútgáfuna Steinar hf um að plötur sveitarinnar kæmu út undir merkjum Steinars hf. Nokkru síðar undirritaði Bubbi einnig samning við útgáfuna sem sólóisti. Í þeim samningi tekur útgáfan einnig að sér dreifingu og endurútgáfu á fyrstu plötu Bubba - Ísbjarnarblús. 
 
Ágúst 1980 voru Utangarðsmenn mættir í Hljóðrita í fyrsta sinn til upptöku og hljóðrituðu þar sína fyrstu smáskífu, sem bar vinnuheitið Ha-ha-ha. Í farteskinu voru þrjú lög auk þess sem mixuð var instrumental útgáfu af titillaginu sem seinni hluti. 
 
September 1980 voru Utangarðsmenn aftur mættir  í Hljóðrita til upptöku, nú á sinni fyrstu LP-plötu. Þeir hljóðrituðu á einum degi grunn 8 laga, sem síðar var sungið inn á, ýmist á íslensku og eða ensku. Meðal laga sem hljóðrituð voru þennan dag má nefna Hiroshima, Blóðið er rautt og Poppstjarnan. Platan Geislavirkir var hljóðrituð á aðeins 80 tímum, sem þótti fáheyrt í þá daga.
 
1980091313. september 1980 voru haldnir stórtónleikar í Laugardalshöll undir kjörorðinu Rokk gegn her. Þessir tónleikar vöktu talsverða athygli og fengu nokkuð mikla umfjöllun fjölmiðla. Meðal þeirra sem fram komu voru Þursaflokkurinn, Utangarðsmenn, Táragas og Mezzoforte. (mynd: Kristín Á Einarsdóttir)
 
1. október 1980 kom út smáskífa Utangarðsmanna Ha-Ha-Ha (Rækjureggae), í takmörkuðu upplagi og seldist strax upp. Engin furða enda sveitin þá þegar orðin leiðandi í íslensku pönk-rokki. Í dag er þessi smáskífa ein sú verðmesta á endursölumarkaði á notuðum íslensku hljómplötum og eru dæmi þess að menn hafi boðið allt að 45 þúsund krónur fyrir eintakið. Öll lög plötunnar hafa verið endurútgefin á CD, að frátöldu titillaginu dub-mixuðu sem finna má sem síðasta lag plötunnar. "Ég er löggiltur hálfviti, hlusta á HLH og Brimkló" verður fljótlega dregin upp sem  einskonar sönnun þeirrar byltingar sem var í íslensku rokki þetta vor. Og Bubbi mátti svara fyrir þessar línur næstu áratugina í viðtölum. 

198010332. október 1980 voru Utangarðsmenn mættir enn og aftur í Stúdíó Hljóðrita og tóku nú upp 5 lög á ensku og önnur fjögur lög sem síðar var sungið inn á, bæði á ensku og íslensku. Meðal þeirra voru: Viska Einsteins, Kyrrlátt kvöld og Sigurður er sjómaður (en það lag var aðeins sungið inn á íslensku).  Á myndinni sem Einar Óla tók má sjá þá Bubba og Danna við upptökur á söng í Hljóðrita fyrir plötuna Geislavirkir.


10. október 1980 Lagið Rækju-Reggae nær 9. sæti á lista yfir vinsælustu lögin. En þetta var í fyrsta sinn sem slíkur listi var birtur í þeirri mynd sem við þekkjum ef svo má segja. Lagið var aðeins eina viku á lista yfir 10 vinsælustu lögin.

6. nóvember 1980 var efnt til málfundar í kennslustofu 301 í Árnagarði, Háskóla Íslands. Gúanótextar voru þar meðal annars til umræðu, en það heiti hafði Bubbi gefið textum sínum og tónlist. Það var því augljóst að Bubbi og Utangarðsmenn höfðu náð eyrum spegúlanta íslenskrar tungu í æðstu menntastofnun þjóðarinnar. Þó nokkur blaðaskrif höfðu átt sér stað bæði fyrir og eftir þennan málfund um texta Bubba, einkum á síðum Þjóðviljans. Bubba og félögum fannst það stórmerkilegt að menn skyldu eyða tíma í að skoða formið í stað innihaldsins. Bubbi sagðist sjá þessa menn fyrir sér á málverkasýningu þar sem þeir skoðuðu rammana í stað málverkanna. (Reyndar má nefna í framhjáhlaupi hér að heitið Gúanótónlist virtist hverfa með brotthvarfi Utangarðsmanna.)*
 
27. nóvember 1980 kom fyrsta og eina hljóðvers LP-plata Utangarðsmanna út. Platan Geislavirkir hefur síðan þá verið talin marka kaflaskil í rokksögu Íslands. 
 
5. desember 1980 náði platan Geislavirkir öðru sæti á lista Vísis yfir mest seldu plöturnar og var á topp tíu í 10 vikur. Hún átti þó eftir að koma aftur inn á listann bæði árin 1992 er hún var endurútgefin á CD og aftur 2000 er Utangarðsmenn komu saman á ný. Lagið Sigurður var sjómaður náði einnig inn í 10. sæti yfir vinsælustu lögin. en það sat þó aðeins 2. vikur á lista, viku síðar fór lagið í 5. sæti og svo ekki söguna meir..

16. desember 1980 gáfu Vísnavinir út kassettuna Vísnakvöld 2 er inniheldur lagið Lag tileinkað Bandaríska hernum á Keflavíkurvelli. Utangarðsmenn höfðu þá þegar hljóðritað lagið í sinni rokkútgáfu undir heitinu Barnið sefur, sem finna má á plötunni Geislavirkir. 
 
17. desember 1980 var efnt til stórtónleika í Gamla Bíói (nú Íslenska Óperan) undir yfirskriftinni Barðir til Róbóta. Meðal sveita sem stigu á svið voru Þeyr, Fræbbblarnir og Utangarðsmenn. Tónleikarnir fengu talsverða umfjöllun og jákvæðar umsagnir dagblaða næstu daga á eftir. 
 
1980311231. desember 1980 Í stað áramótaskaups Ríkissjónvarpsins er á dagskrá skemmtiþátturinn Á síðasta snúning. Meðal þeirra sem þar koma fram er hljómsveitin Utangarðsmenn. Ekki var þó um beina útsendingu að ræða heldur fyrirfram upptekin atriði. Utangarðsmenn tóku tvö lög í þættinum sem í raun voru bæði tekin af plötu sveitarinnar. Þessi mynd er frá sjónvarpssal meðan á upptökum fyrir sjónvarpsþáttinn stóð.

 

 

BMK er aðdáendaklúbbur Bubba Morthens.

Stofnaður 06.06.06
Hvernig gerast menn félagar í BMK? 

Please publish modules in offcanvas position.