Main Header

THE ROCK ´N’ ROLL - Upphafið

ImageMargir hafa velt upp þeirri spurningu hvað er rock ´n´ roll, hvaðan er það komið, Það hlýtur að hafa verið kraftaverk þess sem skóp það?
- Nei, það er langt frá því að vera eitt hvert stórkostlegt kraftaverk, skapað úr engu. Rock ´n´ roll var og er tónlist með langa sögu að baki og í raun teygir forsaga rokksins sig inn á margar greinar tónlistartrésins. Í árdaga tók það næringu frá hinum ýmsu stefnum eins og blús, gospel, bluegrass, western swing, rythm & blues (R&B), Doo-Woo og djass. Ekkert af þessum formum tónlistar varð rock ´n´ roll. Sum þeirra eru allt að því andstæð rokkinu. Þó má segja að næring frá hverri fyrir sig hafi orðið forsenda þess að greinar rokksins birtust og fengu dafnað á tré tónlistarinnar. Og enn í dag er ekki séð fyrir endan á öllum þeim kvistum sem stöðugt birtast á tónlistartrénu. Menn hafa heldur ekki komist að neinni endanlegri eða áþreifanlegri niðurstöðu um fyrirbærið, Þó hafa í tímans rás líklega verið skrifaðar fleiri bækur um þetta tónlistarform, það er rokkið en nokkra aðra listgrein. Í þessum mola ætlum við aðeins að líta betur á einn af frumsprotum þessarar stefnu.
 

Image
Benny Goodman í sveiflu

Skoðum þetta nánar. Í hringum 1954 fór ný tónlist að hljóma, rythm and blues. Tónlist svartra og hvítra byrjaði að vísu að blandast meðan þrælahald var enn við lýði í Bandaríkjunum. Afrískir taktar tóku þá að blandast við laglínur og hljómsetningar sem áttu rót sína að rekja til Evrópu. Grauturinn sem til varð þegar vinnusöngvar svartra akuryrkjumanna og danstónlist úr innsveitunum (sem oftast var leikin á heimasmíðuð hljóðfæri) blönduðust saman, fór að taka á sig mynd upp úr aldamótunum. Útkoma þessa ástarævintýris varð nýr kynblendingur blústónlistin. Hrátt og veraldlegt afsprengi hróps og svarsöngs í gospeltónlist svertingjanna. Þessi tegund tónlistar fór eins og eldur í sinu um baðmullarakra og terpentínuverksmiðjur Suðurríkjanna. Farandsöngvarar breiddu hana út er þeir ferðuðust um rykuga þjóðvegi landsins og öfluðu sér lífsviðurværis með tónlistarflutningi. Það var um svipað leiti og kökudansinn sló í gegn. Hann var í upphafi stiginn við hljómfall svartra hergönguhljómsveita en varð síðar skemmtiatriði í fjölleika og revíusýningum og einskonar undanfari vinsælda ragtimetónlistar. Höfuðeinkenni hennar var flókinn píanóflutningur með áherslufærslum. Þessi tegund tónlistar var mikið leikin á börum og vændishúsum svertingja.
Í New Orleans blönduðu dixílandhljómsveitir saman blúsnum og ragtimetónlist, bættu síðan við ýmsum spunahljóðfærum og byrjuðu, eins og reyndar fjöldi tónlistarmanna í öðrum borgum, að skapa djassinn. Þessa fjörugu tónlist þriðja áratugsins. Á þeim fjórða var þessi tónlistartegund leikin af jafnt hvítum og svörtum og varð ein vinsælasta útflutningsvara Bandaríkjanna.

Þegar Benny Goodman sló í gegn árið 1935, hófust hinsvegar swing og sveifluárin. Við auknar vinsældir þess stækkuðu hljómsveitirnar og til að koma skipulagi á samleik hljóðfæranna komu til sögunnar hljómsveitastjórar. Þetta leiddi af sér að spilagleði þeirra sem leika vildu af fingrum, fram fékk ekki notið sín. Þó leyfðu menn eins og Duke Ellington og Count Basie spunanum að lifa áfram í tónlistarflutningi sínum. En í meðförum poppsinnaðri hljómsveita, sem yfirleitt voru skipaðar hvítum spilurum, fór djassinn að breytast í danstónlist.

