Main Header

1982

30. janúar 1982 fékk Bubbi Magnús Stefánsson, fyrrum meðlim Utangarðsmanna og síðar Bodies, til að setjast við trommusett Egosins í stað Jóa ,,Motorhead“. En pressan skrifaði að til hafi staðið að Maggi færi að spila með Brimkló. Maggi hvorki neitaði né staðfesti þær sögusagnir.
 

4. febrúar 1982 Samkvæmt frétt Morgunblaðsins hélt Egoið í Hljóðrita fimmtudaginn 4. febrúar og hóf þar einhverjar upptökur. Magnús trommari var þá með í för, enda nýgenginn til liðs við sveitina.
 

198202066. febrúar 1982 Var slegið upp tónleikum á Lækjartorgi fyrir tilstilli aðstandenda myndarinnar Rokk í Reykjavík. Tónleikarnir voru kvikmyndaðir af Friðriki Þór Friðrikssyni, framleiðanda myndarinnar. Hluti tónleikanna var síðar nýttur í kvikmyndina. Þess má geta að hér trommaði Maggi í fyrsta skipti opinberlega með sveitinni. Á myndinni má sjá Bubba á Lækjartorgi við þetta tækifæri.
 

10. febrúar 1982 gengu meðlimir Egosins inn um dyr Hljóðrita ásamt Tómasi Tómassyni (sem átti eftir að koma við sögu allra stúdíóplatna sveitarinnar). Egoið tók upp grunna 5 laga þennan dag. Meðal þeirra var Stórir strákar fá raflost, lagið var sungið inn á íslensku og síðar á ensku undir heitinu Big boys en þetta lag var annað tveggja sem sveitin hljóðritaði á báðum tungumálunum. Auk þess voru tekin upp lögin Vægan fékk hann dóm, Minnismerki og Tungan.
 

14. febrúar 1982 kláraði Egoið að taka upp grunna fyrir sína fyrstu hljóðversplötu. Talsverð vinna var eftir innan veggja hljóðversins við hljóðblöndun.
 

26. mars 1982 Birti DV úrslit í vinsældakosningu Dagblaðsins og Vísis. Bubbi var þar valinn vinsælasti textahöfundurinn. Hann var í þriðja sæti sem vinsælasti tónlistarmaðurinn og sem lagahöfundur ársins á eftir þeim Gunnari Þórðarsyni og Jóhanni Helga í báðum þessum flokkum, í öðru sæti á eftir Jóhanni Helga sem söngvari ársins. Loks var Plágan í fjórða sæti sem plata ársins. Bubbi mætti á Stjörnumessu Dagblaðsins og Vísis sem haldin var á Brodway þar sem úrslit voru kunngerð (25. mars) og fór með ljóðið Ég er karmaður fyrir viðstadda, sem hefði reyndar átt að hneyksla liðið en fékk þess í stað klapp frá salnum.
 

1. apríl 1982 kom fyrsta plata Egosins út, Breyttir tímar. Platan innihélt hvern smellinn á fætur öðrum og sló í gegn á útgáfudegi.
 

1982041010. apríl 1982 var kvikmyndin Rokk í Reykjavík frumsýnd og plata með tónlist myndarinnar kom út. Þar á Egoið 4 lög. Kvikmyndaeftirlitið bannaði myndina innan 16 ára vegna atriða og viðtala í myndinni, meðal annars við Bubba. Ákveðið var að klippa út þær setningar sem kvikmyndaeftirlitinu þóttu of grófar. Aldurstakmarkið lækkaði í 14 ár. Þessari afstöðu kvikmyndaeftirlitsins var mótmælt með tónleikum (sjá 21. apríl 1982). Talsverður fjöldi mætti á frumsýninguna, m.a. Bubbi ásamt meðlimum Egosins. Þessi mynd var tekin við það tækifæri.
 

16. apríl 1982 náði platan Breyttir tímar 2. sæti yfir best seldu plöturnar á lista DV, en platan sat á topp 10 í 19 vikur.
 

17. apríl 1982 efndi Egoið til annarra tónleika á Lækjartorgi undir kjörorðinu ,,Rokk í Reykjavík“. Tónleikarnir voru hugsaðir til auglýsingar og styrktar útgáfu Friðriks Þórs á myndinni og tvöfaldri plötu.
 

21. apríl 1982 var efnt til tónleika undir yfirskriftinni ROKK GEGN BANNI í Bæjarbíói Hafnarfirði, til að mótmæla því að kvikmyndin Rokk í Reykjavík skyldi bönnuð börnum yngri en 14 ára. Þá þegar höfðu atriði verið klippt úr myndinni. Á tónleikunum komu fram hafnfirska skólahljómsveitin Stress, kvennasveitin Grýlurnar og Egoið.
 

