Sum lög eiga heima á plötum, En til eru lög sem eru nánast orðin heimilislaus eftir margra ára búsetu á gömlum vínylplötum og hafa ekki fengið endurnýjun á varanlegum dvalarstað í formi CD platna, Eitt þeirra er lagið Skyttan, sem hefur aðeins fengið leiguhúsnæði. Þetta fornfræga lag á sér sögu. Það náði miklum vinsældum þegar það kom fyrst út og enn í dag er á það litið sem einn af gullmolum úr djúpri gullkistu Bubba Morthens. Í þessum mola segjum við svolítið frá þessu lagi. Lagið sem bjó á 12 tommu plötu með lögum Sykurmolanna sem nágranna á B-hliðinni, hefur um margra ára skeið aðeins verið í leiguhúsnæði á CD útgáfu plötunnar Frelsi til sölu. Hver örlög þess verða veit enginn, að örðu leyti en að mun lifa meðal okkar en hvar?.
Árið 1986 lágu tvö stór verk fyrir í smiðju kvikmyndagerðarmannsins Friðriks Þórs Friðrikssonar. Annars vegar var það einskonar heimildarmynd um feril Bubba Morthens og hins vegar kvikmyndin Skytturnar eftir handriti Einars Kárasonar. Friðrik hafði eins og allir vita áður unnið tvær heimildamyndir, Kúrekar Norðursins og Rokk í Reykjavík, en Egóið hafði einmitt komið fram í þeirri síðarnefndu. Segir sagan að 1986 hafði hann þegar verið búinn að viðrað að sér miklu myndefni með Bubba, allt frá dögum Utangarðsmanna og til þess að Bubbi fór að starfa undir merkjum sænska útgáfufyrirtækisins Mislur. Þar sem gerð heillar kvikmyndar á borð við Skytturnar er ekki gerð með hangandi hendi tók hún tíma og fjármagn. Áætlanir sem lágu fyrir í febrúar 1986 gerðu ráð fyrir kostnaði upp á 12,5 milljón króna. Myndin um Bubba varð því einskonar gæluverkefni sem hann ætlaði að vinna inn á milli og klára síðar, (sem þó aldrei varð).
Tökur við Skytturnar hófust 11. ágúst 1986. Myndin hafði þá fengið fimm milljóna króna framlag úr kvikmyndasjóði (og síðar 1,8 milljón til viðbótar árið 1987). Val á leikurum var ekki erfitt. Friðrik Þór hafði fyrir löngu komið auga á allavega annan leikarann og hinn fannst einnig auðvellega. Þeir Eggert Guðmundsson og Þórarinn Óskar Þórarinsson fóru hreinlega á kostum sem Grímur og Búbbi í þessari mynd. En alls voru um 30 aukahlutverk og um 250 manns kom að myndinni á einn eða annan hátt. Þar með talinn Bubbi Morthens sem lagði til titillag myndarinnar Skyttan.
Lagið Skyttan var að sögn Bubba þó ekki samið sérstaklega fyrir myndina. Í desember var tökum lokið og klipping hafin. Bubbi fékk fljótlega að sjá eintak, grófklippt með þá ósk að gera lag fyrir myndina. Bubbi hafði reyndar í fyrstu færst undan því, þar sem hann taldi sig ekki góðann í að gera svona fyrirfram pöntuð lög. En það getur verið erfitt að segja strangt nei við Friðrik og svo ekki sé minnst á þegar verið er að fara að vinna heimildarmynd um mann á sama tíma. Bubbi lét því tilleiðast og horft á ræmuna. Þegar heim var komið gerði hann sér ljóst að á stofuborði hans lá texti sem í raun var saga myndarinnar í grófum dráttum sem hann hafði hripað niður nokkrum dögum áður. Endanleg laglína lá nánast einnig fyrir. Bubbi gerði smávægilegar breytingar á textanum (að mestu styttingar) þegar að því kom að syngja hann inn fyrir myndina. En upprunalega textann hafði Bubbi flutt í morgunútvarpi Bylgjunnar 3. október 1986. Talsverður munur er á þessum textum eins og sjá má neðst í greininni þar sem við byrtum tvær útgáfur textans.