Þegar Bandaríkjamenn svo loks blönduðust inn í síðari heimstyrjöldina, í verki, hurfu margar stjörnur swingsins af sviðinu og gengu í herinn. Svartir djasstónlistarmenn komu þá fram á sjónarsviðið í hressum rythm ´n´ blues hljómsveitum. Þeir nýttu sér blástur stóru svingsveitana, nema hvað stórkostlega fækkaði í hljómsveitunum. Í stað blásarasveitarinnar birtust ólmir saxófónsleikarar ásamt raddmiklum söngvurum. Útkoman varð háreysti og ringulreið, nú eða vinsælar hljómplötur á hinn afmarkaða svarta plötumarkað, sem þessari tónlist var beint á. Í Bandaríkjunum var þessi tónlist leikin í útvarpsþáttum sem dreift var um svokallað Delta dreifikerfi og náði frá Arkansas og niður eftir Mississippi.

Rockett 88
Image
Ike Turner við píanóið

Þegar talað er um upphaf rokksins er að alla jafna miðað við miðjan 6. áratuginn eða 1955. því það ár kom út sú plata sem oftast er nefnd sem fyrsta heila Rokk ´n´ roll platan. Með Bill Haley: Rock Around The Clock. Þó svo að menn þrasi um fyrsta rokklagið fram og aftur, (sem komu út nokkru fyrr), hvort það var „Rockett 88” eða eitthvert annað. En burt séð frá slíkum vangaveltum er saga þess lags um margt merkileg og sýnir í hnotskurn þá hringrás sem rokkið hefur margoft farið Lítum aðeins á sögu þessa lags.

Memphis, í upphafi sjötta áratugsins, var sjóðheitt tilraunasvæði í tónlist. Þar voru margir listamenn eins og B.B. King, Bobby “Blue” Band og Roscoe Gordon að hræra saman tónlistarstefnum.
Í marsmánuði nánar tiltekið þann fimmta þess mánaðar árið 1951 var þar líka mættur Ike Turner ásamt hljómsveit sinni „King Of Rythm” sem samanstóð af saxófónsleikurunum Jackie Brenston og Eugene Fox, gítarleikaranum Raymond Hill ásamt Willie Sims sem lamdi húðir, þá var og frændi Ike, Jessie Knight einnig með í för. Tilgangur ferðarinnar var að hitta upptökustjóra B.B. King; Herra Sam Philips í þeirri von að þeir fengju að hljóðrita plötu. Þegar Sam hafði heyrt sveitina spila stakk hann upp á að Jack Brenston hefði hlutverkaskipti við Ike Turner og sæi um sönginn, en Ike annaðist þess í stað píanóleikinn en hann þótt mjög góður sem slíkur.

Image
Rocket 88 Oldmobile var draumabíllinn árið 1951

Með þessa verkaskiptingu var hljóðritað lag Ikes, „Rocket 88”. En Rockett 88 gerðin af Oldmobile bifreiðinni var á þessum tíma nýkomin á göturnar og draumur margra var að eignast slíkan vagn. Sam Philips fannst þetta sannarlega eiga vel við. Lagið var hrátt og taktfast og byggt á laginu „Cadillac Blues” sem notið hafði talsverðra vinsælda í flutningi Jimmy Liggins.
Lagið Rockett 88 kom út á merki Chess útgáfunar, sló í gegn og náði fyrsta sæti bandaríska Rythm ´n´ blues listans í júní 1951 og seldist í um hálfri milljón eintaka. Hvorki Ike né hljómsveit hans voru þó skráðir flytjendur lagsins á smáskífunni, heldur sveit sem aldrei var til í raun og veru: „Jackie Brenston with the Delta Cats”.

Image
Rockett 88

Sam Philips hélt því fram alla tíð síðan að þetta hafi verið fyrsta Rock ´n´ roll lagið sem gefin var út á hljómplötu og hafa margir rokkfræðingar tekið undir þá skoðun. „Rockett 88” var tekin upp þrettán mánuðum áður en Sam Philips stofnaði eigið upptöku- og útgáfufyrirtæki, Sun Records og rúmum þrem árum áður en Elvis nokkur Presley gekk inn um dyr Sun útgáfunar til að hljóðrita sína fyrstu smáskífu.

