Main Header

PLÖTUR

polar bear flare Undir valmyndinni Plötur finnur þú allar plötur Bubba frá upphafi ásamt myndum af plötalbúmum, lista yfir lög og texta. 

LÖG OG TEXTAR

bubbi_og_megas Í gagnagrunninum okkar eru öll lög og textar Bubba. Notaðu leitina til að finna það lag sem þú ert að leita að.

SPJALLTORG

login-min Taktu þátt í umræðunum á spjalltorginu. Athugaðu að þú verður að vera innskráður til að hafa aðgang.

TÍMALÍNA OG MOLAR

3-worlds Undir valmyndinni tímalína er rakin saga Bubba. Undir Molar eru margir skemmtilegir pistlar.
Bylgjan Image

Stál & Hnífur

á Bylgjunni kl. 20:00

öll mánudagskvöld

Pistlar Bubba Image

Sjá Pistla Bubba

HÉR

LAGALEIT

Plötur

Grein um Fingraför

Tvennt er það sem kom mér á óvart við að hlusta á Fingraför. Annað er það einfaldlega hve platan er góð, mun betri en ég bjóst nokkru sinni við. Hitt er hve góður tónlistarmaður Bubbi er þegar á reynir. Hann er fyrsta flokks gítarleikari og einnig ágætur á munnhörpu. Og aldrei hefur hann sungið jafnvel og á Fingraförum…
(TT , DV 27. júní 1984)

Óhætt er að fullyrða að þriðja sólóplata Bubba Fingraför var plata ársins 1983 og nýtur þessi hálfgildings akústikkplata nokkurrar sérstöðu á ferli Bubba. Platan sem unnin var á útmánuðum ársins 1983 varð langvinsælasta sólóverk Bubba fram til ársins 1985. Efnið og nálgun þess var algerlega úr takti við það sem Bubbi hafði verið að fást við, fyrst með Utangarðsmönnum og svo Egóinu. Og þrátt fyrir ómennskar vinsældir Egósins hóar Bubbi í nýjan mannskap við gerð plötunnar, ef frá er talinn Tómas M. Tómasson sem unnið hafði með Bubba við gerð Plágunnar tveim árum áður auk Egóplatnanna.
Á sínum tíma skrifaði Bubbi sjálfur einskonar inngang að hverju lagi fyrir sig sem er hér látinn halda sér. Það er því ekki úr vegi að láta hann sjálfan segja frá þessu verki og grípa niður í viðtal sem Helgarpósturinn átti við Bubba um líkt leyti og platan kom út.

,,Þetta er útúrdúr hjá mér, algjört hliðarhopp, og ég kem ekki til með að gera svona hluti aftur að minnsta kosti ekki næstu árin,“  sagði Bubbi Morthens í viðtali við Helgarpóstinn sem birtist 6. maí 1983 undir fyrirsögninni ,,… að leggja áfengissalann og heróínsalann að jöfnu“ og Bubbi heldur áfram: ,,Ég hef gengið með það í maganum lengi, allt frá trúbadúrárunum, að gera svona vísnaplötu, en ekki haft mig í að stíga skrefið til fulls fyrr en nú. Ég verð bara að koma þessu frá mér.“

- Nánar um efni plötunnar?
,,Já þetta er svona gamall hippafílingur, platan fylgir engri tísku og engri ákveðinni stefnu, og þetta eru hlutir sem er búið að gera 100 sinnum áður. En eins og ég sagði þá verð ég að gera eina svona plötu fyrir sjálfan mig. Nú lögin eru sjálfstæð, bæði gömul og ný. Það elsta frá ’74 að mig minnir. Egóið á nokkur laganna Paranoia, Hvað er klukkan og Lög og regla – í sínum eigin útsetningum sem verða jafnvel notaðar á plötu seinna. Textarnir, ja það fylgja skýringar með þeim á plötunni og ég held að þær dugi alveg. Þetta er eins og lögin bæði gamlir og nýir textar og það er ekkert ákveðið þema sem tengir þá saman.“

