Main Header

1983

29. janúar 1983 Gullströndin andar var heiti á listahátíð sem stóð frá 29. janúar til 12. febrúar. Aðalhúsakynni hátíðarinnar voru við hlið JL-Hússins við Hringbraut. Um 200 listamenn úr svo til öllum listgreinum komu að þessari hátíð á einn eða annan hátt. Þ.á m. Bubbi Morthens sem m.a. kom fram á Hringbraut 119 þann 4. febrúar og flutti blústónlist. Sama kvöld kom Mike Pollock fram og las ljóð.

 

10. febrúar 1983 Meiriháttar músíkgjörningur á Hótel Borg þar sem Bubbi ásamt fríðu föruneyti kom fram. Hópurinn kallaði sig Mögurlegt óverdós og er nánar fjallað um hann í liðnum Hin og þessi bönd í Hljómsveitir hér á bubbi.is 
 

15. febrúar 1983 hélt Bubbi í hljóðver til upptöku á sinni þriðju sólóplötu, Fingraför. Fyrir lá að meginuppistaðan yrði kassagítar og rödd. Bubbi hljóðritaði nokkur laga plötunnar með skratssöng. Með þær upptökur fór hann á fund Megasar og fékk hann til að semja og syngja með sér inn á plötuna.
 

8. apríl 1983 Bubbi kynnti efni af væntanlegri sólóplötu á tónleikum í Tónabæ.
 

6. maí 1983 Tónleikar í Austurbæjarbíói þar sem fram komu Mórall, Iss!, Þeyr og The Fall en Bubbi Morthens átti sæti í Móral. Nánar er fjallað um sveitina í liðnum Hin og þessi bönd í Hljómsveitir hér á síðunni.
 

maí 1983 ráðgerði hljómsveitin Ego að fara í tónleikaferð til Skandinavíu. Rétt áður en til þess kom sagði Maggi trommari sig úr sveitinni. Í hans stað var fenginn Jökull Úlfsson, mjúkur og teknískur trommari. Fór hann með bandinu þessa ferð og starfaði með sveitinni stuttan tíma eftir heimkomuna. Jökull þessi átti stóran þátt í upphafsstefi lagsins Serbinn sem Bubbi nýtti mörgum árum síðar á plötuna Frelsi til sölu. Reyndar má geta þess að sveitin lék Serbann nokkrum sinnum á tónleikum.
 

1983051717. maí 1983 Hljómsveitin Ego settist niður á veitingahúsinu Torfunni yfir kaffi og vöfflum og tók á móti gullplötum fyrir plöturnar Breyttir tímar og Í mynd. Friðþjófur Helgason tók þar þessa mynd af sveitinni ásamt útgefanda. Daginn eftir héldu Bubbi og Rúnar í frí til Portúgals en Beggi og Bjarni Friðriks hljóðmaður flugu til Lundúna til að kaupa ný tæki fyrir sveitina.
 

22. maí 1983 kom svo loks út þriðja sólóplata Bubba, á jafnmörgum árum. Fingraför inniheldur meðal annars tvö lög sem Megas syngur ásamt Bubba. Þetta þótti marka tímamót þar sem Megas hafði ekki sent frá sér efni í þó nokkur ár. Lag Megasar Fatlafól sló í gegn um leið. Til marks um vinsældir plötunnar má nefna að samtals sat platan í 18 vikur á topp tíu yfir best seldu plöturnar, þar af 8 vikur í 1. sæti.
 

23. júní 1983 Þátturinn Dropar í umsjón Arnþrúðar Karlsdóttur var á dagskrá Ríkisútvarpsins. Meðal efnis er viðtal við Bubba Morthens um manninn á bak við rokkstjörnuna.
 

1. júlí 1983 auglýsti veitingastaðurinn Safarí Nýtt Ego. Þar var átt við Jökul Úlfsson trommara auk þess sem Gunnar Rafnsson var með sveitinni sem hljómborðsleikari.
 

3. júlí 1983 mættu Egoið, Grýlurnar og Deild í Laugardalshöll til að hita upp á tónleikum fyrir Echo And The Bunnymen, sem voru á leið á Roskhilde hátíðina í Danmörku.
 

29. júlí 1983 Lokaþáttur Áfanga í Ríkisútvarpinu þar sem ein af frægari hljómsveitum íslenskrar tónlistarsögu varð til, og kom fram hér undir heitinu Gott kvöld, og skartaði framlínupönkparinu Björk Guðmundsdóttur og Einari Erni.  Í þessum þætti voru líka þeir bræður Bubbi Morthens og Tolli auk Megasar.
 

12. ágúst 1983 Egoið auglýst á Hótel Borg og í auglýsingunni kemur fram að nú fari hver að verða síðastur að upplifa Súper-Egoið áður en sveitin haldi í hljóðver. Um leið eru nýir meðlimir kynntir til sögunnar, þeir Gunnar Hrafnsson á hljómborð og Jökull Úlfsson á trommur.
 

1983091010. september 1983 var efnt til friðartónleika í Laugardalshöll undir kjörorðinu Við krefjumst framtíðar. Auk þess sem Egoið var á svæðinu kom Megas fram á tónleikum í fyrsta sinn í langan tíma. Þá stigu og á svið Tolli og Ikarus, Kukl og Vonbrigði auk hljómsveitarinnar Svart og sykurlaust. Hér sést Bubbi á sviðinu þetta kvöld.
 

Október 1983 Þó ekki sé vitað með vissu hvenær þá vitum við að það gerðist fyrir jólin þetta ár að hljómsveitin Oxmá sendi frá sér kassettuna Biblía fyrir blinda. Hún var aðeins gefin út í 200 eintökum og vegna mistaka voru um helmingur upplagsins gallaður þannig að ekkert fór inn á bandið. Það eru því aðeins um 100 eintök sem voru raunverulega gefin út. Á A-hlið spólunnar mátti finna tónleikaupptökur með sveitinni en á B-hlið var samansafn ýmissa hljóðritana. m.a syngur Bubbi eitt lag með sveitinni Me and My Baby. Segir sagan að Bubbi hafi ekki vitað að útgáfu lagsins fyrr en eftir að spólan kom út.
 

10. nóvember 1983 gaf Steinar hf út safnplötu með Bubba Morthens, Línudans. Platan inniheldur mörg af bestu lögum Bubba auk tveggja nýrra: Hermaðurinn og Stríðum gegn stríði. Platan fékk misgóða dóma gagnrýnenda.
 

2. desember 1983 gaf Spor, dótturfyrirtæki Steinars hf, út plötuna Rás 4 þar sem finna má lag Bubba Maður hefur nú úr myndinni Skilaboð til Söndru.
 

desember 1983 Morgunblaðið fór að fjalla um samningsmál Bubba, m.a. að hann hafi undirritað samning við Safarí Records en sé þó ennþá samningsbundinn Steinari hf. Bubbi átti óformlegt viðtal við blaðið og frábað sér umræður um þessi mál á síðum blaðanna. Þetta er kannski merkilegt fyrir það að þarna eru nefndar samningsupphæðir við undirritun útgáfusamninga en slíkt hafði ekki tíðkast og gerir reyndar ekki enn.

BMK er aðdáendaklúbbur Bubba Morthens.

Stofnaður 06.06.06
Hvernig gerast menn félagar í BMK? 

Please publish modules in offcanvas position.