Lag: Ego, texti: Bubbi Morthens
Úfinn sjór, eins og á orgel væri leikið
freyðandi aldan hélt í eykið.
Kólgubakkinn reis og hneig
í fjörunni aldan var feig.
Nakinn ég stóð undir himninum
grátandi rigning í sandinum.
Villt skýin lutu engri stjórn
ægi færðu tár sín að fórn.
Ég gekk og horfði í spegil fljótsins
í straumnum augun léku sér.
Fljótið rann í átt til hafsins
augunum gleymdi að skila mér.
Þú tapaðir öllu, köld og sár
of stolt til að öskra eða fella tár.
Systur þínar fölar, rauluðu svangar
börnin hlógu eins og dæmdir fangar.
Seinustu laufin féllu frá trjánum
vindurinn kyssti þau, krjúpandi á hnjánum.
Fljótið það kallaði, þoldi enga bið
ég vissi að ég yrði að snúa við.
Hryggur ég spurði spegil fljótsins
er þetta ég eða þorpsins álfur.
Ekkert svar það rann í átt til hafsins
eins og ljúfur, hljóður sálmur.
Lagið má finna á eftirtöldum útgáfum