4. janúar 1993 tilkynnti Bubbi forráðamönnum útgáfufyrirtækisins Steinari hf að hann vildi slíta samstarfi sínu við útgáfuna. DV birti frétt þess efnis 14. janúar. 15. janúar skýrir DV svo frá því að Bubbi eigi í viðræðum við Skífuna um útgáfusamning. Svo virðist sem sagan endurtaki sig þar sem þetta var í annað sinn sem Bubbi sleit samningi við útgáfuna. Það gerði hann og 1984. Sem og þá spunnust um þetta talsverð blaðaskrif og þá mættu þeir Bubbi og Steinar í útvarpsþætti til að skýra hvor sína hlið málsins. Allt virtist stefna í málaferli vegna þessa þar sem Steinar hf. taldi Bubbi skulda útgáfunni uppfyllingu samningsins til að geta sagt honum upp. Þar á meðal enska útgáfu Kúbuplötunnar Von. Bubbi var þessu ósammála og taldi fyrirtækið skulda sér peninga m.a. í formi stefgjalda.