Lagið Rocket 88. hefur líka annað sögulegt gildi eins og minnst er á í bók Tinu Turner „I Tina”, sem kom út árið 1986, því það er sagt hafa haft afgerandi áhrif á ungan söngvara frá Georgiu sem kallaði sig Little Richard, hann fékk víst eitt og annað að láni sex árum síðar og viðurkenndi fúslega að upphaf lags hans „Good Golly, Miss Molly” ásamt píanóstílnum væri fengið að láni frá Ike Turner og lagi hans „Rockett 88”.

Image
Bowie & Tina

En rétt eins og „Rockett 88” hafði áhrif á Little Richards, markaði tónlist hans tímamót í lífi ungs snáða á Bretlandi. Því þegar faðir David Robert Jones, sem síðar nefndi sig Bowie kom heim með dvergskífu er hafði að geyma lög Little Richards ákvað hann að verða rokkstjarna og ekkert annað. Svona hafa tónlistarmenn í gegnum tíðina haft áhrif hvor á annan og lög og söngvar sáð fræi í vitund og vilja, orðið uppspretta sköpunar, sem við hin störum og hlíðum hugfangin á. Það er eins og um sé að ræða einhverskonar stöðuga hringrás. Segja má að þessari tilteknu hringrás hafi verið lokað árið 1983, er Bowie tilkynnti forráðamönnum Capitol/EMI útgáfunar í veislu sem haldin var að tilefni útgáfu plötu hans, Let´s Dance að hann yfirgæfi samkvæmið til að fara og hlýða á eina uppáhalds söngkonuna sína, Tinu Turner. Forráðamenn útgáfunnar fylgdu Bowie í forundran á tónleikana, því ítrekað hafði Ameríkudeild fyrirtækisins hafnað því að gefa út plötu með Tinu fyrrum eiginkonu Ike Turner. En eftir tónleikana var hinsvegar engin fyrirstaða af þeirra hálfu og platan hennar, Privat Dancer sló í gegn eins og menn muna. Þannig má segja að frá Ike Turner og laginu „Rockett 88” hafi hafist hringrás áhrifa sem staðið hafi yfir í heil 32. ár og lokast hjá fyrrum eiginkonu Ikes, Tinu Turner sem átti það svo sannarlega inni eftir þá óblíðu sem henni hlotnaðist af hendi eiginmannsins eða hnefa réttara sagt. En þá sögu þekkja líklega margir.

Þess má loks og geta að Bill Haley hljóðritaði líka þetta lag á sínu fyrsta R&B tímabili ásamt hljómsveit sinni Saddlemen, að áeggjan Dave Miller stjórnanda Holiday Records. En Bill Haley hefur stundum verið nefndur guðfaðir fyrstu heilu rock plötunnar eins og áður var minnst á.
Með útgáfu lagsins „Rockett 88” var hafinn nýr kafli í tónlistarsögu veraldarinnar sem enn stendur yfir og ber yfirskriftina ROCK ´N´ ROLL og í Íslenska kafla þeirrar sögu  skráði Bubbi Morthens sig árið 1980 um aldur og eilífð.

Samantekt: Bárður Örn Bárðarson 

Heimildir:
25 Years of Rock, by John Tabler and Pete Frame, copyright: 1980 Hamlyn Publishing Group Ltd.
Encyclopedia Of Rock Stars by Dafydd Rees & Luke Crampton, copyright:  1996 Dorling Kindersly Limited London, UK
History of Rock & Roll – The Rolling Stone Illustarated, by  Jim Miller, copyright:  1980 Rolling Stone press
The New Illustarated ROCK Handbook by Mike Cliffoed,  copyright: 1986 Salamander Books Ltd., UK
Encyclopedia Of Rock, by Tony Russell, copyright: 1983 Hennerwood Publications Limited, UK
David Bowie – Living on the brink, by George Tremlett, copyright:  1996 George Tremlett. USA
I, Tina by Tina Turner & Kurt Loder copyright: 1986 Avon Books, USA

BMK er aðdáendaklúbbur Bubba Morthens.

Stofnaður 06.06.06
Hvernig gerast menn félagar í BMK? 

Please publish modules in offcanvas position.