Á þessum tíma var Bubbi á fullri ferð við að kynna plötu sína Frelsi til sölu, ásamt MX-21. Það lá því beint við að hafa samband við þá sveit manna varðandi undirleik. Hlutirnir urðu samt að gerast hratt. Því myndin var um það bil að fara í framleiðslu. Trommuleikari MX-21 á þessum tíma var Halldór Lárusson sem nýlega sagði Óla Palla á Rás 2 sögu frá því þegar trommuleikur lagsins var hljóðritaður grípum niður í þann kafla viðtalsins :
,,…myndin var að fara út í hljóðsetningu og það þurfti að taka þetta lag upp í alveg hrikalegum flýti. Það var rokið inn í Stúdíó Sýrland sem var þá bara í bílskúr á Grettisgötunni, heima hjá Agli Ólafssyni. Ég hafði aldrei heyrt lagið og fékk ekki einu sinni að heyra af því upptökurnar. Mér var bara sagt á hvaða hraða lagið væri sirka bát og svo sat Þorsteinn Magnússon, gítarleikari, fyrir framan mig með þrjá miða sem stóð á A, B og C; A kafli, B kafli og C kafli svo var ég bara með taktmæli í eyrunum og spilaði með því að horfa á hann, bara á ákvenum hraða, en ég vissi ekkert hvernig lagið myndi hljóma og svo heyrði ég lagið í fyrsta sinn á frumsýningu á myndinni.”
Á þessari sögu trommarans má sjá að hlutirnir fóru fram á hraða ljóssins. Myndin var svo frumsýnd í Háskólabíói 14. febrúar 1987. Um líkt leiti kom út 5 laga LP platan Kyrrlátt kvöldstund á Hótel Hjartbroti með hljómsveitinni Skytturnar sem tónlist við myndina. Eftir sat titillagið ásamt lögum sem Sykurmolarnir áttu í myndinni. Grammið sem sá um útgáfu fyrri plötunnar ákvað að ráðast í útgáfu 12 tommu plötu enda lag Bubba og MX-21 farið að óma á öldum ljósvakans. Í mars kom svo titillagið út ásamt Sykurmolalögunum á plötunni Skytturnar.
Til er önnur skondin saga er tengist pressun þeirrar plötu erlendis sem Einar Örn söngvar Sykurmolanna sagði fyrir löngu síðan og var eitthvað á þá leið að hann hafi verið viðstaddur þegar verið var að vinna mótin fyrir plötuna. Þegar honum varð ljóst að Sykurmolunum var ætlaðu B-hlið plötunnar en Bubba og MX-21 A-hliðin hafi hann stolist til að krota í afrönd plötunnar (það er vínylhlutann eftir að laginu líkur þar sem yfirleitt má greina framleiðslunúmer eða útgáfunúmer) síðan má sjá á A-hliðinni orðin ,,Shoot Them" (Umræður um hvalveiðar voru þá áberandi og lagið Er nauðsynlegt að skjóta þá í mikilli spilun og umfjöllun) en á B-hlið plötunnar má sjá ,,This is B-side music". Óneitanlega er talsverður húmor í þessu litla falda listaverki Einars sem prýðir öll vínyleintök plötunnar.
Lagið Skyttan náði talsverðum vinsældum áður segir og fékk reyndar svo góða spilun útvarpsstöðva að það sat í sjö vikur á vinsældalista Rásar 2 og í fjórar vikur á lista Bylgjunnar og náði öðru sæti beggja stöðva. En örlög þessa gullmola eru að vera enn í dag einskonar bastarður. því þó laginu væri fundinn staður á CD útgáfu plötunnar Frelsi til sölu er það ekki hluti af því verki. Heldur fyrst og fremst aukaefni þeirrar plötu líkt og lög Das Kapital sem áður höfðu komið út á plötunni Lili Marlene og demóupptaka lagsins Þjóðlag sem spilað var inn í ,,demósesson” fyrir plötuna Dögun. Það er því líklegt að lagið fái áfram að vera með á Frelsinu því að öðrum kosti mun lagið liggja hjá garði og til þess er það einfaldlega of gott. En þetta á reyndar um fleirri lög Bubba og spurning hvort ekki fari að koma tími á að safna þeim saman og gefa þeim heimilisfang til frambúðar. Þetta er kannski spurnin um allt það efni sem til er með rokksveitinni MX-21.
Skyttan (af plötunni) Eins og næfuþunnt svart silki Ég er ekki viss um hvað skal varast Dagarnir fæðast andvana, Þú veist það vel að dauðinn Ég er ekki viss um hvað skal varast Ég er ekki viss um, |
Skyttan (flutt á Bylgjunni 3. okt. 86) Eins og næfuþunnt svart silki Ég rís á fætur og stari Ég er ekki viss um hvað skal varast Dagarnir fæðast andvana, Þú veist það vel að dauðinn Ég er ekki viss um hvað skal varast |