- Nú hefur platan að geyma nokkurskonar kommbakk Megasar í alþýðutónlistina. – ertu ekkert hræddur við það að öll athyglin beinist að honum?
,,Þú meinar að ég falli í skuggann. Já, neinei Megas á það skilið og mikið meira en það enda má segja að leikurinn sé gerður til að sýna fólki að hann er enn mjög sterkur í músíkinni og hefur jafnvel aldrei verið jafnsterkur og haft eins mikið til málanna að leggja og einmitt nú. Það á reyndar eftir að koma enn betur í ljós þegar platan hans Tolla bróður kemur út, þar sýnir hann þetta svo um munar. Ég vil bara votta Megasi virðingu mína. Við höfum þekkst lengi, ég kynntist honum daginn sem hann varð þrítugur og síðan höfum við haft svona laust samband, ræðum alltaf saman þegar við hittumst og droppum í heimsókn hvor til annars öðruhvoru. Og Megas hefur haft meiri áhrif á mig sem tónlistarmaður en flestir aðrir Íslendingar.“

(Brot úr viðtali við Bubba í Helgarpóstinum 1983)

Ekki er hægt að yfirgefa umfjöllun um þessa plötu án þess að minnast á tvennt sem tengist henni. Annars vegar tvö laga hennar og hins vegar það aukaefni sem kemur hér út á plötu í fyrsta sinn. Fyrst um lögin, Afgan er annað þessara laga sem upphaflega átti að heita Svartur Afgan, en útgefandinn Steinar Berg taldi það ekki koma til greina af sinni hálfu að gefa út plötu með lagi sem bæri nafn eiturlyfs. Bubbi gaf þetta eftir þá og skar heiti lagsins niður um helming og eftir stóð Afgan. Og til glöggvunar má bæta því við að tveim árum áður hafði þessi sami útgefandi gefið út lagið Heróín á Plágunni og ári síðar lagið Meskalín með Egóinu. Hitt lagið er lag Megasar Fatlafól sem átti eftir að draga dilk á eftir sér, fyrir utan að vera sett á bannlista Ríkisútvarpsins. Endurútgáfa þess á safnplötunni Tvær í takinu sem kom út 1984, varð til þess að höfundurinn stefndi útgáfufyrirtækinu Steinari hf. fyrir ólöglega notkun lagsins þar sem hann taldi útgefandann ekki hafa heimild til að nota lagið á öðrum plötum en Fingraförum. Svo illa vildi til að á safnplötunni var lagið ranglega skráð undir heitinu Fatlað Fól og átti þessi misritun, að sögn kunnugra, sinn þátt í að Megas vann málið fyrir rétti á sínum tíma og auk þess að greiða höfundi bætur varð útgáfan að innkalla öll eintök safnplötunnar vegna málsins. Því má þó bæta við til varnar útgáfunni að á upptökuböndum lagsins er lagaaheitið skráð Fatlað Fól og hefur líklega sá er annaðist útgáfuna á safnplötunni litið á þá skráningu án þess að kynna sér málið frekar. En þrátt fyrir breytingar á lagaheitum og síðari tíma málaferlum voru vinsældir þessarar plötu með eindæmum sumarið 1983 og enn í dag eru lög af þessari plötu meðal þess efnis sem tónleikagestir heimta á hverjum einustu tónleikum Bubba Morthens.

Við leit að efni fyrir þessa útgáfu var víða leitað fanga. M.a. var vitað að þeir Bubbi og Megas ásamt Tolla bróður Bubba höfðu eytt kvöldi eða tveim hjá sameiginlegum félaga, Sveini Blöndal, sem tekið hafði upp á forlátt segulband söng og gítarleik þeirra félaga. Viti menn í geymslu Svenna leyndust þessir gullmolar og var strax ákveðið að nýta hluta þessa efnis enda höfðu böndin legið svo til óhreyfð frá því efni þeirra var tekið upp. Þó höfðu þrjú laganna verið send út á næturvakt Ríkisútvarpsins á sínum tíma, fyrir daga Rásar 2. En þá sungu þeir Bubbi og Megas sameiginlega lög Megasar Hann á afmæli í dag og Fatlafól auk þess sem Bubbi flutti lagið Svartur Afgan. Sökum þess að platan bíður upp á takmarkað pláss var ákveðið að velja úr þessum lögum það efni sem mestur fengur þótti í og er það von okkar sem að þessu stöndum að vel hafi tekist til.

Bárður Örn Bárðarson
Greinin hér að ofan birtist fyrst í innleggi viðhafnarútgáfu plötunnar Fingraför 2006.

BMK er aðdáendaklúbbur Bubba Morthens.

Stofnaður 06.06.06
Hvernig gerast menn félagar í BMK? 

Please publish modules in offcanvas position.