14. maí 1982 var lagið Móðir í 6. sæti á topp 10 yfir mest spiluðu lög útvarpsstöðva. Þetta var eitt margra smella sem platan Breyttir tímar hafði að geyma.
 

1. júní 1982 hélt Egoið í enn eina tónleikaferðina um landið.
 

11. og 12. júní 1982 hitaði Egoið upp fyrir bresku poppsveitina Human League í Laugardalshöll. Báðar sveitirnar fengu góða umfjöllun dagblaðanna fyrir frammistöðu sína.
 

20. júlí 1982 var efnt var til rokkhátíðar með helstu nýbylgjusveitum landsins. Hátíðin fór fram á nokkrum stöðum og byrjuðu með tónleikum í Austurbæjarbíói þar sem Ego og Grýlurnar komu fram. Kvöldið eftir léku sömu sveitir á Hótel Borg. Aðrar sveitir sem fram komu undir merkinu Rokkhátíð ’82 voru Vonbrigði, Fræbbblarnir, Purkur Pilnik, Tappi Tígarrass og Q4U.
 

6. ágúst 1982 komu Egoið ásamt Tappa Tígarrass fram á tónleikum í Laugardalshöll sem upphitunarnúmer fyrir Reggae-sveitina Babatunde Tony Ellis.
 

29. ágúst 1982 mátti sjá klausu í Morgunblaðinu um að fangar á Litla-Hrauni væru á leið í hljóðverið hans Ólafs ,,Labba“ Þórarinssonar (sem áður lék í hljómsveitinni Mánum) til að taka upp plötu. Í samtali við einn meðlim sveitarinnar kom fram að sveitin hefði æft stíft undanfarið og Bubbi Morthens hefði heimsótt þá í nokkur skipti til að æfa með þeim og hvetja þá.
 

10. september 1982 voru haldnir tónleikar í Laugardalshöll undir heitinu ,,Risarokk í Höllinni“. Meðal sveita voru Baraflokkurinn, Ego, Grýlurnar, Þeyr og Þursaflokkurinn. Rúmlega 3000 manns mættu á tónleikana.
 

13. september 1982 birti Þjóðviljinn frétt þess efnis að búið væri að reka Þorleif úr Egoinu og í hans stað kæmi Rúnar Erlingsson fyrrum Utangarðsmaður og Bodies-meðlimur. Síðar kom fram að Bubbi fékk það leiðinlega hlutverk að sjá um brottvikningu Þorleifs.
 

20. september 1982 hélt Egoið í Stúdíó Hljóðrita og hóf upptökur á annarri LP-plötu sinni, Í mynd.
 

22. október 1982 Ego kom fram með nýtt prógramm í Tónabæ.
 

27. október 1982 enn og aftur hélt Egoið í tónleikaferð um landið og voru fyrstu tónleikarnir á Seyðisfirði.
 

1982113317. nóvember 1982 var platan Í mynd gefin út. Gagnrýnendur lofuðu plötuna sem þótti þyngri, í jákvæðum skilningi þess orðs, en Breyttir tímar. Textar hennar þóttu betri og bandið allt mun þéttara. Á myndinni má sjá Bubba árita eintök plötunnar um það leyti sem platan kom út.
 

19. nóvember 1982 eða aðeins tveim dögum eftir útgáfu settist Í mynd í 1. sæti yfir mest seldu plötur landsins, og sat hún á topp 10 í átta vikur.
 

12. desember 1982 kom Egoið fram á úrslitakvöldi Músíktilrauna í Tónabæ. Þessir tónleikar sveitarinnar voru myndaðir og hljóðritaðir. Ætlunin var að gefa þetta út á myndbandi og hljómplötu, en ekkert varð úr því.
 

17. desember 1982 var kvikmyndin Skilaboð til Söndru frumsýnd. Í henni leikur Bubbi fyllibyttuna og smáglæpamanninn Nonna. Þetta er fyrsta leikna kvikmyndin sem Bubbi kemur fram í. Auk þess inniheldur myndin lagið ,,Maður hefur nú“ í flutningi Bubba (það lag kom út á safnplötunni Rás 4 og var síðar gefið út á CD plötunni Bíólögin).

BMK er aðdáendaklúbbur Bubba Morthens.

Stofnaður 06.06.06
Hvernig gerast menn félagar í BMK? 

Please publish modules in offcanvas position.